Fréttir frá 2011

01 20. 2011

Félagsfundur á Egilsstöðum

Í kvöld var haldinn félagsfundur á Egilsstöðum. Á fundinn mættu auk heimamanna rafiðnaðarmenn frá byggðunum hér í kring.

EG_2011_3

Umræðuefnið var staðan í viðræðum aðila vinnumarkaðs, og fjallað um þá valkosti sem væru í stöðunni. Hér er vísað til ítarlegri lýsingar í fréttinni af fundinum á Akureyri.

 

Niðurstaðan var eins og á hinum fundanna að fundarmenn töldu að ef takast ætti að skapa raunsæa leið til þess að stöðva kyrrstöðuna og búa til viðspyrnu upp á við þyrfti það að gerast í samstarfi allra aðila.

 

Mikið rætt um hvernig stjórnvöld hefðu ítrekað vikið sér undan því að standa við sinn hluta þríhliða samninga og var bent á mörg atriði á undaförnum áratugum. Einnig var fjallað um stöðu sveitarfélaganna og hvernig þau ætluðu að koma að þessari samningsgerð. Fundarmenn voru sammála um að grípa ætti til skammtímasamninga ef ekki kæmist fljótlega skriður á viðræður.

 

Einnig kom fram að ef ekki næðist samkomulag um þessa leið væri veruleg hætta á að þeir hópar sem væru í lökustu stöðunni myndi verða skildir eftir, þannig að þeir sem helst þyrftu á launahækkunum að halda fengju minnst, það eru þeir hópar sem eru við störf þar sem atvinnuleysið er mest og kaupmáttarhrapið hefur verið stórfelldast. Á þessum grunni væri einkennilegt að heyra menn tala um í sömu andrá að þeir ætli að styðja við þá sem minnst mega sín en einbeita sér að málum þeirra sem eru í bestu stöðunni.

EG_2011_1

Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stafa var á fundinum og voru miklar umræður um mál lífeyrissjóðanna og aðkomu þeirra að málum. Rætt var um hugsanlega aðkomu lífeyrissjóðanna að kaupum á Magma. Þar kom fram að ástæða væri til þess að skoða það verkefni, þar væri áberandi að erlendir lífeyrissjóðir sem væru þekktir fyrir góðar greiningardeildir hefðu komið að kaupunum á Magma, þannig að þarna væri örugglega áhugaverður kostur.

 

Einnig var rætt um þá einkennilegu umræðu sem hefði átt sér stað um Framtakssjóðinn og hans fjárfestingar, áður hefðu verið rætt um að Framtaksjóður hefði hent peningum í vitleysu með sínum fjárfestingum þeim kaupum, en nú væru jafnvel sömu menn að býsnast yfir því að sjóðurinn hefði fengið Vestia á gjafverði og allt útlit væri að sjóðurinn myndi hagnast umtalsvert á þessu.

 

Einnig væri ekki hægt annað en undrast umræðuna um hugsanlegar fjárfestingar í vegagerð. Þar hefði þess verið krafist að lífeyrissjóðirnir legðu fram töluverða fjármuni á kjörum sem augljóst væri að myndi leiða til þess að skerða þyrfti réttindi í almennu sjóðunum. En á sama tíma sætu sjóðirnir undir harklegri gangrýni fyrir að hafa staðið illa að vali á fjárfestingarkostum og hefðu þurft að þeim sökum að skerða réttindi.

 

Upp úr þessu spunnust svo umræður um þann gríðarlega mismun sem væri á því umhverfi sem almennu lífeyrissjóðunum væru búið samanborið við það umhverfi sem lífeyrissjóður opinberra starfsmanna byggi við. Oft væri ekki hægt annað en velta fyrir sér þegar litið væri til umæla ráðherra og sveitarstjórnarmanna að þeir teldu að allt lífeyriskerfið byggi við sömu kosti og LSR, það er að þurfa ekki að hafa áhyggjur að arðsemi og ávöxtun, það sem upp á vantaði til þess að standa við skuldbindingar væri bara sótt í ríkissjóð.

 

Ef ætlast er til þess að lífeyrissjóðir geti staðið við skuldbindingar sínar og tryggt lífeyri allan lífaldur sjóðsfélaga þá þarf að líta til þriggja þátt.

  • a) Lífeyrisaldri, margar þjóðir eru að hækka aldurinn úr 60 - 65 upp í 67ára til þess að mæta hækkandi meðalaldri.
  • b) Iðgjaldi, margar þjóðir hafa verið að hækka iðgjald og er það sumstaðar komið í 16 - 18%. Bent er á að iðgjald hins opinbera í LSR er hærra en í almennu sjóðina. Vilja launamenn láta af hendi þá launahækkun sem í boði er til þess að hækka iðgjaldið?
  • c) Ávöxtun sjóðanna. Ef ávöxtunarkrafa er tekinn niður eins og rætt hefur verið um, þá verður að skerða lífeyrisrétt þeirra sem nú eru á bótum umtalsvert strax, það er að segja í almennu sjóðunum, ekki hins opinbera það væri bara sótt í ríkissjóð. Það liggur fyrir að ef lífeyrissjóðirnir verða að hafa möguleika til þess að ávaxta hina miklu fjármuni sem þar eru þá verða þeir að geta fjárfest erlendis. Það eru ekki nægilega góðir fjárfestingarkostir fyrir hendi á Íslandi. Auk þess má velta fyrir sér hversu örugg fjárfesting það sé ef nánast allar fjárfestingar séu í bréfum með ábyrgð íslenska ríkisins. Hversu öruggt er það?

EG_2011_4

Niðurstaðan varð sú að þetta væru atriði sem ræða þyrfti í komandi viðræðum, það væri mun betra fyrir launamenn að fá aðkomu að þessum ákvörðun, en láta stjórnmálamönnum einum það eftir. Ef ekki yrði sameiginleg stefna mótuð þá væru launamenn að afsala sér þeirri aðkomu og þátttöku í ákvarðanatöku um þessi mál.

 

Einnig var umræða um starfsemi Rafiðnaðarskólans og námskeiðin. Rætt um ferðastyrki og eins námskeið utan höfuðborgarsvæðisins.

 

Fram kom á fundinum að þessa dagana væri verið að ganga frá samningum um heitaveitu í orlofsbyggðina á Einarsstöðum, þar á Rafiðnaðarsambandið 3 hús. Þetta mun gera það að verkum að hægt verði að setja heita potta við húsin og það muni auka umtalsvert nýtingarmöguleika þeirra.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?