Fréttir frá 2010

11 12. 2010

Ályktun um gjaldmiðilsmál

Á trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambands Íslands 11. -12. nóv 2010 var samþykkt eftirfarandi ályktun um gjaldmiðilsmál.

 

Fjármálaráðherra, handhafi eina hlutabréfs Landsvirkjunar, fagnaði því á haustfundi fyrirtækisins að það standi af sér Hrunið, geti staðið við skuldbindingar sínar og farið að greiða skatta til samfélagsins. Þessi staðar er á grundvelli þess að fyrirtækið er gert upp í Dollurum. Svo er komið að öll helstu fyrirtæki landsins í iðnaði og hátækni ásamt útgerðina gera allt sitt upp í Evrum eða Dollurum, svo þau lifi af sveiflur krónunnar og hafi aðgang að erlendri fjármögnun.

 

Í nýlegu viðtali við Seðlabankastjóra Íslands við fréttastöðina Bloomberg eftir fund fjölmargra seðlabankastjóra í Basel, var hann spurður af því hversvegna svona hægt gengi á Íslandi að koma hjólum atvinnulífsins í gang og leysa skuldavanda heimilanna. Svar hans var að það væri vegna þess að á Íslandi væru óábyrgir stjórnmálamenn, sem hefðu lofað almenning almennri lausn sem engar forsendur eru fyrir. Það hefði orðið til þess að allir bíða eftir þessari lausn, sem hafi leitt til kyrrstöðu og hafi aukið vandann. Þegar átti að leysa vandann með taka út 160 MIA af sparifé launamanna í almennu lífeyrisjóðum hafi það verið stöðvað af sjóðsfélögum.

 

Staðreyndin blasir við hinum íslenska almenna launamanni í þessum viðhorfum stjórnmálamanna og ráðherra. Almenning er gert að búa við krónuna, hann á að una því að stjórnmálamenn geti tekið sparifé launamanna bótalaust úr lífeyrissjóðum og nýtt það til uppgjörs á skuldum annarra, auk þess að fá þar framkvæmdafé til gæluverkefna á neikvæðum vöxtum.

 

Þrátt fyrir efnahagslegt hrun, eignaupptöku hins almenna launamanns og kaupmáttarhrap virðist ekkert hafa breyst í þessu landi í viðhorfum sérréttinda- og valdastéttarinnar gagnvart hinum almenna launamanni. Hann stendur á sama á sama stað, þrátt fyrir að hjúalög voru afnumin fyrir eitt hundrað árum ásamt því að almenning er gert að búa við sömu stöðu og var þegar fyrirtækin prentuðu eigin peningaseðla, sem einungis var hægt að nota sem skiptimynt í verslunum sem þau sjálf áttu.

 

Loforð stjórnvalda um úrbætur í gjaldmiðilsmálum og breyttum stjórnarháttum hvað varðar efnahagsmál voru helstu forsendur þess að rafiðnaðarmenn samþykktu á sínum tíma Stöðuleikasáttmálann. Engin trúnaður er í dag milli aðila, ef rafiðnaðarmenn eiga að verða þátttakendur í sameiginlegum kjarasamningum verða stjórnvöld að breyta fyrri háttum og standa við ákvæði samninga.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?