Fréttir frá 2009

10 8. 2009

Nýr starfsmaður endurhæfingarsj

Nýr starfsmaður - starfsendurhæfingarráðgjafi
Rafiðnaðarsambandið hefur í samstarfi við Virk, starfsendurhæfingarsjóð, ráðið til starfa Sigrúnu Sigurðardóttir ráðgjafa í starfsendurhæfingu. Sigrún er með skrifstofu að Stórhöfða 27.

Vinnutími er þriðjudaga, föstudaga og annan hvern miðvikudag. Hlutverk ráðgjafa er að bjóða félagsmönnum upp á þjónustu ef starfshæfni þeirra er skert eða henni er ógnað vegna veikinda eða heilsubrests.

Rauði þráðurinn er að efla virkni einstaklingsins, auka vinnugetu og varðveita vinnusamband hans til að koma í veg fyrir að hann detti út af vinnumarkaðnum. Þegar einstaklingur sækir um í sjúkrasjóð er honum boðið að koma í viðtal til ráðgjafa. Ráðgjafarferlið fer síðan eftir þörfum og væntingum hvers og eins. En markmiðið er að efla færni og vinnugetu til að draga úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku. Lykilatriði í því sambandi er aukin virkni einstaklingsins, efling endurhæfingar og annarra úrræða.
 
Ráðgjafinn er sérhæfður í að aðstoða einstaklinga við að efla færni sína og vinnugetu og hefur til þess aðgang að fjölbreyttum hópi sérfræðinga og fjölbreyttri þjónustu. Um getur verið að ræða aðgang að ýmsum úrræðum og stuðnings aðilum sem geta veitt einstaklingnum viðeigandi meðferð sem miðar að því að efla vinnu getu og varðveita vinnusamband hans.
 
Ráðgjafarferlið tekur mið af aðstæðum hvers og eins, en hér eru nokkur dæmi um
þá þjónustu sem ráðgjafinn veitir:
 
• Ráðgjöf og hvatning sem tekur mið af aðstæðum hvers og eins
• Mat á starfshæfni sem tekur mið af bæði heilsufarslegum og félagslegum þáttum
• Aðstoð við gerð og eftirfylgni einstaklings bundinnar áætlunar um aukna virkni, heilsueflingu og endurhæfingu
• Aðstoð og leiðbeiningar til að tryggja að viðkomandi einstaklingur fái það sem honum ber innan kerfisins
• Aðstoð frá sérfræðingum eftir mat á stöðu einstaklings hverju sinni. Hér getur t.d. verið um að ræða aðstoð lækna, sálfræðinga, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfa, félagsráðgjafa, náms- og starfsráðgjafa o.s.frv.
• Aðstoð í formi stuðnings til náms sem hefur það að markmiði að auka vinnugetu
• Aðstoð í formi skipulagðrar starfs endurhæfingar þar sem einstaklingur inn, atvinnurekandinn og mismunandi fagaðilar vinna saman við að finna leiðir til aukinnar vinnugetu
 
Virkni einstaklingsins sjálfs er lykilatriði í þessu sambandi, að hann sé sjálfur virkur í að auka vinnufærni sína og viðhalda vinnusambandinu. Ráðgjafinn er síðan sá aðili sem hvetur einstaklinginn til virkni og veitir stuðning og upplýsingar. Veikindaréttur fólks er mismunandi langur og því getur fólk hafa verið frá vinnu vegna veikinda í langan tíma áður en það fær aðstoð frá sjúkrasjóði. Það er því mikilvægt að hafa í huga að þegar félagsmaður á orðið erfitt með að sinna starfi sínu vegna heilsubrests þá getur hann sett sig í samband við ráðgjafa. Skilyrði fyrir aðstoð er ekki að viðkomandi njóti aðstoðar sjúkrasjóðs.
 
Félagsmenn geta óskað eftir viðtali við ráðgjafa þótt þeir njóti enn launagreiðslna frá atvinnurekanda eða eru jafnvel ennþá í vinnu en farnir að finna fyrir skertri starfsgetu. Að sama skapi geta atvinnurekendur leitað til ráðgjafa ef þeir hafa áhyggjur af því að starfsmaður þeirra sé farinn að finna fyrir skertri starfsgetu. Þess ber að geta að samstarf er lykilþáttur í vinnu af þessu tagi þar sem aðkoma allra sem að máli koma skiptir máli.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?