Fréttir frá 2007

08 3. 2007

Um Pálslög og fleira.

Ég hef verið út á landi að vinna þessa vikuna, þannig að ég hef ekki komist til að gera aths. við tilskrif Vilhjálms formanns á Akranesi, sem voru birt hér á heimasíðunni.

Vilhjálmi liggur mikið niðri fyrir og ber á mig miklar og reyndar mjög alvarlegar sakir, sem má flokka undir meiðyrði, en ég fæ og aðrir innan hreyfingarinnar svona sendingar frá honum og sumt er sárt, en það venst.

 

Hann heldur því blákalt fram að það sé mér persónulega að kenna að félagsmenn hans séu á svona lágum launum.Ég hef verið út á landi að vinna þessa vikuna, þannig að ég hef ekki komist til að gera aths. við tilskrif Vilhjálms formanns á Akranesi, sem voru birt á heimasíðu Rafiðnaðarsambandsins að hans kröfu.

 

Ástæða tilskrifs Vilhjálms er að ég setti þar um síðustu helgi fram hugleiðingu þar sem ég held því fram að mér finnist það ekki réttlátt hjá Vilhjálmi að vera að saka alla samningamenn verkalýðshreyfingarinnar um að það sé þeim að kenna hversu lág laun félagsmanna Verkalýðsfélags Akranes séu.

 

Í grein minni held ég því fram að samningamenn sama hvaðan þeir koma, þetta á vitanlega eins við um Vilhjálm og aðra,  reyni af öllum mætti að ná eins langt og þeir geti hverju sinni. Einnig bendi ég á að þeir séu að semja við mótaðila ekki hver við annan. Ég er ekki að saka Vilhjálm um eitt eða neitt, einungis að benda á að ég sé ekki sammála hvernig hann leggi málið upp.

 

Viðbrögð Vilhjálms eru ákaflega ofsafengin og heiftúðug. Það vottar ekki fyrir málefnalegri umfjöllun, einungis órökstuddar dylgjur um meintar sakir mínar. Það eru í gildi lög um gerð kjarasamninga, svokölluð Pálslög, þar segir að þegar samningamenn stéttarfélaganna telja að ekki verði lengra komist í Karphúsinu, þá verði þeir að bera samningsdrögin undir viðkomandi félagsmenn. Það eru félagsmennirnir, eins og ég tók fram í grein minni, sem taka ákvörðun um hvort samningsdrögin séu að þeirra mati ásættanleg, ekki samninganefndin.

 

Ef félagsmenn samþykkja samningin þá er málið dautt, eins og menn segja í dag. Samninganefndarmenn geta ekki meir og stéttarfélögin eru bundin friðarskildu til næstu samninga. Ef félagsmenn aftur á móti fella samningsdrögin þá fyrst geta samninganefndarmenn leitað eftir verkfallsheimildum eða öðru til að þrýsta á um að ná lengra.

 

Ég ætla ekki að bera það á Vilhjálm að hann þekki þetta ekki, en það virðist vera svo, sem er vitanlega alvarlegt ef formaður jafnstórs félags og hann stýrir þekkir ekki þær leikreglur sem okkur er gert að vinna eftir. Vilhjálmi liggur mikið niðri fyrir og ber á mig miklar og reyndar mjög alvarlegar sakir, sem má flokka undir meiðyrði, en ég fæ og aðrir innan hreyfingarinnar svona sendingar frá honum og sumt er sárt, en það venst. Hann heldur því blákalt fram að það sé mér persónulega að kenna að félagsmenn hans séu á svona lágum launum.

 

Ástæða er að geta þess að það eru einnig iðnaðarmenn í verkalýðsfélaginu á Akranesi, þannig að Vilhjálmur er í sjálfu sér jafnmikill þátttakandi í þeim samningum bæði fyrir iðnaðarmenn og verkamenn, sem hann heldur fram að ég standi einhendis að.

 

Ef rök Vilhjálms eru aftur á móti notuð, sem ég bendi reyndar ítrekað á í grein minni að standist ekki, þá heldur hann því fram að það sé formaður samninganefndar viðkomandi stéttarfélags sem ber ábyrgð á láglaunatöxtum þess félags, þannig að hann snýr hlutunum á haus þegar það hentar honum til þess að koma ímynduðu höggi á mig.

 

Nú er það svo að við starfsmenn RSÍ eigum ákaflega lítil samskipti við Vilhjálm, hann tekur ekki þátt í starfshópum ASÍ þannig að við hittum hann ekki þar við mótun stefnu verkalýðshreyfingarinnar, sama á við um ráðstefnur og ársfundi ASÍ ef hann mætir þar þá tekur hann aldrei til máls.

 

Við hittum Vilhjálm á nokkurra ára fresti þegar sameiginlegir samningar stéttarfélaganna í Járnblendinu og Norðurál eru endurskoðaðir. Ég hef ekki verið að bera neinar sakir á Vilhjálm, en menn eru ekki alltaf sammála um áherslur í samninganefndum það á ekkert frekar um mig en aðra. Ásakanir Vilhjálms í minn garð eru á það lágu plani að þær eru ekki svaraverðar.

 

Samningur stéttarfélaganna við Norðurál á sínum tíma var í mörgu tímamótasamningur, hann gerði ráð fyrir teymisvinnu sem ekki var þekkt hér á landi og ávinnslubónusum, fyrirtækið gugnaði á að taka teymisvinnu upp og það varð til þess að hluti ábata skilaði sér ekki til starfsmanna í byrjun en það var að hluta leiðrétt fljótlega, eins og t.d. stjórnunarálögin. Þetta veit Vilhjálmur vel.

 

Annað sem Vilhjálmur tekur aldrei með í útreikninga sína eru séreignargreiðslur fyrirtækisins til starfsmanna, það var í fyrsta skipti sem samið var um það á Íslandi. Hagdeild ASÍ hefur fengið allt aðrar niðurstöður en Vilhjálmur og þær hafa ítrekað verið kynntar honum. Þar kemur fram allt annar og mun minni munur á launum starfsmanna Járnblendis og Norðuráls, en Vilhjálmur kýs að halda fram, í sumum tilfellum engin munur.

 

Einnig hefur verið bent á að Kjarasamningur Ísal hefur verið þróaður síðan 1970 til dagsins í dag og starfsmenn þar eru á margskonar starfsmenntabónusum og vitanlega meiri starfsaldurshækkunum, því starfsaldur þar er hærri en hjá Norðurál. Það er líka ákaflega mismikill munur á hópunum og engin þeirra kemst nálægt því sem Vilhjálmur kýs að halda fram.

 

Sama á við um fullyrðingar Vilhjálms um samninga iðnaðarmanna á Járnblendisvæðinu, þar kýs hann að blanda saman úthýsingu starfa og svo starfa sem eru á Járnblendisamningnum.  Í mörgum tilfellum er það svo þegar Vilhjálmur ber saman kjarasamninga þá er eitt atriði mun hærra en í öðrum, t.d. laun en svo veikindadagar færri, en öfugt á hinum. Í þessum tilfellum er ekki hægt með réttu að bera saman og benda á að veikindadagar séu færri en sleppa svo því að launin séu í stað þess hærri.

 

Þetta er ljótur leikur og reyndar veltir maður því fyrir sér hver sé tilgangur þannig samanburðar því hann er til þess eins fallinn að skapa úlfúð. En þessi umræða er algjörlega tilgangslaus því miður hvað varðar Vilhjálm, því hann hefur aldrei tekið mark á rökstuddum útreikningum hagdeildar ASÍ og þaðan af síður rökstuddum ábendingum forsvarsmanna annarra stéttarfélaga um göt í fullyrðingum og endalausum ásökunum hans.

 

Eins og ég tók fram í grein minni og hef ítrekað hér þá er Vilhjálmur duglegur í starfi sínu eftir því sem ég hef heyrt úr fjarlægð og ég er viss um að hann gæti náð mun lengra ef hann léti af ítrekuðum og órökstuddum ásökunum sínum í garð starfsfélaga sinna innan verkalýðshreyfingarinnar, þær skila hvorki honum og þaðan af síður félagsmönnum hans nokkrum árangri. Vilhjálmur semur ekki við okkur formenn hinna stéttarfélaganna um kaup og kjör launamanna á Skaganum. Guðmundur Gunnarsson

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?