Fréttir frá 2007

04 18. 2007

Laun pólskra rafiðnaðarmanna leiðrétt

Starfsmenn RSÍ héldu fundi í gærkvöldi á Eskifirði með pólskum rafiðnaðarmönnum. Farið var yfir kjarasamninga hér á landi og réttindi launamanna á íslenskum vinnumarkaði. Fyrir nokkru hafði komið í ljós að launakjör þeirra fullnægðu ekki lágmarkskjörum. Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni kom í ljós fyrir nokkru að allmargir pólskir rafiðnaðarmenn voru að störfum á austfjörðum án þess að gengið hefði verið frá skráningu þeirra og starfsréttindi staðfest. Ekki höfðu verið gerðir ráðningarsamningar samkvæmt reglum íslensks vinnumarkaðs og launakjör fullnægðu ekki lágmarkskjörum. Starfsmenn RSÍ gengust í því að öllum kröfum yrði fullnægt og tókst eftir nokkuð þóf á fá því framgengt. Í gær voru haldnir fundir á Eskifirði hinum pólskum félögum okkar og athugað hvort fyrirtækin hefðu staðið við samninga um að leiðrétta kjörin og reyndist svo vera. Farið var yfir kjarasamninga hér á landi og réttindi launamanna á íslenskum vinnumarkaði. Eins og margoft hefur komið fram þá munu aðilar vinnumarkaðsins ekki una því að einstök fyrirtæki vinni skemmdarverk á íslenskum vinnumarkaði. Ástæða er að geta þess að það eru ekki einvörðungu stéttarfélögin sem hafa verið þessarar skoðunnar, Samtök atvinnulífsins hafa einnig marglýst því yfir að öll fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði verði að virða settar reglur.  Íslensk fyrirtæki hafa boðið í þau verkefni sem um er að ræða og þau hafa vitanlega miðað sín boð við lögbundna kostnaðarliði og þau launakjör sem eru í gildi. Eftirtektarvert er hversu opnari hinir erlendu launamenn eru í dag sé litið tilbaka. Þeir hafa skynjað stöðu sína og hika ekki við að setja fram réttmætar kröfur. Eins og margoft hefur komið fram þá hafa ákveðin fyrirtæki reynt að verja sig með því að ala á ótta hinna erlendu starfsmanna sinna og hvatt þá til þess að forðast fulltrúa stéttarfélaganna. Ástæða þess að umrædd mál fóru af stað voru þær að það er hér á landi er einfaldlega mikill fjöldi erlendra launamanna og þeir hittast á vinnustöðunum og eins á kvöldin og bera saman bækur sínar. Sem betur fer verður það sífellt erfiðara fyrir einstök fyrirtæki að komast upp með að lifa í einangraðri veröld í neðanjarðarhaghagkerfi þar sem skammtíma hagsmunir eru látnir ráða för. Það er svo umhugsunarefni að starfsmenn stéttarfélaga skuli vera dregnir fyrir dómstóla og sektaðir fyrir að vekja athygli á þessu. Guðmundur Gunnarsson     

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?