Fréttir frá 2011

02 4. 2011

Staðan í viðræðum föstudag 4. feb

 Í þessari viku hafa forsvarsmenn iðnaðarmannasambandanna fundað nokkrum sinnum og áttu síðan seinni partinn í gær fund með framkv.stjóra SA og fulltrúum samtaka vinnuveitenda iðnaðarmanna.

 

Í stuttu máli er staðan þessi. Þegar SA tilkynntu að þeir myndi setja hagsmuni LÍÚ fram fyrir aðra og stoppa þar með viðræður, var haft samband við þá og þeim tilkynnt það væri óásættanleg að launamönnum væri gert að bíða bótalaust á meðan útgerðarmenn væru að lemja í gegn sínum sérhagsmunum. Við hefðum enga aðkomu að þessum viðræðum og ætluðum ekki að blanda okkur í þær, en þessa pattstöðu mætti  leysa með því að gera stuttan samning á meðan verið væri að leysa stóru málin sem báðir aðilar vildu að lægi fyrir þegar og ef langtímasamningur yrði gerður.

 

Á fundinum í gær komu fram jákvæð svör af hálfu SA og okkar vinnuveitenda við að láta á það reyna í næstu viku hvort þessi leið væri fær og stilla upp módeli sem báðir aðilar gætu sætt sig við sem grunn viðræðna. Í þessu sambandi er einnig vert að minna á að svokölluð neysluviðmið eiga að koma fram í næstu viku, en það hefur verið krafa samtaka launamanna að þau lægju fyrir ef gera ætti kjarasamninga.

 

Fyrir liggur að hittast á vinnufundum á mánudag þar sem yrði farið yfir hugmyndir beggja aðila og taka þar ákvarðanir um framhald.

 

Grunnhugmynd iðnaðarmannafélaganna er að gera samning fram á vor þar sem kæmu launahækkanir í formi eingreiðslu, eða til vara ákvæði um að þær launahækkanir sem samið verði um gildi frá áramótum.

 

Á þessum tíma yrði látið á það reyna hvort hægt væri að ná niðurstöðum í þeim stóru málum sem báðir aðilar setja sem forsendur fyrir 2 - 3ja ára kjarasamning. Ef það tækist myndu aðilar gera langtímasamning og þessi skammtímasamningur yrði þá hluti hans.

 

Ef ekki væri búið að ná ásættanlegir niðurstöðu að loknum þessum tíma, t.d. 1. maí, í sérviðræðum aðildarfélaga og heildarsamtakanna gagnvart stjórnvöldum og sveitarfélögum og ekki síst verðtryggingu (rauð strik) launaþátta, þá falli allt niður. Við værum þá óskuldbundinn á byrjunarreit.

 

En í þessum samning yrði að vera framlengingarákvæði, sem tæki á þeirri stöðu að ef ekki væri búið að ná endanlegum niðurstöðum en stutt í þær, til þess að koma í veg fyrir að við værum ekki kjarasamningslaus fram á sumar á meðan verið væri að leysa það. Það þýddi í raun að ekki yrði sest að borðum aftur fyrr en í haust. Þetta framlengingarákvæði væri þannig að launahækkanir kæmu inn frá og með 1. maí ásamt hækkun orlofsuppbótar og samningurinn framlengdist til 1. sept. en þá félli hann allur niður ef ekki væri búið að semja og við værum á upphafsreit.  

 

Í heildarsamning, ef af yrði, kæmu sérstakar hækkanir á lægstu taxta og tilslakanir frá stjórnvöldum og sveitarstjórnum í kjaraviðmiðum skatt- og bótakerfis. Það myndi skapa enn meiri kaupmáttarauka þeirra lægst launuðu. Þetta er í grunnatriðum það sama og komið hefur fram á félagsfundum sambandsins og í miðstjórn ásamt samninganefndarmönnum. Ef þetta tekst væri hægt að reikna með að  viðræður gætu farið á fullt upp úr næstu helgi.

 

Þessa dagana eru í gangi viðræður nokkurra hópa, þannig að það er töluverð vinna í gangi þó svo að það beri ekki mikið á henni opinberlega.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?