Fréttir frá 2009

12 26. 2009

Rafskólp

Skyndilega rataði umfjöllun um svokallað rafskólp inn í fréttatímana.

Það er búið í alllangan tíma að gera margskonar tilraunir til þess vekja athygli á því hvernig óprúttnir skottulæknar hafa verið að spila með trúgirni saklaus fólks og nýta það til þess að hafa af því stórfé. En því miður hefur það ekki tekist sem skildi að koma því á framfæri.

 

Öll þekkjum við þá staðreynd að í rannsóknum hefur ítrekað komið fram að sunt fólk læknast fullkomlega á því að borða hveitipillur. Fyrir um 20 árum eða svo læknaðist margt fólk af allskonar kvillum með því að kaupa sér og ganga með svokölluð segularmbönd, svo maður tali nu ekki um fótanuddstækin sem voru flutt hingað í flugvélum fólki lá svo á að laga heilsuna. Það hafa farið fram gríðarlega miklar rannsóknir t.d. á hinum norðurlöndunum á rafseguláhrifum t.d. hvort spennustöðvar og raflínur nálægt húsum geti valdið sjúkdómum. Það hefur ekkert komið fram sem sýnir með afgerandi eða sannanlegum hætti að svo sé.

 

Í þessu sambandi má t.d. benda á kerskálana í álverunum. Um þá fara gríðarlegir rafstraumar við álbræðsluna. Ég vann í kerskálum Ísal nokkur ár, armbandsúr skemmast á svipstundu ef farið er með þau um skálana. Öllum starfsmönnum álverana er gert að vera í öryggisskóm með stáltám, og þegar gengið er um gólf skálanna leita fæturnir út og suður vegna hinna miklu segulsviða sem eru vegna rafleiðarana milli álbræðslukerjanna. Þarna hafa margir unnið áratugum saman án þess að fram hafi komið nokkrir sjúkdómar og eða nokkur önnur merki um neikvæð áhrif rafsegulbylgjanna. Sama mætti segja um orkuverin og þá sem þar starfa.

 

Inn á skrifstofur Rafiðnaðarsambandsins berast reglulega kvartanir og spurningar vegna starfsemi aðila sem bjóða upp á þjónustu við mælingar á rafbylgjum, sem eiga að streyma fram úr tenglum og ljósum og valda margskonar kvillum hjá mannfólki og skepnum.

 

Þessir aðila bjóða til sölu margskonar búnað, eins og t.d. plaströrsbúta þar sem búið er að vefja vír um nokkra hringi og hengt er upp bak við gluggatjöld eða sett undir rúm, eða stillt upp með miklum leikrænum athöfnum skottulæknanna í ákveðið horn gripahúsa eða bak við gardínur í hjónaherberginu. Við það eiga samfarir hjóna að snarbatna, giktin að hverfa og þunglyndið að gufa upp.

 

Einnig er fólki selt fyrir tugi þúsunda króna eitthvað koparskraut sem á að breyta farvegi rafbylgna. Þessi fáránleiki á að breyta stefnu óvinveittra rafbylgna sem streyma um híbýli fólks, fjós og fjárhús. Spyrja má hvort ekki væri þá allt eins hægt að nýta kertastjakann til þessara athafna eða hvort hann upphefji áhrif töfradraslsins.

 

Það er ábyrgðarhluti að ala á ótta hjá saklausu fólki, sem ekki þekkir til hegðan og eðli rafmagns og nýta þann ótta til þess að selja margskonar þjónustu og mælingar svo ekki sé talað um sölu á rándýrum einkennilegum búnaði.

 

Þessir fánýtu hlutir skipta ekki miklu um öryggi fólks en það er aftur á móti grafalvarlegur hlutur þegar fólk er hvatt til þess að rjúfa jarðtengingar húsa sinna eða rjúfa jarðtengingar í rafklóm. Þarna er reyndar hin mikla mótsögn, því góðar og vel frágegnar jarðtengingar vinna einmitt gegn „óvinveittri" hegðan rafmagns. T.d. getur léleg og engin jarðtenging leitt til þess að rafbúnaður hegði sér ekki eins og hann á að gera og einnig getur myndast mikill spennumunur milli rafhluta og annarra málmhluta í gripahúsum og íbúðarhúsum, sem verður svo lífshættulegur fólki og gripum, Þetta getur einnig leitt til hitamyndunar og íkveikju.

 

Það er nauðsynlegt að markviss kynning verði sett af stað á þessum athöfnum og almenning gerð grein fyrir þeim staðreyndum sem liggi fyrir um „skólp í raflögnum" - „rafbylgjum sem streymi út úr tenglum og raflögnum" og fleiru.

 

Það er rétt að sumstaðar hefur ekki verið gengið nægilega vel frá jarðtengingum oftast vegna þess að ekki eru rekinn niður nægilega góð jarðskaut. Fólk á að leita til fagfólks þegar átt er við raflagnir. Dettur einhverjum að leita t.d. til fisksala með hjartauppskurð, vegna þess að hann á beitta hnífa til flökunnar?

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?