Fréttir frá 2009

12 30. 2009

Breytinga er þörf

Áramótaspjall formanns RSÍ
Undanfarið ár hefur verið okkur Íslendingum erfitt.         

Eftir gríðarlega þenslu og mikinn uppgang skall á okkur sú staðreynd að margt af því sem stjórnvöld og forsvarsmenn viðskiptalífsins héldu að okkur, reyndist vera innistæðulaust sjónarspil. Margir af forsvarsmönnum íslenskra banka og viðskiptalífs virðast hafa stundað óeðlilega viðskiptahætti, allnokkrir sakhæfa og það vísvitandi.

 

Allar leiðir voru nýttar til þess að koma fjármunum undan. Athafnir ástundaðar sem ekki gátu leitt til annars en hruni í lífskjörum almennings. Öllum brögðum beitt til þess að víkja sér undan því að greiða skatta og skyldur til samfélagsins. Þessir menn vilja senda börn sín í skóla og nýta allt það sem samfélagið býður upp á, án þess að greiða sinn hluta.

 

Allt frá upphafi framkvæmda við Kárahnjúka og álver í Reyðarfirði benti RSÍ, og studdist þar við efnahagspár hagdeildar ASÍ, ítrekað á að margar af þeim forsendum sem stjórnvöld byggðu sínar áætlanir á stæðust ekki og krónan væri a.m.k 30% of hátt skráð. Það yrði kröpp niðursveifla að loknum þessum framkvæmdum og stjórnvöld yrðu að gera ráðstafanir til þess að búa efnahagslífið undir það.

 

Fjármunum til að greiða  ofurlaun og risabónusa rigndi ekki ofan af himnum, þar væru bankarnir að hrifsa til sín stóran hluta af arði fjármagns sem almenningur ætti, áður en það kæmi til skipta. Við bentum á að eðlilegra væri að greiða lífeyrissjóðum og sparifjáreigendum hærri vexti og lækka þjónustugjöld bankanna. Stjórnmála- og bankamenn afgreiddu þessar aðvaranir út af borðinu með því að þetta væru neikvæðar úrtölur, menn ættu frekar að fagna því hversu vel gengi.

 

Nú er hrunið afstaðið, spilapeningarnir eru ennþá á borðinu og fjárhættuspilararnir eru enn í spilavítinu, en þeir viku aðeins úr salnum um tíma. Stjórnmálamenn sem voru virkir þátttakendur neita að hverfa af sviðinu. Þessir menn ætla sér ekki að breyta neinu og vilja fá áfram sína bónusa og premíur. Sömu menn eru enn að störfum í greiningardeildunum, þó svo þeir hafi orðið uppvísir að því, að allt sem þeir greindu og allar spár þeirra reyndust vera rangar. Enn er greint á sömu forsendum og gefnar út spár.

 

Pólitískar ákvarðanir skipta í raun orðið litlu og þróun samfélaga heimsins. Almannahagsmunir hafa vikið fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir eru farnar að keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða.

 

Kerfið eins og það er nú, beinist ekki að hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga hafa glatast og viðhorf fjármálamanna hafa tekið yfir. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex.

 

Óheft markaðshyggja og græðgi leiddu Ísland - eina ríkustu þjóð Evrópu - í gjaldþrot og fleiri þjóðir eru á leiðinni. Gjaldþrot auðhyggjunnar og nýfrjálshyggjunnar blasir við hvert sem litið er. Fjárfestar eru prímusmótorar þessa ferlis, blindaðir af veðmálakeppni, sem fer fram eftir flautu greiningardeildanna.

 

Þessi keppni getur ekki leit til annars en að þau samfélög sem við byggðum upp á síðustu öld muni hrynja. Þeim er fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildarhagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.

 

Óska félagsmönnum og lesendum síðunnar árs og friðar. Þakka fyrir gott samstarf á liðnum árum

Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?