Fréttir frá 2011

01 19. 2011

Félagsfundur í Reykjavík

Í hádeginu í dag var haldin félagsfundur í Reykjavík. Metmæting var á fundinum, liðlega 130 félagsmenn mættu.

 

Fundur_Pano_rvk

 

Farið var yfir stöðu mála í sameiginlegum viðræðum um hugsanlega 3ja ára samning með það að markmiði að halda stöðugleika, ná fram styrkingu krónunnar og möguleika til kaupmáttarauka. Umræður voru ákaflega líkar og á Akureyri. Niðurstaða fundarins sú sama það væri ábyrgðarleysi að kanna ekki til hlítar hvað launamönnum stæði til boða með samstarfi á vinnumarkaði, ekki væri hægt að hafna einhverju sem ekki væri þekkt. En herða verði á framgangi mála og fá sem fyrst niðurstöður í þessar viðræður. Þannig að hægt sé að taka til við viðræður um sératriði hópanna.

 

Á fundinn mætti einnig Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stafa þar sem flestir rafiðnaðarmenn eru. Rætt var um verðtryggingu og ávöxtun lífeyrissjóða, stjórnarkjör í lífeyrissjóði, þátttöku lífeyrissjóða í framkvæmdum, auk dómsdagsspádóma um lífeyrissjóði hjá gestum í Silfri Egils.

fundur_rvk_1

Fram kom að horfa verði á dæmið í heild. Á sama tíma og menn væru að gagnrýna ávöxtun sjóðanna, háa vexti og verðtryggingu, væri verið að gagnrýna skerðingu réttinda í almennu sjóðunum. Menn verði að átta sig á því að það er ekki hægt að sækja skerta ávöxtun í ríkissjóð eins gert væri á lífeyrissjóðum tiltekins hóps ríkisstarfsmanna. Það væri ljóst að helsta vandamál íslenska lífeyriskerfisins væri að það væri bundið með of mikið af sínum fjárfestingum hér á landi, kerfið væri of stórt fyrir það.

 

Það gangi ekki upp að krefjast þess að lífeyrissjóðir fjárfesti í framkvæmdum hins opinbera á lágum vöxtum eða í bréfum sem ekki eru tryggð á meðan verið sé að gera kröfur um að ekki sé skert. Þetta hangi saman. Sama eigi við um lánsfé til langs tíma. Það sé ekki hægt að afnema verðtryggingu og halda föstum vöxtum, það leiði til þess að það verði engin til þess að setja fjármagn í langtímalán.

 

Ef þannig kerfi ætti að ganga upp miðað við sveiflukennda krónu, þá yrði að sækja það sem upp á vantaði í ríkissjóð til þess að standa undir því að tryggja sjóðsfélögum 60% af meðallaunum út lífaldur sem væri í dag tæpleg 80 ár, þær upphæðir myndu nema milljörðum króna. Hin leiðin væri að hækka iðgjald og samkvæmt nýlegum útreikningum mætta ætla að hækka þyrfti iðgjaldið um 5%, sem þýddi að menn fengu ekki launahækkun á næstunni, hún myndi renna beint í lífeyrissjóðina.

fundur_rvk_2

Þessi umræða væri eitt af því sem samtök launamanna vildu ræða núna í komandi viðræðum við ríkisvaldið. Næst á eftir kröfum um launahækkanir voru kröfur um samræmingu lífeyrisréttinda. Það gengi ekki upp að lífeyrissjóður hluta opinberra starfsmanna þyrfti ekki að skerða réttindi, á meðan þau væru endurtekið skert í almennu sjóðunum auk þess að ríkisvaldið og sveitarstjórnir skulduðu um 500 MIA kr. í iðgjöld, með þessu væri verið að framvísa skuldunum til barna okkar.

 

Fram kom að Rafiðnaðarsambandið hefði ítrekað sett fram tillögur um breytingar á stjórnarkjöri  í stjórn lífeyrissjóðsins, og hefðu náð fram hluta þeirra krafna.

 

Fram kom harkaleg gagnrýni á stjórn RÚV og Silfur Egils. Það væri óásættanlegt að fjölmiðill sem ætti að vera hlutlaus og væri í eigu landsmanna, væri ítrekað að leiða fram einstaklinga sem einnar skoðunar til þess eins að reyna að fá staðfestingu á skoðunum þáttarstjórnanda. Fyrir lægi að margt af því fram hefði komið um lífeyrissjóðina í Silfri Egils væri rakalausar dylgjur. En um leið hafnaði þáttastjórnandi að sjónarmið þeirra sem gagnrýndir væru fengu ekki að setja fram sínar skoðanir.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?