Fréttir frá 2010

10 27. 2010

Þing danska rafiðnaðarsambandsins

Þing danska Rafiðnaðarsambandsins er nú í gangi og yfir stendur dagana 26. - 29. okt. Þingið sitja tæplega 300 fulltrúar frá öllum deildum sambandsins.  Atvinnuleysi ástand meðal danskra rafiðnaðarmanna er svipað og heima á Íslandi, það er um 3% og er mun betra en í öðrum starfsgreinum. Atvinnuástandið er verst meðal rafiðnaðarmanna í byggingariðnaðinum.

Umræður hér eru gríðarlega fjörugar og í flestu þær sömu sem fram fóru á ársfundi ASÍ. Minnst af því var í sal, mest í vinnunefndum og drógu aldrei inn í aðalsalinn. Það sem einkennir breytingar á dönskum vinnumarkaði er að einföld störf hafa verið flutt af fyrirtækjunum til svæða í heiminum þar sem launakjör eru mun lægri en í Danmörku, um 200 þús., störf hafa verið flutt frá Danmörku. Allmörg ný hafi verið sköpuð en það sé ekki nóg til þess að vinna upp tapið.

Hér er skortur á velmenntuðu fólki í tæknigreinum. Á þinginu hefur komið fram harkaleg gagnrýni á stefnu ríkisstjórnarinnar, sem er hægri stjórn. Háværar kröfur eru um stefnubreytingu. Búið sé að fylgja hægri stefnu undanfarin ár með þeim skelfilegu afleiðingum sem við blasa. Efnahagslegt hrun með vaxandi atvinnuleysi og lækkandi kaupmætti.

Hér nota flestir ræðumenn myndlíkingar á þeim nótum, að undanfarinn áratug hafi stjóenmálamenn fylgt hinni breiðu hraðbraut hægri stefnunnar. Hraðatakmarkanir hafi verið fjarlægðar og dregið úr eftirliti. Með því hafi hinum tillitslausu sem sniðgangi lög og reglur verið veittur forgangur sem þeir nýit með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið. Viðhorf hinna heimtufreku, tillits- og siðlausa ráða, þeir sem minna mega sín og eigi hægfara faratæki séu dæmdir til þess að verða undir. Tímar lýðskrums séu meðal stjórnmálamanna. Við hlið þeirra gangi forsvarsmenn gerviverkalýðsfélaga sem hrópi í kapp við auðhyggjuna og séu í raun jafnvel fremstir allra í að vinna gegn hagsmunum launamanna.

Staðan á dönskum vinnumarkaði staðfesti þessa þróun, þeir sem minnsta menntun hafi og minnst mega sín falla fram af brúninni, á meðan hinir fáu dragi til sín enn meiri auð. Þetta sé ekki hið norræna samfélag sem launamenn byggðu sér. Á þessum forsendum eigi samtök launamanna að beita sér fyrir því að við næstu gatnamót verði beygt af hraðbraut hins villta hægris og fara inn á þrengri brautir hins svokallaða vinstri, með auknu eftirliti, minni hraða og tilliti til allra. Aukinnar samkenndar og siðgæðis, það skilaði betri lífskjörum og meiri kaupmáttaraukningu.

Nú séu störf send til svæða þar sem launakjör eru lág og aðbúnaður starfsmanna langt fyrir neðan þá þröskulda sem norrænn vinnumarkaður hafi sett. Alþjóðavæðingin auki viðskipti og vaxandi vinna í þróunarlöndum með auknum kaupmætti eigi að vera stefna þjóða, en setja verði ákveðnari leikreglur á alþjóðaviðskipti og koma reglum yfir aljóðafyrirtækin. Félagsleg niðurboð leysa engan vanda, þau leiði einungis til þess að lélegur aðbúnaður þeim sem verst hafa það verða að sætta sig við enn lakari kjör.

Áætlanir stjórnvalda um að skera niður í menntakerfinu muni einungis leiða til enn lakari stöðu á dönskum vinnumarkaði. Danmörk geti ekki keppt við láglaunasvæðin og eigi ekki að stefna í neðri deild þó svo þar gætu jafnvel unnist einhverjir sigrar á slökum keppinautum. Danmörk eigi nú að leggja allt kapp á að auka menntunarstöðu vinnumarkaðsins og halda áfram að keppa í efstu deild. Til þess hafi danskur vinnumarkaður alla möguleika. Auka eigi fjárfestingar hins opinbera, nú eigi hið opinbera að taka lán og auka flæðið í hagkerfinu. Hvert tapað starf er ekki einungis fall einstaks heimilis, samfélagið og hagkerfið tapar enn meiru. Danir séu í spíral niður á við og menn verði að skipta um braut á næstu gatnamótum, áður en það verði um seinan.

Eins og fastir lesendur mínir sjá þá eru hinir dönsku kollegar mínir að fjalla um nákvæmlega sömu viðhorf og fram hafa komið í fyrri pistlum hér á þessari síðu, þar sem fjallað er um viðhorf innan íslenskrar verkalýðshreyfingar.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?