Fréttir frá 2008

01 25. 2008

Hæstiréttur sýknar formann RSÍ.

Á ársfundi Alþýðusambands Íslands 2005 tók formaður RSÍ þátt í umræðum um kjör erlendra manna sem störfuðu hérlendis á vegum starfsmannaleiga. Tilefni umræðunnar voru ítrekaðar deilur sem starfsmenn 2b og trúnaðarmenn þeirra áttu í við forsvarsmenn leigunnar, þá sérstaklega upplýsingar frá yfirtrúnaðarmanni við Kárahnjúka. 8 mánuðum síðar höfðuðu forsvarsmenn 2b meiðyrðamál á hendur GG. Héraðsdómur ómerkti ummæli GG. Þeirri niðurstöðu var áfrýjað til Hæstaréttar    Þann 16. marz 2007 voru ummæli formanns RSÍ um hátterni starfsmannaleiga dæmd ómerk fyrir héraðsdómi. Upphaf þessa máls var að hér á heimasíðunni var birt fundargerð aðatrúnaðarmanns á Kárahnjúkasvæðinu þar sem hann ásamt túlk fundaði með pólverjum sem störfuðu þar á vegum starfsmannaleigunnar 2b. Þá voru langvinnar deilur og kröfur  um að 2b skilaði launaseðlum til starfmanna sinna og fyrirtækið ásamt lögmanni þess vikust ætíð undan því að skila launaseðlunum.   Auk þess var deilt um margt annað eins og svo oft hafa risið milli starfsmanna og forsvarsmanna þessarar starfsmannaleigu. Fyrirtækið hafði farið inn á bankareikninga starfsmanna án heimldar og tekið þar út fjármuni og eins kom fram að forsvarsmenn 2b höfðu hvatt verkstjóra viðhafa stjórnunaraðferðir sem ekki hafa þekkst hér á landi um langt skeið amk. Allt þetta varð tilefni til umræðu á ársfundi ASÍ sem formaður RsÍ tók þátt í. Blaðamenn höfðu í kjölfar þess samband við formann RSÍ vegna þessa, hann vitnaði í þessar fundargerðir og fjallaði um athafnir leigunnar gagnvart starfsmönnum sínum.   Forsvarsmenn 2b sökuðu formann RSÍ um kynþáttafordóma og höfðuðu síðan 8 mánuðum síðar meiðyrðamál gegn formanni RSÍ vegna þeirra ummæla sem hann hafði látið falla í umræddum viðtölum. Fyrir hérðasdómi staðfestu aðaltrúnaðarmaður, tveir verkstjórar á Kárahnjúkasvæðinu og eins túlkur  að allt það sem formaður RSÍ hefði vitnaði til væri rétt.       Úr dómsniðurstöðu Hæstaréttar 24 jan. 2008: Á ársfundi Alþýðusambands Íslands 2005 tók formaður RSÍ (GG) þátt í umræðum um kjör erlendra manna sem störfuðu hérlendis á vegum starfsmannaleiga. Tilefni ræðu GG voru ítrekaðar deilur sem starfsmenn starfsmannaleigunnar 2b og trúnaðarmenn þeirra áttu í við forsvarsmenn leigunnar, þá sérstaklega upplýsingar frá yfirtrúnaðarmanni við Kárahnjúka.   Farið var yfir þessa umræðu í aðalfréttatíma Stöðvar 2 og Sjónvarpsins m.a. með viðtali við GG. Forsvarsmenn starfsmannaleigunnar töldu ummæli GG ærumeiðandi í sinn garð og höfðuðu þau mál. GG fjallaði um starfsmannaleigur í fleirtölu og án frekari tilgreiningar. Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að hvergi yrði séð, að ummæli GG hefðu að þessu leyti gefið fréttamanni tilefni til að nafngreina 2b fremur en aðrar starfsmannaleigur eða taka viðtal við forsvarsmenn 2b frekar en aðra. GG hefði ekki borið ábyrgð á hvernig fréttarmaðurinn kaus að setja ummæli hans í samhengi við önnur atriði. Ummælin GG hefðu ekki beinst að forsvarsmönnum 2b. Hæstiréttur sýknaði GG af kröfu forsvarsmanna 2b um ómerkingu þessara ummæla.   Einnig var krafist ómerkingar á ummælum GG er vísuðu til háttsemi konu af ákveðnu þjóðerni án þess að GG hefði nafngreint hana. Í skýrslu fyrir héraðsdómi staðfesti GG að konan, sem hann vísaði til í tilgreindum ummælum, væri annar forsvarsmanna 2b, enda væri það ljóst að væri að fjalla um atvik sem fordæmt væri í fundargerð yfirtrúnaðarmanns við Kárahnjúka og hefðu verið staðfest af verkstjórum að umrædd kona væri þar að verki. Hæstiréttur taldi að GG hefði með þessum ummælum sínum sakað þennan tiltekna forsvarsmann 2b um ámælisverða háttsemi, sem sönnur hefðu ekki verið færðar fyrir og með þeim vegið að æru hennar. Hæstiréttur ómerkti þessi ummæli GG.   Að lokum kröfðust forsvarsmenn 2b ómerkingar á ummælum GG um uppgjör félagsins 2b á launagreiðslum til starfsmanna sinna. GG mótmælti því ekki að ummælin vörðuðu 2b og benti á að fyrir lægju í málinu tólf óáfrýjaðir héraðsdómar þar sem 2b var gert að standa skil á nánar tilgreindum fjárhæðum vegna vangreiddra launa. Hæstiréttur féllst ekki á rök forsvarsmanna 2b að þær vanefndir yrðu réttlættar með því að um mistök eða misskilning hafi verið að ræða. Hæstarétti þóttu því ekki næg efni til þess að ómerkja ummæli GG og sýknaði hann af kröfu forsvarsmanna 2b.   Vegna þeirra ummæla sem ómerkt voru var GG gert að greiða öðrum forsvarsmanna 2b 250 þús. kr. í miskabætur auk sömu upphæðar til þess að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu dómsins.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?