Fréttir frá 2009

10 12. 2009

Þjóðrembuleg viðhorf gagnvart Impregilo

Fráfarandi forstjóri Landsvirkjunar segir Impregilo hafa sætt meira eftirlit og kröfum en aðrir. Þetta er þekkt viðhorf sem ráðherrar ásamt forsvarsmönnum  Landsvirkjunar héldu að almenning á meðan á virkjun stóð.


Ef við lítum aðeins yfir feril þessara framkvæmda og rifjum upp nokkur helstu atriðin
 
a)   Þegar boð Impregilo kom fram í upphafi vakti það undrun fyrir hversu mikið lægra það væri en önnur tilboð. Margir þaulvanir verktakar úr virkjanaframkvæmdum

gagnrýndu hvernig staðið hefði verið að útboðinu, launaliðir væru undir lágmarkstöxtum.
 
b)   Þegar Impregilo hóf að reisa búðirnar bentu trúnaðarmenn og byggingarfulltrúar að húsin myndu ekki standast íslensk vetrarveður. Ráðherrar sögðu að hér væru

glæsilegustu vinnubúðir sem reistar hefðu verið hér á landi og hæddu trúnaðarmenn stéttarfélaganna. Þetta varð til þess að hið bláfátæka erlenda verkafólk átti

ömurlegan vetur í þessum búðum.
 
c)   Trúnaðarmenn verkafólks sögðu strax að hlífðarföt starfsmanna væru langt frá því að vera ásættanleg. Í fyrstu vetrarveðrum kom í ljós að hlífaðarskór héldu ekki

vatni, vettlingar voru örþunnir gúmmíhanskar, hlífðargallar örþunnir. Verkamenn slógust um dagblöð til þess að setja í skó sína og inn á sig.
 
d)   Trúnaðarmenn kölluðu ítrekað á heilbrigðiseftirlit m.a. vegna þess að geymsluaðstaða matar var ekki til staðar. Snyrtiaðstöðu starfsfólks eldhúsa væri verulega

ábótavant. Ekki væru anddyri til þess að geyma blautan hlífðarfatnað. Heilbrigðisfulltrúi sendi hverja aðvörunina á fætur annarri og veitti ítrekuð frávik um skamman

tíma svo bæta mætti úr og svo dagsektum. Fyrirtækið lagaði nokkur helstu atriði og að sunnan kom skipun frá heilbrigðisráðherra um að fella niður dagsektir.
 
e)   Trúnaðarmenn bentu á að engir kaffiskúrar væru út á vinnusvæðum og ekki heldur neinar snyrtingar. Verkafólkið skreið inn í gilskorninga til þess að leita skjóls í

kaffitímum og reyndar voru allir skjólstaðir fljótlega þannig eftir skort á snyrtingum að þar var ekki vært fyrir ódaun.  Vinnueftirlit dró fæturna í málinu en féllst

loks á nokkra gamla ryðgaðir gáma.
 
f)    Trúnaðarmenn bentu brunaeftirliti á að öllum brunavörnum væri verulega ábótavant. Það tók margra mánaða harki til þess að fá helstu lágmarksaðgerðir framkvæmdar.

Í fjölmiðlum var ætíð kynntar úrbætur en aldrei minnst á að það hefði tekið trúnaðarmenn margra mánaða þref að ná fram lögmætum útbótum.
 
g)   Í upphafi var rætt um að fyrirtækið myndi ráða 70 – 80% íslendinga í störfin. Flestir þeirra íslendinga sem sóttu um störf fengu engin svör, sama gilti um

norðurlandabúa.
 
h)   Fljótlega eftir að vinna hófst á svæðinu gagnrýndu trúnaðarmenn launakjör hjá Impregilo. Fyrirtækið  sagði að þetta væri fjarri öllu sanni, en við nánari athugun

kom í ljós að launakjör voru víðsfjarri lágmarkslaunum. Þetta var leiðrétt eftir mikið hark og með harla vafasömum aðferðum.
 
i)     Öryggistrúnaðarmenn bentu ítrekað á að öryggisvörnum væri verulega ábótavant í gljúfrum. Við frostleysingar væru hrun í íslensku bergi langt umfram það sem

þekktist víða erlendis, þetta var fyrst lagað eftir hörmulegt dauðsfall.
 
j)    Trúnaðarmenn stéttarfélaganna bentu á að það væri umtalsverður fjöldi erlendra verkamanna á svæðinu án þess að hafa tilskilin réttindi til aksturs á stórum

vinnuvélum. Eftir nokkuð stapp kom svar frá Félagsmálaráðherra um að á svæðinu hafi verið 645 útlendingar. Erlendir stjórnendur vinnuvéla væru 98 samtals. Í

starfsmannaskýrslum kom fram að frá upphafi framkvæmda hefði verið 1.660 erlendir menn við Kárahnjúka um lengri eða skemmri tíma og 741 séu farnir heim. Í þessu

sambandi má benda á að íslenskt fyrirtæki var á sama tíma dregið fyrir dómstóla og sektað um verulega upphæðir fyrir að hafa notað starfsmenn á vinnuvélum án réttinda.
 
k)   Trúnaðarmenn höfðu samband við sýslumann á Seyðisfirði og bentu á að samkvæmt starfsmannaskýrslum Impregilo væru á annað hundrað erlendra iðnaðarmanna og samkvæmt

landslögum bæri honum að kanna hvort þeir starfsmenn hefðu tilskilinn starfsréttindi. Sýslumaður svaraði 6 mán. síðar þar sem hann framvísaði rannsóknarrétti sínum til

trúnaðarmanna.
 
l)    Í virkjanasamning eru ákvæði um að fyrirtækjum beri að semja við starfsmenn sína um bónusa sem hafa verið um 25%. Eftir áralangt hark tókst að fá Impregilo til

þess að standa við þennan hluta kjarasamnings.
 
m)  Ítrekað kom fram fréttum að birgjar hefðu lent í vandræðum með uppgjör. Sum íslensk gáfust upp á viðskiptum við þá. Landsvirkjun þurfti stundum að hlaupa til sakir

þess að undirverktaka voru komnir fram brún gjaldþrots.
 
n)   Sveitarfélög og ríkisskattstjóri hafa kvartað undan því að fyrirtækið greiði ekki til samfélagsins einsog önnur fyrirtæki.
 
Hér hef ég einungis talið upp örfá helstu atriði sem trúnaðarmenn og starfsmenn stéttarfélaga hafa glímt við. Framkoma Impregilo við íslenska starfsmenn virtist

einkennast af því að hrekja þá úr starfi svo grunnur væri á að ráða frekar erlenda starfsmenn. Þessi listi er ekki síður áfellisdómur yfir félagsmálaráðuneytinu og

þeim stofnunum sem undir því eru.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?