Fréttir frá 2009

02 14. 2009

Umsögn um frumvarp til laga um úttekt séreignarsparnaðar

Á fundum rafiðnaðarmanna hafa umræður um Stafi lífeyrissjóð rafiðnaðarmanna ávalt verið áberandi, enda eru þar hundruð milljóna af sparifé rafiðnaðarmanna. Oft hefur rafiðnaðarmönnum þótt stjórnmálamenn fjalla um lífeyrissjóði eins og þar sé almannafé sem þeir hafi til ráðstöfunar.Nefndasvið Alþingis Austurstræti 8 ? 10 150 Reykjavík   Efni:     Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum     Það hefur verið töluvert fjallað um þetta mál á félagsfundum innan Rafiðnaðarsambandsins víða um land að undanförnu. Þau sjónarmið sem komið hafa fram einkennast af áhyggjum um að ef skilyrði eru of opinn hvað útgreiðslu séreignarsparnaðar, þá þurfi lífeyrissjóðir að setja á markað mikið af eignum til þess að losa fjármuni. Þetta gæti numið rúmlega 200 milljörðum króna sem sett væru á markað á skömmum tíma. Í þessu sambandi má minna á auknar heimildir með lækkum aldurmarka í 60 ár.   Eins og ástand efnahagsmála er um þessar mundir þá getur það í raun ekki leitt til annars en mikils verðfalls á umræddum eignum og jafnvel öðrum eignum lífeyrissjóðanna. Sem myndi þá vitanlega leiða til skerðingar á innistæðum allra sjóðsfélaga og þá til enn frekari skerðingar á réttindum, og finnst mörgum nú þegar nóg komið í þeim efnum.   Með öðrum orðum það ástand gæti skapast að allir vildu taka út allan sinn sparnað og styddu kröfur sínar réttilega með að ríkja yrði jöfnuður. Þessar kröfur kæmu jafnvel þó ekki væri full þörf á útgreiðslum, en myndi vitanlega leiða til öflugrar keðjuverkunar niður á við.   Í þessu sambandi spyrja rafiðnaðarmenn ykkur stjórnmálamenn; Hverjir eiga að kaupa þessar eignir? Er verið að stofna til brunaútsölu og tækifæri fyrir hrægamma? Eru stjórnvöld ekki að setja sameignarhluta almennu lífeyrissjóðanna í óþægilega stöðu?  Hafa ekki verið áætlanir um að nýta það svigrúm sem lífeyrissjóðirnir hafa til þess að byggja upp endurreisnarsjóð? Það er ekki hægt að nota sömu krónuna mörgum sinnum.   Það blasir við að enn einu sinni er það krónan sem skapar vanda og setur okkur íslendingum óþægileg mörk og veldur heimilum miklum skaða.   En það er aftur á móti fullur skilningur meðal rafiðnaðarmanna á því að heimila eigi þeim fjölskyldum og einstaklingum sem eiga séreignarsparnað að losa hann, ef það nægir til þess að hjálpa fólki yfir ókleifan þröskuld við að halda heimili sínu. Það eru þau skilyrði sem rafiðnaðarmenn vilja sjá sett upp. Þess verði vel gætt að ef úttekt dugi ekki til þess að koma viðkomandi í gegnum vandan og það blasi eftir sem áður gjaldþrot, þá sé ekki ástæða til þess að gefa skuldareiganda færi á að ná lífeyrissparnaði fólks út og setja það eftir sem áður í gjaldþrot.        Reykjavík 15. febrúar 2009   Virðingarfyllst   Fh Rafiðnaðarsambands Íslands Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?