Fréttir frá 2008

09 6. 2008

Það eru klárlega erfiðir tímar framundan.

Á miðstjórnarfundi 5. sept. fór formaður RSÍ yfir stöðuna, eins og hún er að hans mati.Á fundum með forsetum og framkv.stj. ASÍ hefur komið fram að í sumar hafi ekkert gerst í samráði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, þó svo stjórnvöld láta í það skína að svo hafi verið. Engin vilji virðist vera hjá stjórnvöldum til að eiga samráð og samræðu við aðila vinnumarkaðarins. Fyrir liggja spár um vaxandi atvinnuleysi á næstu vikum og mánuðum, þessar spár hafa legið fyrir um langt skeið og á grundvelli þess er hægt að gagnrýna viðbrögð stjórnvalda. Mikilvægt er takast á við verðbólguna og þá háu vexti sem nú eru og þegar hafa skilað sér inn í skuldir heimilanna og vaxandi greiðslubyrði.   Við erum þessa dagana að glíma við timburmenn við lok mikils framkvæmdaskeiðs og þar til viðbótar hefur skollið á alþjóðleg lausafjárkreppa. Þegar þetta tvennt fer saman verður staðan mjög erfið og leiðir til mikils gengisfalls krónunnar. Nú eru að koma fram mikil samdráttareinkenni í efnahagslífinu og aukin vanskil. Einu lánin sem fyrirtæki og einstaklingar geta nú fengið eru skammtímalán með vöxtum upp á 20 ? 25% sem engin, hvorki atvinnulíf eða einstaklingar, getur staðið undir til lengdar. Verðbólgan mælist nú 15% og hefur ekki mælst hærri í tvo áratugi. Hagfræðingar ASÍ telja að verðbólgan fari lækkandi á næstunni, en það muni ganga hægt og byggist á því hvort náist meiri stöðugleiki á gengi krónunnar. Kaupmáttur hefur verið að lækka hratt og hefur þegar lækkað um 10%. Margt bendir til þess að hann falli enn frekar og stefni í að verða sambærilegur og hann var árið 2003.   Atvinnuástandið er enn gott í skjóli þess að atvinnuþátttaka hefur minnkað, stórir hópar hafa farið inn í skólana og erlendir starfsmenn farið heim. Hópuppsagnir hafa einungis komið fram að hluta til framkvæmda vegna uppsagnarfrests. Töluvert mörgum var sagt upp við nýliðin mánaðarmót og verulegar líkur virðast vera að enn fleiri verði afhentar uppsagnir um mánaðarmótin sept/okt. Mörg fyrirtæki hafa reynt að halda áfram rekstri með grunnmannafla, en nú eru þau að komast í þrot, engin rekstrarlán er að fá og erfitt að fá greitt. Í könnun meðal stjórnenda fyrirtækja hefur komið fram að 80% þeirra telja að til mikils samdráttar komi á vinnumarkaði í vetur.   Krónan er komin í þrot. Hin mikla útrásar íslenskra fyrirtækja og skuldsetning þeirra, sem hefur leitt til þess að krónan er orðin of lítil fyrir íslenskt efnahagslíf. Þetta hefur blasað frá því stjórnvöld afnámu bindiskyldu bankanna. Það leiddi til mikillar útrásar byggðri á erlendu lánsfjármagni. Auk þess kom mikið fjármagn inn í landið vegna framkvæmda og ekki síðuir vegna sölu krónubréfa. Stjórnvöld ákváðu að efna kosningaloforð um hækkun húsnæðislána og bankarnir svöruðu með 100% lánum. Stjórnvöld hafa ekki fengist til þess að horfast í augu við afleiðingar ákvarðanna sinna. Krónan ræður þar afleiðandi miklu um þá stöðu sem komin er upp jafnframt því að staða efnahagsmála er flókin.   Ríkistjórnin stefnir í eina átt, á meðan Seðlabankinn stefnir í aðra og hækkar í sífellu vexti. Það hefur leitt hratt vaxandi verðbólgu. Verðbólgan er farinn að nærast á sjálfri sér. Vextir setja fyrirtækin í þá stöðu að verða að senda hækkandi rekstrarkostnað út verðlagið, sem aftur veldur enn meiri verðbólgu. Þær lausnir sem menn draga upp verða að taka mið af þessu. Það verður að skapa trúverðugleika á krónunna og stöðugleika. Nú er verið að kanna mögulega upptöku Evru án aðildar að ESB. Í sjálfu sér er í því fólgin mikilvæg viðurkenning stjórnvalda á að aðgerða sé þörf. Þau hafa hingað til vikist undan þeirri umræðu.   Flóknasta verkefni komandi vetrar hvað varðar kjaramál er að nokkrir hópar hafa fengið umtalsverðar launabreytingar á undangengnum misserum, á meðan aðrir hafa fengið lítið. Í þeirri stefnu og aðgerðum sem gripið verður til í vetur, verður að verja þá sem minnst hafa fengið í gegnum launaskrið yfir það samningstímabil sem er renna út á þessu ári. Það er mikilvægt að ASÍ greini stöðuna og móti áherslur sínar hvað varðar samskipti við SA og stjórnvöld. Þetta þarf að vera grunnur þeirrar vinnu sem fer fram næstu vikurnar.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?