Fréttir frá 2011

01 27. 2011

Hingað og ekki lengra - Fjölmennur fundur á Sauðárkróki

Í dag var haldinn fjölmennasti félagsfundur sem haldin hefur verið á því svæði. Sé litið til viðhorfa og fundarsóknar í fundarröð RSÍ undanfarnar vikur, hefur orðið mikil viðhorfsbreyting frá útspili SA/LÍÚ.

 Samstaða félagsmanna hefur snaraukist. Nánast allir félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins á Norðurlandi vestra mættu fundinn í dag og fullt var út úr dyrum. En nú hafa tæplega 500 félagsmenn sótt félagsfundi RSÍ undanfarnar tvær vikur á 7 stöðum á landinu.

 

Eins og á fyrri fundum í þessari fundarröð var fjallað um hver þróun viðræðna hefði verið við undirbúning kjarasamninga fram að útspili SA/LÍÚ um að stoppa allar viðræður þar til niðurstaða um kvótamál næst, sem að mati LÍÚ sé ásættanleg.

 

Í kjölfar þessa hefur til viðbótar fylgt sú hótun af hálfu SA/LÍÚ, að það þýði ekkert að reyna að fá viðtöl um kjarasamninga við þá, ekki verði rætt við einstök félög fyrr en fyrir liggi samræmd heildarstefna. Eða með öðrum orðum fámenn klíka í SA hefur tekið alla launamenn á landinu í gíslingu. Þannig ætla þeir að ná í gegn tryggingu á eign sinni á kvótanum.

 

Fram að þessu útspili hafði Vilhjálmur Egilsson framkv.stj. SA ítrekað lýst þeirra skoðun, og hér er vitnað orðrétt til endurtekinna ummæla hans. „Koma verði í veg fyrir átök á vinnumarkaði í sameiginlegum viðræðum um launaramma í 3ja ára kjarasamning með stöðugleika að markmiði, ná fram styrkingu krónunnar og möguleika til kaupmáttarauka. Langtímasamningur biði upp á, bæði hvað varðar launahækkanir, ekki síður kaupmáttaraukningu í skjóli stöðugleika, aukinni atvinnu, vaxandi fjölda starfa með meiri verðmætasköpun.

 

Undanfarin misseri hefði ríkt kyrrstaða, sem er afleiðing af þrefi stjórnmálamanna um alla skapaða hluti. Hagkerfið væri keyrt áfram að einkaneyslu og engin fjárfesting er í gangi. Það gæti ekki leitt til annars en vaxandi erfiðleika. Ef hver hópur færi fram og reyndi að ná til sín því sem frekast kostur væri, gæti slíkt ekki leitt til annars en að þeir sem minnst megi sín og búi við erfiðustu starfsskilyrðin muni sitja eftir."

 

Rafiðnaðarmenn höfðu á fjölmennum fundum ekki hafnað því að ræða málin á þessum grunni, en 180° beygja SA/LÍÚ hefur þjappað mönnum saman. Vitað er að tæknifyrirtæki eru ósátt við þessa stefnu SA/LÍÚ, hún gengur þvert á hagsmuni þessara fyrirtækja og starfsmanna þeirra.

 

SA/LÍÚ hafa sett til hliðar heildarhagsmuni þessa samfélags og eru vísvitandi að þvinga fram svæsin átök á vinnumarkaði, þar sem stéttarfélögin munu krefjast skammtímasamninga, á meðan LÍÚ ætlar að þvinga stjórnvöld til hlýðni við sig eða að skapa pólitíska upplausn og þvinga réttkjörna ríkisstjórn frá.

 

Fram kom af hálfu fundarmanna að það blasi við öllum hvort sé markmið LÍÚ og þeim takist með því að þvinga ríkisstjórnina frá að ná fram endanlegu markmiði sínu að halda kvótanum í höndum örfárra. Með þessu er verið að valda launamönnum gríðarlegum skaða, kjarasamningar dragast, uppbygging atvinnulífs seinkar og atvinnuleysi vex í stað þess að minnka. Fyrir þessu stendur fámenn klíka sem ætlar sér að verja eigin hagsmuni, þó svo það leiði til þess að fleiri heimili falli í valinn.

 

Þess er krafist að hart verði brugðist af hálfu Rafiðnaðarsambandsins. Á morgun föstudag 28. Janúar mun miðstjórn Rafiðnaðarsambandsins koma saman ásamt forsvarsmönnum samninganefnda, þar verður fjallað um niðurstöður félagsfunda og afstöðu SA/LÍÚ. Fram kom á fundinum að Rafiðnaðarsambandið ætti að stefna á að sambandið fari fram sem ein heild í kjarasamningum og beiti öllum sínum vopnum til þess að brjóta á bak aftur ofurvald LÍÚ klíkunnar.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?