Fréttir frá 2007

05 21. 2007

Óskiljanlegar skýringar Þróunnarfélagsins

Í fréttum í dag kom m.a. fram hjá Neytendastofu að það sé búið að vera ljóst allt frá þeim degi sem utanríkisráðuneyti tók við íbúðunum á varnarsvæðinu fyrrv. að endurnýja þyrfti allan rafbúnað og tæki á svæðinu ef nýta ætti húsin. Þrátt fyrir það auglýsir Þróunnarfélagið íbúðirnar með öllum rafbúnaði og framkvæmdastjóri félagsins talar um að setja upp tvöfalt rafkerfi. Það er andstætt öllum reglum og ákaflega hættulegt svo ekki sé nú meira sagt.  Í auglýsingum hjá Þróunnarfélaginu og svo fréttum í gær kom fram að það væri ætlan félagsins að leigja íbúðinar í því ástandi sem þær eru núna meðal annars með þeim rafbúnaði sem í í húsunum og þeim heimilistækjum sem þar eru. RSÍ vakti athygli á því strax í fyrra að það þyrfti að leggja í gífurlega kostnaðarsamar viðgerðir á öllum húsum á varnasvæðinu, þegar umræða fór af stað að þarna væru feikilega mikil verðmæti sem væru tilbúin til notkunar strax. Hvað varðar rafbúnaðinn hafa verið nefndar hafa verið tölur sem nema a.m.k. einni milljón kr. fyrir hverja íbúð.   Svo þeir sem ekki eru faglærðir átti sig á hvað við erum að tala um, má benda á úttekt Neytendastofu á raflögnum og rafbúnaði svæðisins sem fram fór í janúar s.l. kom í ljós að rafmagnskerfi á svæðinu er miðað við þarfir amerískra notenda og raflagnir  og rafbúnaður uppfyllir ekki íslenskar reglur á rafmagnsöryggissviði. Rafföng, s.s. rofar og tenglar, kælar / frystar, heimilistæki o.þ.h. uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru vegna öryggiskrafna á EES-svæðinu, þ.m.t. á Íslandi og öll sala, leiga eða önnur afhending þeirra því óheimil. Neytendastofan telur því ekki ásættanlegt að húseignir á svæðinu verði teknar í notkun fyrr en raflagnir þeirra, þ.m.t. rafmagnstöflur og annar rafbúnaður, hafa verið færðar til samræmis við íslenskar reglur á rafmagnsöryggissviði. Neytendastofa hefur verið í góðu samstarfi við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og ekkert bendir til annars en að það fari að tilmælum stofnunarinnar. Á heimasíðu Neytendastofu, sem hefur með höndum rafmagnseftirlit, kemur fram að hún hafi á svipuðum tíma og RSÍ bent á þennan galla á íbúðunum og  bent utanríkisráðuneytinu á að raforkukerfi, raflagnir og rafbúnaður væri ekki í samræmi við íslensk lög og reglur á rafmagnssviði og því yrði að huga vel að rafmagnsöryggismálum áður en aðgengi að svæðinu yrði rýmkað. Í framhaldi af ábendingu stofnunarinnar var haldinn sameiginlegur fundur með fulltrúum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, utanríkisráðuneytisins og Neytendastofu. Að þessu skoðuðu er eiginlega óskiljanlegt hvernig skuli standa á því að Þróunnarfélagið auglýsi og sýni íbúðirnar með öllum rafbúnaði. Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar sagði í viðtali við fjölmiðla í dag að það sé á hreinu að við undirbúning á húsnæði á varnarsvæðinu verði farið í einu og öllu eftir þeim öryggisreglum sem gilda á Íslandi, og verið sé að taka ákvarðanir um hvernig verði staðið að rafmagnsmálum á svæðinu. Kjartan sagði ljóst að um misskilning sé að ræða. Hvaða miskilning hljótum við spyrja, það er búið að vera ljóst frá upphafi hvað þurfi að gera. Þrátt fyrir að búið sé fyrir alllöngu að kynna Þróunnarfélaginu að öll raftæki og raflegnir séu ónothæf hér á landi segir framkæmdastjórinn að unnið sé eftir þeirri hugmynd að koma upp að koma á tvöföldu kerfi á svæðinu svo hægt sé að nýta ný og nýleg tæki sem eru þar fyrir. Það er fyrir löngu ljóst að það er ekki framkvæmanlegt. Við hljótum að spyrja hvort Þróunnarfélagið sé búið að gera þær miklu ráðstafanir sem gera þarf til þess að hægt verði að taka íbúðirnar í gagnið í haust, eða er verið að spila með hina ungu námsmenn og öryggi þeirra og barna þeirra. Til þess að hægt sé að taka íbúðirnar í gagnið í haust þarf Þróunnarfélagið nú þegar að hafa lokið geysilega mikilli undirbúningsvinnu með útboðum og fleiru. Þetta eru feykilega mannfrekar framkæmdir sem vinna þarf í sumar. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?