Fréttir frá 2007

05 1. 2007

1. maí ræða formanns RSÍ 2007 á Höfn Hornafirði

Við höfum náð töluverðum árangri, en það eru mörg verkefni sem bíða úrlausnar. Það er til fátækt hér á landi, bæta þarf kjör öryrkja og aldraðra. Endurskoða þarf það skerðingarkefi sem stjórnvöld hafa komið upp. Bæta þarf vaxtabætur og bartnabætur. Stytta á vinnuvikuna og hækka lágsmarkslaun. Bætta efnahagsstjórnun og stöðugleika svo atvinnulífið nái að dafnaSamskipti aðila á vinnumarkaði á Norðurlöndum hafa þróast alla síðustu öld og byggja á gagnkvæmu trausti.  Þessi samskipti eru grundvöllur hins norræna módels, þjóðfélagsgerðar okkar heimshluta.  Þrátt fyrir margendurteknar hrakspár um hin norrænu þjóðfélög, hafa þau sannað sig í að vera þau samkeppnishæfustu meðal þjóðfélaga og atvinnuleysi er þar minnst.   Norðurlöndin hafa sýnt sig í að vera meðal þeirra þjóða sem eru best búin undir framtíðina og samkeppnina sem fylgir hnattvæðingunni.  Í okkar heimshluta ríkir friður og öryggi langt umfram aðra.  Um ein milljón erlendra farandverkamanna vinnur á norrænum vinnumarkaði og njóta þar velferðar og sterkra lýðræðishefða hinna norrænu samfélaga.  Verkalýðshreyfingin hefur haldið því fram að halda eigi áfram á þessari braut og byggja á öflugu og virku velferðarkerfi, góðri menntun fyrir alla, jöfnuði og jafnrétti og traustum réttindum.   Það eru nokkrir stjórnmálamenn sem virðast ekki átta sig á hlutverki stéttarfélaganna og telja að þau séu að skipta sér af hlutum sem einungis stjórnmálamenn hafi með að gera.  Til stéttarfélaga er stofnað af hópi fólks úr tiltekinni starfstétt til hagsmunagæslu.  Þessi hópur bindst samtökum um að gera kjarasamning við fyrirtæki sem starfa í geiranum og tryggja að engin starfi á lægri launum en um er samið.  Það er ekki nóg að semja um launin, það er ekki minna hlutverk að gæta þess að verðgildi umsaminna launa haldist, þar skipta skattar, þjónustugjöld, vextir og verðbólga mestu máli.   Starfsvið stéttarfélaganna er víðtækt.  Íslensk stéttarfélög reyndu árangurslítið fyrri hluta síðustu aldar að fá stjórnvöld til þess að tryggja launamönnum svipað umhverfi og þekktist annarsstaðar á Norðurlöndum.  Þegar það tókst ekki þá snéru þau sér til fyrirtækjanna og byggðu upp öryggisnet þjóðfélagsins í kjarasamningum.  Fyrst var samið um sjúkrasjóði og síðar lífeyrissjóði.  Íslenska almanna tryggingarkerfið er í mörgum tilfellum með mun lakara bótakerfi en tíðkast á hinum Norðurlöndunum.  Til að mæta þessu sömdu íslensku stéttarfélögin um lengri veikindarétt og sjúkrasjóði, sem tryggðu félagsmönnum sjúkradagpeninga.   Íslensku stéttarfélögin sömdu líka um lífeyrissjóði, sakir þess að almenna lífeyriskerfið fullnægði engan vegin eðlilegum kröfum.  Í gegnum lífeyriskerfi okkar höfum við byggt upp örorkubótakerfi.  Þingmenn og ráðherrar hafa búið sér ásamt hluta opinberra ríkisstarfsmanna annað kerfi.  Almennir lífeyrissjóðir verða að lækka ellilífeyri til þess að geta staðið undir ört vaxandi örorkubyrði, á meðan sækja ráðherrar og þingmenn í ríkissjóð kostnað vegna örorkubóta sinna sjóða.   Þessu til viðbótar eru stjórnvöld sífellt að seilast lengra ofan í vasa almennu lífeyrissjóðanna með því að láta skerðingar- og frítekjumörkin fylgja ekki launavísitölu.  Þau eru sífellt að flytja stærri hluta kostnaðar almenna tryggingarkerfisins yfir á lífeyriskerfið.  Margir stjórnmálamenn og reyndar fleiri, virðast líta á lífeyrissjóðina sem einhverja stóra peningafúlgu sem þeir geti ráðstafað.  Þrátt fyrir þá staðreynd að lífeyriskerfið er í raun ekkert annað en sparifé í eigu sjóðsfélaga viðkomandi sjóðs.  Lífeyrissjóðirnir og sjúkrasjóðirnir áttu að vera viðbót við almenna tryggingarkerfið, ekki koma í stað þess.   Efnahagsstjórn stjórnvalda, eða réttara afskiptaleysi, hefur leitt til þess að okkur hefur ekki tekist að skapa svipaðan stöðugleika verðlags hér og í samkeppnislöndum okkar. Gengi íslensku krónunnar sveiflast um tugi prósenta. Það er verður í komandi kjarasamningum brýnt verkefni, að stuðla að því að verðbólga festist ekki í háum tölum og koma vöxtum í svipað horf og annarsstaðar.   Á hve traustum fótum stendur þjóðarbúið, hlýtur maður að spyrja.  Er það rétt sem hagfræðingar ASÍ halda fram, að góð staða þjóðarbúsins byggist á sölu fyrirtækja í eigu ríkisins og heimsmeti í viðskiptahalla, sem hefur skapað gífurlega veltu og skatttekjur til ríkissjóðs.  Þá blasir við okkur geysilegur vandi og erfið ár.  Þá væru forsendur lækkunar skatta og virðisauka byggð á sandi.  Hver verður staða ríkissjóðs ef samdráttur skellur á, duga skattar þá til almenns reksturs ríkisins?   Verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á jafna og stöðuga uppbyggingu atvinnulífsins.  Auka þurfi útflutningstekjur til þess að jafna viðskiptahallann.  Ekki verði komist hjá áframhaldandi virkjun fallvatna og jarðvarma, en gæta verður að því hvar borið er niður í þeim efnum.  Einnig þurfi að efla hverskonar atvinnustarfsemi byggða á nýrri þekkingu og tækni.  Tryggja verður að hvoru tveggja dafni með öðrum og eldri atvinnugreinum í landinu.   Ruðningsáhrif mikilla framkvæmda og samspil við illa skipulagðar og handahófskenndar breytinga á fjármálamarkaði þá sérstaklega á íbúðarlánamarkaði, hafa valdið hátæknifyrirtækjum rekstrarvanda.  Stjórnvöld verða að taka tillit til íslenskra hátæknifyrirtækja og útrás íslensks tæknifólks.  Við þurfum að huga betur að því að möguleikar okkar til frekari uppbyggingar hátækni eru jafnir á við stóriðju.  Þar má benda á alþjóðlega tölvuhýsingu og gagnavinnslu.  Slík starfsemi þarf mikla orku, mikinn fjölda tæknimanna og er án mengunaráhrifa.  Til þess að það geti orðið þarf öflugt ljósleiðarasamband á milli landa, í eigu og rekstri ríkisins og án gjaldtöku.   Margt hefur áunnist í að ná fram stefnumiðum verkalýðshreyfingarinnar.  Þar má nefna skýrari löggjöf um réttindi og stöðu launafólks, einkum innflytjenda.  Lög um fæðingar- og foreldraorlof og nýleg lög um atvinnuleysistryggingar eru framför.  Þó er verk að vinna í að aðlaga velferðarkerfið að ört vaxandi styrk almenna lífeyriskerfisins og samræma hlutverkaskiptingu þess, almannatrygginga og annarra stoðkerfa velferðarsamfélagsins.   Hagsmunir launafólks eru orðnir alþjóðlegir.  Íslensk verkalýðshreyfing er að berjast á hnattrænum vinnumarkaði.  Hnattvæðingin hefur leitt til harðnandi samkeppni um hver geti boðið lægstu kjörin.  Mörg fyrirtæki hafa flutt úr landi til svæða þar sem kjör og réttindi eru margfalt lakari en hér.  Það er óásættanlegt að íslensk stjórnvöld séu að gera fríverzlunarsamninga við ríki sem ekki viðurkenna  grunnvallarmannréttindi.  Við eigum að gera kröfu um að þau lönd sem Ísland gerir viðskiptasamninga við uppfylli allar átta grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.   Eftirmenntun launafólks hefur tekið stórstígum framförum í kjölfar þess að aðilar vinnumarkaðsins sömdu um aukna fjármuni til menntastarfs og allt starf orðið markvissara.  Allt of stór hluti launamanna hefur ekki lokið skilgreindri námsbraut.  Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar eiga að taka höndum saman um að setja sér metnaðarfull og vel skilgreind markmið.   Stjórnmálamenn halda því fram í ræðum sínum á mannamótum að við séum best í heimi, en í hverri könnuninni á fætur annarri kemur í ljós að margt af þessu er ekkert annað en óábyrg sjálfhælni.  Við erum ríkasta þjóð í heimi en aðbúnaður aldraðra hér á landi er fyrir neðan meðallag í OECD ríkjunum.  Við erum á eftir fremstu þjóðum í menntun og erum að dragast aftur úr vegna aðgerðaleysis stjórnvalda.  Við höfum samið um starfsmenntasjóði og unnið að breytingum á þessu sviði.   Þrátt fyrir það blasir við að rúmlega 30% íslenskra launamanna hefur ekki lokið skilgreindu námi, við erum t.d. 5 árum á eftir Dönum hvað varðar menntun í atvinnulífinu, íslenskur vinnumarkaður er ekki nægjanlega sveigjanlegur.  Það blasir við gífurlegt verkefni í þessum efnum og við verðum að fá stjórnvöld til þess að vera virkan þátttakanda í uppbyggingu símenntunar.  Gera verður íslenskum launamönnum kleift að fara reglulega í námsorlof.   Af fréttum að dæma mætti ætla að ekki verði margir vegaspottar malbikslausir í árslok og ekki mörg fjöll án gangna og stór hluti hringvegarins með fjórföldum akreinum. Samfara þessu fylgja loforð stjórnmálamanna um að vinna upp allar vanrækslusyndir á sviði velferðarmála og jafnframt að lækka skatta. Allt eru þetta auðvitað brýn og góð mál, en fyrir svona ódýrum loforðum er ekki innistæða.  Í nýrri hagsspá Hagdeildar ASÍ er gengið út frá að það sama gerist og við síðustu kosningar.  Þegar búið verði að kjósa og loforðavíman renni af stjórnmálamönnunum, muni sagan endurtaka sig og gripið verði til óhjákvæmilegra frestana.   Mörg heimili eru mjög skuldsett og stór hluti ráðstöfunartekna þeirra fer til greiðslu á afborgunum.  Það mun draga úr möguleikum til þeirra til neyslu og er það líklegt að mörg heimili lendi í alvarlegum vandræðum ef vinna dregst saman og heildarlaun minnki.  Við eigum að baki þokkaleg góð ár, en hagstjórnin hefur brugðist.  Útflutningsfyrirtæki hafa átt erfiða daga.  Staða hátækni og sprotafyrirtækja er erfið.  Við búum við mikla verðbólgu og háa vexti.  Misskipting hefur aukist, skattleysismö0rk hafa ekki fylgt almennri verðlagsþróun, vaxtabætur hafa lækka og sama gildir um barnabætur.  Skuldsett heimili þola illa áframhaldandi óstjórn í efnahagsmálum.  Mikil verðbólga og háir vextir.  Kaupmáttur mun ekki vaxa jafn hratt og undanfarin ár og atvinnuleysi mun aukast.   Við þurfum að gefa vaxtasprotum tækifæri til að blómstra.  Við verðum að koma á jafnvægi, gengissveiflurnar verða að hverfa, þær hafa valdið öllum fyrirtækjum miklum vanda.  Þau kvarta undan því að það sé nánast útilokað að gera nokkrar áætlanir í íslenskum krónum. Óvissan hefur verið gríðarleg sem gerir það að verkum að útilokað er að gera langtíma kjarasamninga.   Ef heildstætt samhengi á að vera í stefnu okkar, getum við ekki látið okkur nægja stefnu, sem einungis tekur á málum erlendra launamanna hér heima.  Hagsmunir launafólks orðnir alþjóðlegir, við erum að berjast á hnattrænum vinnumarkaði.  Hnattvæðingin hefur leitt til sífellt harðnandi keppni um hver geti boðið lægstu kjörin.   Við höfum orðið að horfa á eftir mörgum fyrirtækjum úr landi til svæða þar sem kjör og réttindi eru margfalt lakari en hér.  Það er óásættanlegt að við séum að gera fríverzlunarsamninga við ríki sem ekki viðurkenna grundvallarmannréttindi.  Í þessu sambandi má nefna samninga Íslands við Kína.  Íslensk stjórnvöld eiga að gera þá kröfu að þau lönd sem við gerum viðskiptasamninga við, uppfylli grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar áður en samningarnir eru staðfestir.   Aðilar vinnumarkaðsins hafa allt frá því að þeir tóku stjórn efnahagsmála úr höndum stjórnmálamannanna og gerðu Þjóðarsáttina 1990.  Eins og þið munið örugglega eftir við afgreiðslu hvers einasta kjarasamnings síðan þá, hafa aðilar vinnumarkaðsins ítrekað orðið að grípa til aðgerða til þess að koma efnahagslífinu á rétt ról og þvinga stjórnvöld til þess að vera þátttakendur í því.  Aðilar vinnumarkaðsins lögðu mikilvægan grundvöll undir ábyrga hagstjórn með 4 ára samningum vorið 2004.  Ríkisstjórnin viðhafði enga tilburði til hagstjórnar og við urðum að grípa aftur inn í hagstjórnina í nóvember 2005 og svo aftur í júní síðasta sumar og það blasir við að geipileg verkefni blasa við samningamönnum verkalýðsfélaganna næsta vetur.   Boðberar nýfrjálshyggjunnar hafa boðað að ekki sé lengur þörf fyrir hagsmunasamtök eins og stéttarfélögin.  Einkavæðing og hagræðing undir stjórn eigenda fjármagnsins hafa ýtt til hliðar langtíma hagsmunum og krefjast mesta arðs á hverjum tíma. Fjármagnsfyrirtæki kaupa upp fyrirtækin, búta þau niður og búa til nýjar rekstrareiningar.  Starfsfólki er sagt upp svo arður á næsta ársfundi verði sem mestur og hlutabréfin hækki.  Sá tími er liðinn þegar eigandinn lifði með sínu fyrirtæki og fór ásamt starfsfólki sínu í gegnum þykkt og þunnt í baráttu fyrir vexti og viðgangi fyrirtækisins.   Inn í þessa þróun spilar hnattvæðingin.  Drifkraftur fjölþjóðafyrirtækja er ásælni í fljóttekin arð, með sókn í auðlindir og ódýrt vinnuafl.  Allur arður rennur til fjármagnseigandans, verðmætaaukning hinnar vinnandi handar er lítils metinn.  Þegar farið var að reisa Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál blasti skyndilega við íslenskum launamönnum sá veruleiki að þurfa að verja störfin og þann ávinning, sem við höfðum náð á síðustu áratugum með mikilli fórnfýsi og löngum verkföllum.  En okkur tókst að fá stjórnvöld til þess að hlusta á okkur og við höfum náð í gegn betri lögum um samskipti á vinnumarkaði.   Íslenskir launamenn hafa lagt á það sérstaka áherslu að tryggja stöðugleika og lagt þar mikið af mörkum.  Árangur hefur náðst við hækkun lægstu launa en við þurfum að ná enn lengra fram á þeim vettvangi.  Þetta er ávöxtur þess sem launamenn sáðu til við gerð Þjóðarsáttar og þeir sem eru á lágmarkstöxtum eiga inneign fyrir sérstakri hækkun.  Við þurfum að setja okkur það markmið að stytta vinnuvikuna enn frekar á næstu árum samfara því að verja áunnin kjör.   Á næsta áratug þarf að gera stórátak í að treysta stöðu þeirra tugþúsunda fólks á vinnumarkaði sem hafa litla formlega menntun, með raunfærnimati, náms- og starfsráðgjöf og sérstöku menntunarátaki.  Setja á markmiðið við að innan við 10% vinnuaflsins verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsmenntunar í lok þessa tímabils.  Tryggja á rétt einstaklingsins til að ljúka a.m.k. einu viðurkenndu námi á framhaldsskólastigi á kostnað ríkisins, auk rétts til raunfærnimats og möguleika á að sækja sér aukna menntun með námsorlofi.   Gera þarf stórátak í að bæta stöðu aldraðra og öryrkja sem hafa setið eftir, sakir þess að stjórnvöld hafa ekki látið skerðingarmörk fylgja launaþróun. Við verðum að draga úr tekjutengingum bóta og skatta.   Það er krafa dagsins í dag að fátækt verði útrýmt. Treystum velferðina.   Til hamingju með daginn Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?