Fréttir frá 2009

10 23. 2009

Tillaga um endurskoðun á lífeyrssamning

Verkalýðsfélag Akranes lagði fram tillögu á ársfundi ASÍ um að gera þær breytingar á samningum um lífeyrissjóði sem tryggi að launafólk yfirtaki stjórnir lífeyrissjóða innan ASÍ.


Jafnframt kom fram að unnið verði að breytingum á reglugerðum sjóðanna þannig að sjóðsfélagar kjósi stjórnarmenn og ársfundurinn samþykki að leggja eigi samninginn í allsherjaratkvæðagreiðslu til þeirra félaga sem eiga aðild að samningnum.

Í umræðum kom fram hjá formanni Verkalýðsfélagsins að félagið byggði þessa tillögu á ályktun sem gerð var í Rafiðnaðarsambandinu fyrir allnokkru. Formaðurinn fór nokkuð ónákvæmlega með staðreyndir, en í umræðum innan RSÍ hefur margoft komið fram gagnrýni á að framkvæmdastjórn SA tilnefni helming stjórnarmanna lífeyrissjóðanna og hafa farið fram viðræður við SA um það mál nokkrum sinnum. RSÍ hefur krafist þess að allir stjórnarmenn lífeyrissjóðs þeirra séu sjóðsfélagar og þeir hafi aðkomu að kosningu þeirra allra.

Nokkur árangur hefur náðst í þessari baráttu rafiðnaðarmanna þar sem að stjórnarmenn sem koma frá rafiðnaðargeiranum eru allir sjóðsfélagar. Innan RSÍ gefa menn kost á sér til stjórnarsetu og síðan er kosið á milli þeirra. Í samtökum fyrirtækja í rafiðnaðargeira færi fram kosning um stjórmenn þeirra og væru þeir sjóðsfélagar. Þær niðurstöður eru síðan bornar upp á ársfundum lífeyrissjóðsins og þar getur hver sem er boðið sig fram á móti þeim og fer þar fram endanleg kosning um hverjir fari i stjórn lífeyrissjóðsins. 

Framsetning Akurnesinga var gagnrýnd, en það náðist góð og afgerandi samstaða ársfundinum um tillögu sem tekur jákvætt á þeim sjónarmiðum sem rafiðnaðarmenn settu fram á sínum tíma og Akurnesingar tóku upp að hluta til í sínum tillögum.

Formaður Akranes fór nokkuð glannalega í framsetningu sinni í umræðum um tillöguna og bar mjög þungar sakir á menn. Hann hélt því m.a. að í miðstjórn ASÍ væru 13 stjórnar- og varamenn í lífeyrissjóðum og að þessir einstaklingar vildu halda sínum valdastöðum og koma í veg fyrir að tillaga Akurnesinga næðu fram. Þessu var harðlega mótmælt af mörgum fundarmanna og formanni Akurnesinga bent á að miðstjórn ASÍ hefði ekkert með kjör stjórnarmanna lífeyrisjóðanna að gera.

Formaður Akurnesinga hélt því fram að þessi hópur beitti fasískum vinnubrögðum og kæmu í veg fyrir umræður og eðlilegar kosningar. Þessu var einnig harðlega mótmælt og bent á að formaður Akurnesinga væru með þessu að niðurlægja þá 250 fulltrúa sem sætu ársfundinn og eins félagsstarf í aðildarfélögum ASÍ. Félagsmenn væru ekki viljalaus handbendi nokkurra einstaklinga. Það væri óásættanklegt með öllu að formaðurinn væri að bera svona sakir á þetta fólk.

Ársfundarfulltrúar lýstu yfir undrun sinni á viðbrögðum formanns Akurnesinga því það væri í raun verið að samþykkja tillögur þeirra um að taka upp viðræður á þeim nótum sem þeir hefði lagt til og byggðu á tillögum rafiðnaðarmanna. Skorað var á menn að fylkja sér um niðurstöðuna hver sem hún yrði og vera. Það væri með öllu óviðeigandi eins og formaður Verkalýðsfélags Akranes gerði endurtekið að fara í fjölmiðla og halda því fram að meirihlutinn væri að kúga minnihlutann. Það færi fram leynileg kosning og þar lýsti hver maður sinni skoðun og það væri lýðræðislegur meirirhluti sem réði niðurstöðunni. 

Fram kom af hálfu rafiðnaðarmanna að þeir myndu aldrei samþykkja að miðstjórn ASÍ færu með mál lífeyrissjóðs þeirra eins og Akurnesingar væru að leggja til. Þeir hefði hingað til séð um sín mál sjálfir fjallað um þau innan sinna raða og myndu gera það áfram. Fjallað væri um lífeyrisjóð rafiðnaðarmanna á hverjum einasta fundi sem haldin væri innan sambandsins og rafiðnaðarmenn fylgdust vel með þróun mála innan síns sjóðs.

Reglur lífeyrissjóðs þeirra væru um margt öðruvísi en hjá öðrum og réttindi mun meiri en hjá flestum annarra. Auk þess að sá sjóður hefði skert umtalsvert minna en aðrir sjóðir.  Sjóðurinn hefði aukið réttindi um 47% á undanförnum árum, en hefði nú orðið að skerða í fyrsta skipti á sínum ferli og það væri mun minna en aðrir sjóðir hefðu skert á undanförnum árum. Sumir væru búnir að skerða töluvert á meðan lífeyrissjóður rafiðnaðarmanna hefði skert um 6%.

Í lok umræðunnar um kjör stjórnarmanna í lífeyrissjóði snéri formaður sér að því að bera sakir á rafiðnaðrmenn og Efling um að þessi félög hefðu staðið í vegi fyrir launahækkunum hjá HB Granda á Akranesi!!?? Formaður Eflingar sagði þetta vera ómerkilegan uppspuna og harla einkennilegt að bera þetta fram í umræðum um stjórnarkjör í lífeyrissjóði, en vera merki um með hvað hætti málflutningur formanns Verkalýðsfélags Akranes væri að jafnaði.

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?