Fréttir frá 2010

11 11. 2010

Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ á Selfossi

Nú stendur yfir árleg trúnaðarmanna ráðstefna Rafiðnaðarsambandsins. Ráðstefnuna sitja tæplega 100 trúnaðarmenn rafiðnaðarmanna frá vinnustöðum í öllum landshlutum. Ráðstefnan stendur yfir 11. - 12. nóv. Fyrir henni liggur að vinna úr þeim áherslum sem félagsmenn hafa sett fram í skoðanakönnunum, sem gerðar hafa verið meðal félagsmanna.

 

Umfangsmesta spurningin sem liggur fyrir ráðstefnunni er hvers konar samninga sjá rafiðnaðarmenn fyrir sér. Langtímasamning byggðu á þríhliða samning milli beggja aðila vinnumarkaðsins og ríkisins eða skammtímasamninga þar sem RSÍ og hin 10 aðildarfélög sambandsins semji sér? RSÍ er með fjölda kjarasamninga, um helmingur félagsmanna er á almenna samningnum við SA. Hinn helmingur félagsmanna er á nokkrum kjarasamningum við orkuveitufyrirtækin, stóru iðnfyrirtækin og símafyrirtækin.

Í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið má segja að félagsmenn skiptist í tvær svipaðar fylkingar, önnur vill stórt samflot, hin vill að gerðir verði skammtímasamningar. Á þeim vængum hafa komið fram þeir fyrirvarar, að stórt samflot geti skapað það umhverfi að betri niðurstaða fáist og þar með sé ekki hægt að hafna því fyrir fram.

Eftir fyrri dag ráðstefnunnar liggur fyrir samdóma álit trúnaðarmanna að aðkoma ríkisstjórnar að þessum samningum muni hafa úrslita áhrif hvort takist að mynda samflot. Ríkisstjórnin brást launamönnum algjörlega í efndum á Stöðugleikasáttmálanum og það er að bitna illa á vinnumarkaðnum núna. Trúnaður milli stjórnmálamanna og launmanna sé þar af leiðandi ákaflega takmarkaður og það þurfi ákaflega góða tryggingu af hálfu stjórnvalda til ef rafiðnaðarmenn fari aftur í samskonar samningsform.

Helstu áhersluefni sem fram hafa komið á ráðstefnunni snúa að launahækkunum. Iðnaðarmenn gerðu sérstakar hækkanir lægstu launa mögulegar í kjarasamningum 2004 og 2007 með því að taka nánast engar launahækkanir úr þeim samningum, þessi árangur hvarf á einni nóttu með hruni krónunnar.

Einnig er jöfnun lífeyrisréttinda ofarlega á blaði, lagfæring á lögum um kennitöluflakk, breytingar á lögum um verkfallsheimildir og tryggingarmál. Launamenn eru að upplifa þessa dagana skelfilegar uppákomur á vinnumarkaði þar sem lögmenn fyrirtækja leita að öllum hugsanlegum smugum í kjarasamningum til þess að hafa af fólki sjálfsögð mannréttindi.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?