Fréttir frá 2007

04 17. 2007

Starfsmannaleiga eignalaus!

Starfsmannaleigan 2b og forsvarsmenn hennar hafa átt harla einkennilegan feril á íslenskum vinnumarkaði og ítrekað verið í fjölmiðlum vegna starfsemi sinnar . Verkstjórar á Kárahnjúkasvæðinu báru m.a.a í fjölmiðlum að forsvarsmenn leigunnar hefðu hvatt þá til að ástunda stjórnunarhætti sem ekki þekkjast hér á landi og hafa margir starfsmenn leigunnar flutt yfir á önnur íslensk fyrirtæki.     Í haust vann Afl fyrir hönd pólverja mál gegn starfsmannaleigunni 2b, þar sem fyrirtækinu var gert að endurgreiða kostnað sem það hafði dregið sér af launum starfsmanna sinna. Óskað hefur verið gjaldþrotaskipta á Starfsmannaleigunni 2b eftir að gert var árangurslaust fjárnám hjá fyrirtækinu 16. mars sl. (Árangurslaust fjárnám þýðir að ekki fundust neinar eignir skráðar hjá fyrirtækinu er unnt væri að koma í verð). Gjaldþrotabeiðnin verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness 9. maí nk. og má búast við að fyrirtækið verði úrskurðað gjaldþrota þá. Komi til þess munu lögmenn AFLs innheimta vangoldin laun félagsmanna AFLs hjá fyrirtækinu, sem þeim voru dæmd í Héraðsdómi Austurlands sl. haust, hjá Ábyrgðasjóði launa, þannig að launaskuldir 2b við erlenda starfsmenn er fyrirtækið hlunnfór, lenda á íslenskum skattgreiðendum. Kröfur lögmanna AFLs nema nú um 5 milljónum króna. Samkvæmt heimildum heimasíðunna stunda forráðamenn 2b nú starfsmannaleigu undir nýrri kennitölu.  

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?