Fréttir frá 2008

01 14. 2008

Faglegur ruslahaugur

Nokkrir hafa haft samband í dag og verið að rifja upp ummæli sem höfð voru eftir íslenskum rafverktaka sem vann við flestar Þjórsárvirkjananna um Sultartangavirkjun. Þessi ummæli voru á sínum tíma ranglega eignuð formanni RSÍ. Við birtum til upprifjunar hluta af því sem birt var á heimasíðunni þ. 17. marz 2000 Staðreyndir faldar En meir svíður okkur undan því mismunandi mati sem lagt er á fagleg vinnubrögð. Þess er krafist réttilega af íslenskum rafiðnaðarmönnum að þeir skili verkum sínum með faglegum hætti og noti viðurkenndan búnað. Gagnvart erlendum fyrirtækjum er allt annað upp á teningnum. Þau komast upp með ótrúlega lélegan frágang og að því að mér er tjáð þá eru þau stundum að setja upp búnað sem ekki er viðurkenndur gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Vanir íslenskir rafiðnaðarmenn sem hafa starfað við uppsetningu á fleiri en einni virkjun segja að Sultartangavirkjun sé faglegur ruslahaugur, hún sé í raun ónýtt drasl(ný leturbr.). Það blasi við þegar erlendu rafiðnaðarmennirnir verða farnir þá verði starfsmenn Landsvirkjunar að laga þann búnað sem erlendu fyrirtækin hafa komist upp með að setja þar upp og endurmontera þurfi alla skápa.   Í skoðunarferð til Sultartanga sem framkvæmdastjórn RSÍ var boðið í af forstjóra Landsvirkjunar fór nokkru eftir að virkjunum var gangsett, voru þeim sýndir rafmagnsskápar ásamt frágangi í virkjuninni. Allt var með miklum ágætum. Einnig var farið með nokkra þeirra afsíðis og sýndir þeir  skápar sem höfðu verið fjarlægðir. Rafiðnaðarmenn hjá Landsvirkjun eru mjög færir og fyrirbyggjandi viðhald þar á mjög háu stigi. Fullyrðing rafverktakans sem vitnað er til í greininni stóðst því fyllilega, það var búið að lagfæra það sem miður hafði farið(ný leturbr.). Ástæða er að geta þess að aldrei mótmæltu rafiðnaðarmenn byggingu þessarar virkjunar. Rafiðnaðarmenn hafa snúið bökum saman og aukið menntun innan starfsgeirans þannig að þeir geti tekist á við hvaða verkefni sem hingað koma. Við viljum að gerðar séu faglegar kröfur til okkar, en förum fram á að það séu gerðar sömu kröfur til annarra sem hingað koma.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?