Fréttir frá 2010

11 12. 2010

Helstu niðurstöður trúnaðarmannaráðstefnu

Ráðstefna trúnaðarmanna rafiðnaðarmanna var að ljúka. Helstu niðurstöður voru að meirihluti vill að rafiðnaðarmenn semji sér um launakjör og gerður verði kjarasamningur til eins árs.

 

 

Fram kom á ráðstefnunni mikil reiði gagnvart stjórnmálamönnum hvernig þeim hafi tekist með aulalegum uppákomum samfara getuleysi til þess að takast á við óvinsæla ákvarðanatöku, og eytt verðmætum tíma í að koma sökum á aðra, þá helst samtök launamanna á almennum markaði. Í dag sé svo komið að ekkert traust ríki milli aðila og það þurfi margt að gerast af hálfu stjórnvalda eigi að takast að koma á sameiginlegum kjarasamningum.

 

Rafiðnaðarmenn hafa ekki skipt um skoðun um að sú leið sem aðilar völdu með gerð Stöðugleikasáttmál hafi verið og sé rétt. En stjórnmálamenn klúðruðu því tækifæri illilega og hafa með því tafið endurreisn efnahagslífsins að óþörfu og það geti tekið mun lengri tíma að vinna sig úr þeim vanda sem þjóðin er í, ella hefði þurft. Hér ekki við ríkisstjórnina eina að sakast, hér er við þá sem sitja á Alþingi að sakast.

 

Sé litið til heildarhagsmuna er langtímasamningur bestur, en þá þurfa allir að starfa af heilindum og traust ríkja milli aðila. Ef rafiðnaðarmenn eigi að koma að sameiginlegu borði, verður að taka á nokkrum atriðum og gera það með trúverðugum hætti. Tryggja verður meiri stöðugleika og tryggja kaupmátt. Launahækkanir verða að ná til allra. Bæta má stöðu þeirra lægst launuðu sérstaklega í gegnum skerðingarmörk bótakerfisins, og frekari tekjutengingar.

 

Jafna verður lífeyrisrétt landsmanna, endurskoða skattahækkunaráform. Frídögum fyrir veikindi barna verði breytt í réttindi fjölskyldunnar. Stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum flutt aðhlynningu sjúkra inn á heimilin og þau sitji með það óbætt.

 

Stöðva verður kennitöluflakk og um leið vaxandi svart hagkerfi. Færa staka frídaga í miðri viku að helgum eins og gert hefur verið í nágrannalöndum, um leið tryggja að þessi frí glatist ekki lendi frídagar á löghelgum dögum og það verði til lengingar á orlofi. Aðfangadagur verði frídagur launamanna.

 

Myndir frá ráðstefnunni

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?