Fréttir frá 2007

04 28. 2007

Afstaða 16. þings RSÍ til helstu þjóðfélagslegra verkefna næstu misserin.

Umfangsmiklar umræður voru um þjóðfélagsmál og helstu verki í komandi kjarasamningum. Lögð var áhersla á að stöðugleika verði að ná og jafna og stöðuga uppbyggingu atvinnulífsins. Það verði ekki gert án þess að reisa fleiri orkuver. Bent var á fleiri möguleika en stóriðju, ma. gagnavinnslu og tölvuhýsingu.    Samskipti aðila á vinnumarkaði á Norðurlöndum hafa þróast alla síðustu öld og byggja á gagnkvæmu trausti.  Þessi samskipti eru grundvöllur hins norræna módels, þjóðfélagsgerðar okkar heimshluta.  Þrátt fyrir margendurteknar hrakspár um hin norrænu þjóðfélög, hafa þau sannað sig í að vera þau samkeppnishæfustu meðal þjóðfélaga og atvinnuleysi er þar minnst.  Norðurlöndin hafa sýnt sig í að vera meðal þeirra þjóða sem eru best búin undir framtíðina og samkeppnina sem fylgir hnattvæðingunni.  Hér ríkir friður og öryggi langt umfram aðra heimshluta.  Um ein milljón erlendra farandverkamanna vinnur á norrænum vinnumarkaði og njóta þar velferðar og sterkra lýðræðishefða hinna norrænu samfélaga.  Það er skoðun rafiðnaðarmanna að halda eigi áfram á þessari braut og byggja á öflugu og virku velferðarkerfi, góðri menntun fyrir alla, jöfnuði og jafnrétti og traustum réttindum.   Þingið sátu 134 þingfulltrúar   Þrátt fyrir þetta hefur ekki tekist að skapa sama stöðugleika verðlags og velferðar hér á landi og í samkeppnislöndum okkar.  Gengi íslensku krónunnar hefur sveiflast mikið og eitt helsta verkefni í komandi kjarasamningum, verður að stuðla að því að verðbólga festist ekki í háum tölum og mikilvægt að koma vöxtum í svipað horf og annarsstaðar.  Góð staða þjóðarbúsins er að stærstum hluta til reist á  sölu fyrirtækja í eigu ríkisins og miklum viðskiptahalla, sem hefur skapað gífurlega veltu og miklar skatttekjur til ríkissjóðs.  Hvik staða efnahagslífsins getur leitt yfir okkur  geysilegan vanda og erfið ár. Ef ekki tekst vel til þá er forsenda lækkunar skatta og virðisauka byggð á sandi og skattar duga þá ekki til almenns reksturs velferðakerfisins.   Rafiðnaðarmenn telja að ræða eigi kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu með dýpri, víðari og skilmerkari hætti en nú er gert.  Talið er að kostnaður við ESB-aðild Íslands sé um 5 milljarðar króna á ári.  Slíkar greiðslur auk þess sem varið er til að vernda krónuna er ekki hár í samanburði við þann kostnað sem er af háu vaxtastigi hérlendis og miklum vaxtamun gagnvart nágrannaþjóðunum, sem heimilin þurfa að greiða.   Haraldur Jónsson þingforseti   Rafiðnaðarmenn leggja eins og áður áherslu á jafna og stöðuga uppbyggingu atvinnulífsins.  Auka þarf útflutningstekjur til þess að jafna viðskiptahallann.  Byggja þarf á áframhaldandi virkjun fallvatna og jarðvarma, en gæta verður að því hvar borið er niður í þeim efnum.  Einnig þarf að efla hverskonar atvinnustarfsemi byggða á nýrri þekkingu og tækni.  Tryggja verður að hvoru tveggja dafni með öðrum og eldri atvinnugreinum í landinu.  Ruðningsáhrif mikilla framkvæmda og samspil við illa skipulagðar og handahófskenndar breytingar á fjármálamarkaði, hafa valdið hátæknifyrirtækjum rekstrarvanda.  Stjórnvöld verða að taka tillit til íslenskra hátæknifyritækja og útrás íslensks tæknifólks.  Möguleikar okkar til frekari uppbyggingar hátækni eru jafnir á við stóriðju.  Þar má benda á alþjóðlega tölvuhýsingu og gagnavinnslu.  Slík starfsemi þarf mikla orku, mikinn fjölda tæknimanna og er án mengunaráhrifa.  Byggja þarf upp öflugt ljósleiðarasamband á milli landa, í eigu og rekstri ríkisins og án gjaldtöku.   Margt hefur áunnist í að ná fram stefnumiðum verkalýðshreyfingarinnar.  Þar má nefna skýrari löggjöf um réttindi og stöðu launafólks, einkum innflytjenda.  Lög um fæðingar- og foreldraorlof og nýleg lög um atvinnuleysistryggingar eru framför.  Þó er verk að vinna í að aðlaga velferðarkerfið m.a. að ört vaxandi styrk almenna lífeyriskerfisins og samræma hlutverkaskiptingu þess og almannatrygginga og annarra stoðkerfa velferðarsamfélagsins.   Ísleifur Tómasson gerir grein fyrir sínum skoðunum   Rafiðnaðarmenn hafa lagt á það sérstaka áherslu að tryggja stöðugleika og sérstaka hækkun lágmarkslauna.  Góður árangur á þessum vettvangi hefur leitt til mikillar styttingar vinnuvikunnar.  Á því samningstímabili sem er að líða hækkuðu lágmarkslaun rafiðnaðarmanna um 47%.  Vinnuvika rafiðnaðarmanna hefur á undanförnum áratug styst um 10 tíma, þrátt fyrir það hafa heildarlaun vaxið og kaupmáttur launa hefur vaxið samfellt.  Þetta er ávöxtur þess sem launamenn sáðu til við gerð Þjóðarsáttar. Rafiðnaðarmenn setja sér það markmið að stytta vinnuvikuna enn frekar á næstu árum samfara því að verja áunnin kjör.   Hagsmunir launafólks eru orðnir alþjóðlegir.  Íslensk verkalýðshreyfing er að berjast á hnattrænum vinnumarkaði.  Hnattvæðingin hefur leitt til harðnandi samkeppni um hver geti boðið lægstu kjörin.  Mörg fyrirtæki hafa flutt úr landi til svæða þar sem kjör og réttindi eru margfalt lakari en hér.  Það er óásættanlegt að íslensk stjórnvöld séu að gera fríverzlunarsamninga við ríki sem ekki viðurkenna  grunnvallarmannréttindi.  Rafiðnaðarmenn gera kröfu um að þau lönd sem Ísland gerir viðskiptasamninga við uppfylli allar átta grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.   Eftirmenntun launafólks hefur tekið stórstígum framförum í kjölfar þess að aðilar vinnumarkaðsins sömdu um aukna fjármuni til menntastarfs og allt starf orðið markvissara.  Allt of stór hluti launamanna hefur ekki lokið skilgreindri námsbraut.   Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar eiga að taka höndum saman um að setja sér metnaðarfull og vel skilgreind markmið.  Á næsta áratug þarf að gera stórátak í að treysta stöðu þeirra tugþúsunda fólks á vinnumarkaði sem hafa litla formlega menntun, með raunfærnimati, náms- og starfsráðgjöf og sérstöku menntunarátaki.  Setja á markmiðið við að innan við 10% vinnuaflsins verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsmenntunar í lok þessa tímabils.  Tryggja á rétt einstaklingsins til að ljúka a.m.k. einu viðurkenndu námi á framhaldsskólastigi á kostnað ríkisins, auk rétts til raunfærnimats og möguleika á að sækja sér aukna menntun með námsorlofi.  

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?