Fréttir frá 2010

11 21. 2010

Starfsmenn stéttarfélaga

Það hefur verið í tísku undanfarið að ráðast að starfsmönnum stéttarfélaga, bera á þá alls konar sakir.

 Jafnvel hafa menn þar á meðal fyrrv. þingmenn gengið svo langt að halda því fram að Hrunið sé starfsfólki stéttarfélaga að kenna. Það hafi það eitt fyrir stafni að sitja við tölvurnar á skrifstofum stéttarfélaganna og gambla með fjármuni lífeyrissjóðanna. Spilling og valdagræðgi sé allsráðandi meðal þessa fólks. Það standi ekki með launamönnum.

 

Þetta er reist á þeim stoðum að stéttarfélögin boði ekki til verkfalla og krefjist þess að félagsmenn leggi niður vinnu og mæti á Austurvöll og styðji kröfur sem fámennur hópur fólks hefur sett saman. Kröfur sem gera það eitt að vekja óraunsæjar væntingar hjá fólki sem á í vanda. Allir sem þekkja til þar á meðal ættu fréttamenn vita það helst allra hvaða lög eru ígildi í landinu. Einnig hvað starfsmenn stéttarfélaga starfa við frá degi til dags. T.d. að þeir koma ekki nálægt starfsemi lífeyrissjóða.

 

Þessu er stillt upp með þeim hætti að það sé á ábyrgð starfsmanna stéttarfélaganna að þessar kröfur nái fram að ganga. Kröfurnar ganga út á það að tekið sé sparifé launafólks í almennu lífeyrissjóðunum og það notað til þess að greiða niður skuldir fólks. Lífeyrissjóðirnir verði lagðir niður og eignir þeirra nýttar til þess að laga greiðslustöðu ríkissjóðs. Þeir starfsmenn stéttarfélaganna sem ekki samþykki þetta séu með því að verja áframhaldandi spillingu og völdum sínum. Hvaða völdum? Það er aldrei skýrt og aldrei er farið til starfsmanna stéttarfélaganna og þeir spurðir.

 

Þar fara fremstir í flokki spjallþáttastjórnendur sem taka hvert viðtalið á fætur öðru við menn sem eru þessarar skoðunar og hafna því alfarið að taka viðtöl við starfsmenn stéttarfélaganna, eða lífeyrissjóðanna.

 

Dag eftir dag er starfsmönnum stéttarfélaganna gert að hlusta á þennan boðskap í morgunþáttum og eftirmiðdagsþáttum og í bloggpistlum spjallþáttastjórnenda. Já, lágkúran fer þar um með ofsahraða. Kallaðir eru til spjalls menn sem eru sammála skoðunum spjallþáttastjórnenda. Menn sem vitað er að fari með kolrangar fullyrðingar.

 

T.d. hefur okkur verið gert að hlusta á það undanfarna daga að hægt sé að lækka rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna niður í rekstrarkostnað eins sjóðs með því að sameina þá alla. Allir sem þekkja til í viðskiptum vita að kostnaður við rekstrarráðgjöf og samninga við stóru eignastýringafyrirtækin eru veltutengd. Aftur og aftur upplýsa spjallþáttastjórnendur okkur um fávisku sína, eða kannski frekar á hvaða plani þeir vinna.

 

Allir vita sem vilja vita og þar ættu fréttastofur og starfsmenn þeirra að vita best allra, að á sama tíma liggja fyrir samþykktir félagsmanna stéttarfélaganna sem ganga þvert gegn þessum kröfum. Auk þess að fyrir hafa legið niðurstöður viðurkenndra sérfræðinga að þessar kröfur geti aldrei orðið að veruleika.

 

Hversu langt á að ganga? Þessi vinnubrögð spjallþáttastjórnenda eru það ógeðfelldasta sem ég hef séð á mínum ferli, og hef þó upplifað margt. Ég yrði ekki undrandi þó ég heyrði spjallþáttastjórnendur hvetja til galdrabrenna á heimilum starfsmanna stéttarfélaga.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?