Fréttir frá 2010

10 2. 2010

Undirbúningur kjarasamninga

Á fundi miðstjórnar Rafiðnaðarsambandsins í gær (föstudag 1. okt.) var m.a. fjallað um undirbúning komandi kjaraviðræðna.

Þessa dagana er í gangi könnun meðal félagsmanna þar sem spurt er um hver meginstefna sambandsins eigi að vera. Hvort fylgja eigi sömu stefnu og verið hefur í undanförnum kjarasamningum, stórum samflotunum þar sem öll áhersla sé lögð á hækkun lægstu launa, eða hvort sambandið eigi að frekar semja um hækkun allra launa og þá til skamms tíma í senn. En það kom fram í athugasemdum margra að það væri reyndar erfitt að taka afdráttarlausa afstöðu fyrr en það lægi fyrir hvað væri í boði í langtímasamning.  

 

Miðað við bráðabirgðaniðurstöðu könnunarinnar þegar 1.100 félagsmenn höfðu tekið þátt í könnunni, þá vill meirihlutinn semja um hækkun allra launa og til skamms tíma. Víða kom fram í athugasemdum að millitekjur hafi setið algjörlega hjá og ekki fengið neinar hækkanir undanfarin ár. Þar fari sá hópur sem hafi farið verst út úr Hruni krónunnar, fengið mestu kaupmáttarskerðinguna.

 

Ríkisvaldið beini þar að auki sínum skattaspjótum ætíð að millitekjuhópunum. Við skoðun á fjárlagafrumvarpinu þá blasir við enn harkalegri aðför að millitekjuhópunum. Það kom reyndar ekki fram í umfjöllun fjármálaráðherra, en ætlunin er að skerða vaxta- og barnabætur með því að láta skerðingarmörkin ekki fylgja verðbólgunni. Þetta samsvarar um 10 milljarða skattlagningu á millitekjuhópana.

 

Ekkert hefur komið fram sem rennir stoðum undir langtímasamning og undir þeim kringumstæðum stendur vilji félagsmanna til þess að semja gera skammtímasamning. Á meðan stjórnmálamenn vilja ekki taka á gjaldmiðilsmálum til framtíðar er útilokað að semja til langs tíma. Mikill meirihluti félagsmanna gerir kröfu um að það verði tekið á þeim málum af festu og til langframa, án þess munum við búa áfram miklar sveiflur efnahagslífsins, sem eyðileggja jafnharðan allan árangur í kjarabaráttunni og leiðir jafnframt til hárra vaxta.

 

Áberandi er í umræðu meðal iðnaðarmanna kröfur um að tekið verði á því hvernig fyrirtækin vinni markvist að því að keyra niður laun með því að stýra verkum inn í samkeppni milli endalausrar runu undirverktaka. Sum af stóru fyrirtækjunum hafa gengið svo langt að gera alla sína starfsmenn að undirverktökum. Þetta er þekkt vandamál á hinum Norðurlöndunum, en hvergi er ástandi eins slæmt og það er að verða hér á landi. Þar spilar einnig inn nánast ótakmarkað frelsi til kennitöluflakks.

 

Ástandið eins og það er að þróast hefur stækkað svarta neðanjarðarhagkerfið og núverandi stefna stjórnvalda getur í raun ekki leitt til annars en að það muni stækka enn frekar. Það mun hafa langvarandi áhrif á ríkisbúskapinn og baráttuna við að verja velferðarkerfið. Það mun taka mikinn tíma að ná vinnumarkaðnum upp úr svörtu hagkerfi ef það verður stórt. Það mun leiða til þess að spila verður enn frekar á bótakerfið og atvinnuleysisbætur munu verða langvinnar og gríðarlega miklar.

 

Á þessu vilja samtök iðnaðarmanna taka í komandi viðræðum og setja fremst í viðræðum við ríkisvaldið. Þar munu ekki duga viljayfirlýsingar, heldur klár lagasetning. Viljayfirlýsingar stjórnvalda hafa þegar á hefur reynt verið afskaplega haldlitlar.

 

Framantalin atriði eru helstu ástæður hvers vegna að rafiðnaðarmenn hafa takmarkaðan áhuga á langtímasamningum.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?