Fréttir frá 2009

02 25. 2009

Einkennileg vinnubrögð

Það er í raun dapurlegt að viðmælandi fréttastofu hefur ekki einu sinni manndóm til að koma sjálfur fram og fréttastofan sem vill láta taka sig alvarlega lætur það óátalið. Heldur er haft eftir viðkomandi ummæli sem eiga sér engan stað í umræddu bréfi. Þetta er í raun enn furðulegra þegar viðkomandi fréttamaður er með bréfið undir höndum, þar sem ekki er nokkur fótur fyrir þessum ummælum viðkomandi.Formenn 5 stéttarfélaga sem eru með um 15% félagsmanna ASÍ mæta á formannafund ASÍ 5. feb. og bera það á formenn annarra stéttarfélaga og formenn landssambanda, að þar fari fámenn klíka sem ekki sé í tengslum við launamenn í landinu og þeir ætli sér einhendis að afþakka 13 þús. kr. launahækkun. Þegar formennirnir 5 voru spurðir um á hvaða forsendum þeir teldu að hinir hefðu afþakkað launahækkunina fengust engin svör.   Formaður verkalýðsfélags Húsavíkur mætir í sjónvarp í besta tíma á sunnudagskvöldi, þar sem hann segist ekki trúa því að fámenn verkalýðsklíka í Reykjavík ætli að sjá til þess að launamenn, sem einungis séu með 146 þús. kr. í laun á mánuði fái ekki 13 þús. kr. launahækkun. Sjónvarpið heldur áfram næstu daga að leggja málið upp með þessum hætti, þó svo að fyrir liggi að hálfu Samtaka atvinnulífs að þessi launahækkun sé ekki í hendi. Öllum ætti að vera ljóst að forsendur samninganna séu brostnar, um 10 fyrirtæki fari á hausinn í hverri viku, verðbólgan sé 18% og vextir 25%, en þeir séu tilbúnir að gera tilraun til þess að skapa þann möguleika með því að hefja viðræður.   Formaður verkalýðsfélags Húsavíkur birtir síðan á heimasíðu sinni á fimmtudag 19. feb. harla einkennilega færslu, þar sem hann endurtekur þessar ásakanir og ber enn þyngri ásakanir og dylgjur á aðra formenn stéttarfélaga innan ASÍ og formenn landssambanda. Þar kemur ítrekað fram að hann sé að tala fyrir hönd hinna 5 stéttarfélaga, sem sumir þeirra vilja reyndar ekki kannast við og afsegja því sem kemur fram í færslunni.   Þau stéttarfélög og landssambönd sem eru borin þessum þungu sökum biðja forseta ASÍ um að forvitnast um hvort þessi 5 stéttarfélög, sem segjast vera ofurliði borin, vilji vera samferða í komandi viðræðum, hvort ekki sé eðlilegra að heildin beiti sér í því að þau fái að taka sjálf á sínum málum.   Hinir 5 formenn vilja ekki svara en fara aftur á móti en neinu sinni í Sjónvarpið og nú er því stillt upp að hinir alvondu formenn annarra stéttarfélaga innan ASÍ og landssambandsformenn séu að splundra ASÍ og segja hinum 5 formönnum að éta skít.   Forseti ASÍ vildi ekki fara í viðtal út af þessu máli, því hann vill geta beint spurningum til aðildarfélaganna og fá svör frá þeim en ekki í gegnum fréttamenn Sjónvarps. Út úr þessu snýr fréttamaður og er með dylgjur í garð forsetans. Það er í raun enn dapurlegra að viðkomandi viðmælandi fréttastofu hefur ekki einu sinni manndóm til að koma sjálfur fram og fréttastofan lætur það óátalið. Heldur er haft eftir viðkomandi ummæli sem eiga sér engan stað í umræddu bréfi. Þetta er í raun enn furðulegra þegar viðkomandi fréttamaður er með bréfið undir höndum, þar sem ekki er nokkur fótur fyrir þessum ummælum viðkomandi.   Miðstjórn RSÍ hefur fjallað nokkrum sinnum um þetta mál, þar hefur komið fram mjög ákveðinn vilji að vera ekki samfloti við þessi 5 félög um kjarasamninga, ef það kosti að þurfa endurtekið að sitja undir ávirðingum í fjölmiðlum sem eru á því stigi að vera ekki svaraverð og hafa þann augljósa tilgang einn að veikja stöðu verkalýðshreyfingarinnar og fréttastofa Sjónvarps spilar á fullum krafti með.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?