Fréttir frá 2011

01 24. 2011

Allt í hnút

Fundur var með samninganefndum ASÍ og SA í Karphúsinu í dag. Þar var farið yfir stöðuna og hún er enn óbreytt.

 SA setur það fram sem skilyrði að lokið verði umræðum um kvótamál og aðspurðir kom það fram að þeim væri ekki nægjanlegt að viðræður myndu hefjast milli stjórnvalda og SA um þessi mál heldur yrði einnig að liggja fyrir efnisleg niðurstaða. Með öðrum orðum að SA vætlaði sér að taka öll stéttarfélögin í gíslingu, til að ná fram ásættanlegri niðurstöðu að þeirra mati.

 

Það má fullyrða með þokkalegum rökum að þetta muni tengjast umræðum um nýtingu orkuauðlinda. Hver verður endurnýjunarréttur og hversu langur verður samningstíminn? Reyndar má ætla að þetta mun að öllum líkindum leiða til þess að orkuverð muni hækka umtalsvert og líklega fara á svipaðar slóðir og það er í Noregi.  

 

Samninganefnd ASÍ sá sér ekki annan kost en að slíta þessum viðræðum, þolinmæði félagsmanna heimilar ekki að þessar viðræður dragist fyrirsjáanlega í langan tíma. Þetta mun þá leiða til þess að samböndin innan ASÍ munu fara fram á að allar viðræður hefjist strax og stefnt verði að á kjarasamning til skamms tíma og reynt verði að þrýsta á viðræður eftir því sem styrkleiki hópana gefur tilefni til.

 

Í svörum ríkisstjórnar í dag kom fram að hún ætlaði ekki að leggja fram niðurstöður neysluviðmiðunar strax.  Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur í viðtölum undanfarið borið þungar sakir á verkalýðsfélögin gagnvart lágmarksbótum í almenna tryggingarkerfinu, það er reyndar Alþingi sem ákvarðar þessar bætur ekki verkalýðsfélögin. Það verður vart hægt að hefja viðræður um grunnlaun  án þess að neysluviðmiðin liggi fyrir. Þannig að áframhald viðræðna er í raun í höndum velferðarráðherra.

 

Þessi staða setur öll mál í ákaflega flókna stöðu. Aukin hætta er á að viðræður þeirra hópa sem verst standa, launalega og atvinnulega,  muni dragast verulega og þeir muni dragast aftur úr þeim hópum sem betur standa.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?