Fréttir frá 2010

12 23. 2010

Jólakveðjur

Fyrir liggur eitt erfiðasta ár íslendinga, mikill niðurskurður og í undirbúningi eru kjarasamningar fyrir alla launamenn.

 Í niðurstöðum 100 manna trúnaðarmannaráðstefnu RSÍ nýverið, kom fram að meirihluti vildi semja til minna en eins árs. En menn töldu að ef fram kæmu samningstilboð til lengri samnings í samfloti við aðra, væri ekki hægt að hafna því fyrirfram. Sé litið til heildarhagsmuna samfélagsins er langtímasamningur bestur, en þá þurfa allir að starfa af heilindum og traust ríkja milli aðila. Ef rafiðnaðarmenn eiga að koma að sameiginlegu borði við gerð langtímasamnings, verður að laga samskipti við stjórnvöld og tryggja vel að umsaminn atriði standi. Tryggja verður meiri stöðugleika og kaupmátt með agaðri efnahags- og peningastjórn.

 

Rafiðnaðarmenn setja það efst í kröfugerð að launahækkanir nái til allra. Bæta má stöðu þeirra lægst launuðu sérstaklega í gegnum skerðingarmörk bótakerfisins, og með frekari tekjutengingum. Í nýju yfirliti frá Hagstofunni yfir laun 7.500 félaga innan ASÍ byggðu á pöruðum launauppgjörum fyrirtækja kom m.a. fram að á þeim samningstíma sem nú er að renna út (sept. 2007 - sept. 2010) hafi laun innan ASÍ hækkað að meðaltali um 18%. Umsamdar lágmarkshækkanir voru tæplega 13%. Laun iðnaðarmanna hækkuðu að meðaltali um 14%. Laun verkafólks hafa hækkað að meðaltali um 23%, þar spila sterkt inn sérstakar hækkanir á lægstu töxtum.

 

Sé litið til launa rafiðnaðarmanna með sveinspróf í þessu úrtaki hjá Hagstofunni, þá eru niðurstöður mjög svipaðar og í nýbirtri launakönnum RSÍ. Meðalheildarlaun í gögnum Hagstofunnar eru um 466 þús. kr. og meðal regluleg laun eru um 330 þús. kr. Meðalheildarvinnutími rafiðnaðarmanna með sveinspróf er um 50 klst. á viku.

 

Það eru ekki kjarasamningar sem hafa mest áhrif á raunlaun okkar og kaupmátt, það er gengi krónunnar sem spilar þar mest inn. Á þessu tímabili hefur kaupmáttur félagsmanna ASÍ fallið að meðaltali um 9,7%. Kaupmáttur iðnaðarmanna hefur fallið um 12.8%. Kaupmáttur tæknifólks hefur fallið um 11.4%. Kaupmáttur skrifstofufólks hefur fallið um 9.5%. og Kaupmáttur verkafólks fallið um 6.3%.

 

Mörgum finnst lítið hafa miðað frá Hruni, of mikilli orku hafið verið eytt í átakastjórnmál og koma höggi hverjir á aðra. Skeytingarleysi hafi verið of áberandi í samfélaginu, of margir hafi látið eins og samfélagið sé eitthvert náttúrulögmál, sem liðist áfram undir stjórn einhverra annarra. Ábyrgð fylgir öllum sem hafa verið þátttakendur í samfélaginu, en óþolinmæði og skeytingarleysi hafa verið of áberandi.

 

Við verðum að spyrja okkur sjálf hvernig samfélag við viljum vera? Samfélag sem hefur laskast þarf að endurskoða sig og hefja uppbyggingu með öðrum aðferðum en áður voru notaðar. Skortur á heildarsýn og langtímamarkmið er veikleiki íslendinga. Á meðan rótgróin samfélög hugsa í mannsöldrum, gera íslendingar áætlanir í misserum. Mikið á að fást strax. Til þess að öðlast mikið þarf að leggja mikið á sig. Allt fæst ekki fyrir lítið. Sá sem er of góðu vanur verður oft firringunni að bráð.

 

Starfsfólk Rafiðnaðarsambandsins þakkar gott samstarf á liðnum árum og sendir öllum félagsmönnum og fjölskyldum þeirra jóla og áramótakveðjur

Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?