Fréttir frá 2010

11 12. 2010

Ályktun um lífeyrismál

Á trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands 11. - 12. nóv. 2010 var samþykkt eftirfarandi ályktun um lífeyrismál.

 

 

Stjórnmálamenn hafa skipt þjóðinni í tvær fylkingar í lífeyrismálum, á liðnum áratugum hafa launamenn á almennum markaði varað við afleiðingum þessa og bent á að það myndi aldrei verða sátt um þessa tvískiptingu þjóðarinnar.

 

Almennir launamenn hafa ítrekað mátt una við skerðingu réttinda þegar áföll hafa orðið í efnahagslífinu af völdun rangrar efnahagstjórnunar. Á sama tíma hefur tiltekinn hópur opinberra starfsmanna ásamt þingmönnum og ráðherrum hafa búið sér fastréttindasjóð, þar sem réttindi eru tryggð með lögum, þó inngreiðslur standi ekki undir skuldbindingum þá greiðir vinnuveitandinn (ríkissjóður/sveitarfélag) það sem upp á vantar. Í þessum sjóðum er ávinnsla réttinda auk þess mun hraðari en hjá almennu launafólki. Nú stefnir í verði ekki tekið á þessum málum að hækka þurfi skatta á almennum borgurum vegna þessara skuldbindinga um allt að 3 - 4%.

 

Í tvígang hafa fyrri ríkisstjórnir heitið almennum launamönnum því við frágang kjarasamninga í staðfestum yfirlýsingum að þessi mismunur verði leiðréttur, það var 18.3. 1997 og 13.12. 2001. Þessar yfirlýsingar voru veigamikill þáttur í því að kjarasamningarnir voru samþykktir. Við hvoruga yfirlýsinguna hafa stjórnvöld staðið. Þrátt fyrir það banka stjórnvöld nú á dyr samningaherbergja launamanna og fara fram á að almennir launamenn gangi enn einu sinni til samstarfs við ríkisvaldið og sveitarfélögin um kjarasamninga.

 

Í umræðum stjórnmálamanna hefur komið fram að þeir virðast telja sig hafa ráðstöfunarrétt á sparifé almennra launamanna og líta á það sem óhjákvæmilegt hundsbit, sé almennum launamönnum gert að sætta sig við að sparifé þeirra í lífeyrissjóðum skerðist vegna óábyrgs ráðslags stjórnmálamanna. Málið tekur síðan á sig allt aðra mynd í hugum þeirra ef gengið er á rétt tiltekinna starfsmanna ríkisins, þá verður það að broti á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þessi mismunum er óþolandi og hana verður að stöðva.

 

Trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands krefst þess stjórnvöld standi við fyrri samninga um jöfnun réttinda og það er forsenda þess að gengið verði til sameiginlegra kjarasamninga. Ríkissjóði á að vera óheimilt að draga greiðslur iðgjalda til LSR. Það er siðferðilega rangt að skammsýnir stjórnmálamenn taki með þessum hætti lán sem þeir ætla börnum okkar að greiða.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?