Fréttir frá 2007

03 13. 2007

Af hverju er reynt að fela árangur í efnahagstjórnun?

Það er svo margt einkennilegt í stjórnmálaumræðunniÉg skil ekki hvers vegna forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins með Hannes Hólmstein í broddi fylkingar virðast skammast sín fyrir þróun efnahagsmála. Þekkt er að þeir hafa í stórblöðum erlendis hrósað sér af því að hafa haft sjónarmið Frjálshyggju að leiðarljósi við mótun efnahagsstefnu á Íslandi og náð lengra en þau ríki sem talin eru hafa náð lengst í þessum málum. Hvers vegna vilja Hannes Hólmsteinn og forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins alls ekki kannast við árangur sinn hér á landi.   Tveir prófessorar við Háskólann Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason hafa sýnt fram á með haldgóðum rökum að kaupmáttaraukning hafi verið ójöfn. Einnig hefur komið fram rannsókn sem þriðji háskólaprófessorinn Ragnar Árnason hefur gert, að ekki sé við kjarasamninga á vinnumarkaði að sakast í þessum efnum, þar hafi laun verið hækkuð jafnt upp allt kerfið og lægstu laun jafnvel fengið ívið meiri hækkun. Stefán hefur lýst þróun yfir tíma og notaði sama hugtakið allan tímann. Tölur hans standa fyllilega fyrir sínu, Gini stuðullinn hefur hækkað á liðnum árum. Hann hefur augljóslega verið að hækka meira ef horft er til heildartekna með fjármagnstekjum en heildartekna án fjármagnstekna. Þ.e. auknar fjármagnstekjur eru að skýra hluta af auknum ójöfnuði. Gini stuðull ráðstöfunartekna er að hækka mest þar sem markvist hefur verið dregið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Minnkandi tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins má rekja til nokkurra þátta: Persónuafslátturinn lækkaði á árunum 1993-2006. Hátekjuskatturinn hefur verið aflagður. Skattur af fjármagnstekjum er lægri en af öðrum tekjum. Vaxandi vægi fjármagnstekna í heildartekjum hefur þess vegna leitt til þess að munur á tekjudreifingu heildartekna fyrir og eftir skatt hefur minnkað. Meðaltekjur hinna tekjuhæstu hækkað umfram tekjur annarra, einkum fjármagnstekjur þeirra. Tekjur hinna lægst launuðu hækkað það mikið að margir þeirra sem áður voru skattlausir greiða nú skatt. Það dregur úr jöfnuði, en nákvæmlega hversu mikið geta menn deilt um, en að hafna þessari þróun er skrumskæling á sannleikanum. Það eru ákvarðanir stjórnvalda sem hafa mest áhrif á kaupmátt og ekki síst hjá þeim lægstlaunuðu. Nær öll vestræn ríki hafa aukið jöfnunaráhrif skatt- og velferðarkerfa sinna. Jöfnun með sköttum og bótakerfi velferðarkerfisins hér á landi hefur minnkað. Skattleysismörkin eru sá þáttur skattkerfisins sem helst jafnar tekjuskiptinguna þegar aðeins er eitt skattþrep. Á þetta hefur verkalýðshreyfingin margoft bent og bent á að annað hvort verði að hækka skattleysismörk og binda þá við launavísitölu eða taka upp fjölþrepa skattkerfi. Ef skattleysismörk fylgja ekki launavísitölu er gengið í átt til aukins ójafnaðar í tekjuskiptingunni á Íslandi. Einnig hafa frítekjumörk og skerðingarákvæði stjórnvalda valdið fátæku fólki hér á landi miklum skaða.   Einnig má benda á að ríkisstjórnarflokkarnir gengu bak orða sinna frá því í sumar, þeir lofuðu að bætur í vaxtabótakerfinu myndu ekki skerðast frá því sem þær hefðu verið. Stjórnaliðar breyttu vaxtabótakerfinu þannig að umtalsverður hópur ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu fær ekki þær vaxtabætur sem það gerði ráð fyrir þegar það keypti sína fyrstu íbúð. Barnabætur hafa auk þess lækkað. Allt þetta eykur ójöfnuð enn frekar og bilið milli allra þrepa tekjustigans.   Það er svo margt sem ég skil ekki t.d. má benda á hvers vegna sjálftaka alþingismanna og ráðherra úr ríkissjóð sé ekki til umfjöllunar þessa dagana. Hér á ég við eftirlaunaósómann og lífeyrisréttindin. Samkvæmt útreikningum hagdeildar SA má leggja  umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegnir embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru ígildi 113 m.kr. starfslokagreiðslu eða 122% launauppbótar. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?