Fréttir frá 2010

10 14. 2010

Netkönnun 2 og niðurstöður könnunar 1

Fyrir nokkru gerði RSÍ fyrstu vefkönnunina þar sem stuðst var við uppsöfnuð tölvupóstföng af skrifstofu RSÍ.

Þar var spurt um hvaða megináherslur félagsmenn vildu að samninganefndir sambandsins vildu fylgja í komandi kjarasamningum. Ætlunin er að nýta þessa leið til þess að gefa félagsmönnum betra tækifæri til þess að vera þátttakandi í stefnumótun sambandsins. Könnunin var send til 2.500 félagsmanna eða tæplega helmings félagsmanna RSÍ, um 1.200 svöruðu.

 

Niðurstöður voru að 40% vilja langtíma kjarasamning í samfloti allra stéttarfélaga og ríkisstjórnar með stöðugleika sem helsta markmið, en meirihlutinn eða 60% vilja stuttan kjarasamning og sambandið semji sér. Margir tóku þó fram að þeir teldu ekki hægt að útiloka langtímasamning fyrr en fyrir liggi hvað sé í boði með langtímasamning, þannig að segja má að hvorugt sjónarmiðið hafi afgerandi meirihluta stuðning.

 

30% vilja leggja áherslu á hækkun lægstu launa, en 70% vilja leggja áherslu á að hækka öll laun. Í athugasemdum kom mjög skýrt fram vilji til að leggja ætti alla áherslu á hækkun launa, en láta önnur kostnaðaratriði sem gætu dregið niður mögulegar launahækkanir eiga sig í þetta sinn.

 

Meirihluti vill frekar að áhersla sé lögð á lengingu orlofs, en lengingu námsorlofs.

 

Umtalsverður meirihluti vill tengja kjarasamninga við annan gjaldmiðil og eru sammála þeirri skoðun sem miðstjórn sambandsins hefur ítrekað sett fram, að það sé óþolandi að stjórnmálamenn sé endurtekið að eyðileggja kjarabaráttu launamanna með því að spila á gengi krónunnar.

 

70% vill jöfnun réttinda í almennum lífeyris og opinberum lífeyrissjóðum. Meirihluti vill ekki hækkun eftirlaunaaldurs og hækkun greiðslu í sameign lífeyrissjóðs, en mikill meirihluti vill frekar hækka greiðslu í séreignarsjóð, ef farið verði að semja um þessi atriði.

 

Í dag er send út könnun 2, þar er spurt um afstöðu til niðurfærslu lána og lífeyrissjóðinn.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?