Fréttir frá 2007

08 14. 2007

Fyrirspurn um rafmagnið í íbúðunum á Keflavíkurflugvelli

Heimasíðunni hefur borist fyrirspurn frá einum nemanna sem mun flytja inn í íbúðirnar á Keflavíkurflugvelli. Þar er komið inn á efni sem varðar mun fleiri, þannig að við birtum bréfið og svar formanns RSÍ   Sæll Ég mun fljótlega flytja í stúdentagarðana á gamla varnarsvæðinu og mér var sagt þegar ég fór til að skrifa undir leigusamninginn (búið að bæta við klásúlu í samningin ef tæki skyldu skemmast) að tíðnin á rafmagni á varnarsvæðinu væru 60 hz, ég svo sem hef ekki mikið við á svoleiðis löguðu en ég geri mér þó grein fyrir því að það stendur yfirleytt aftan á tækjunum svo að þegar heim kom tók ég til við að skoða þau rafmagnstæki sem ég á, flest virðast þau eiga að þola 60 Hz en þau sem ekki virðist gera það eru hinar ýmsu margmiðlunargræjur, sjónvarp, dvd/vcr, og hljómflutningsgræjurnar, það sem ég vil helst fá að vita er hvað gerist ef ég svo sting þeim í samband uppi á velli? ég vil helst ekki eyðileggja tækin mín en ég tími nú heldur ekki að kaupa allt nýtt, svo sagði einhver mér að líklegt væri að sjónvarpsútsendingar og sýningar væru nátengdar tíðninni á veiturafmagninu og myndu þarafleiðandi ekki skila sér í mínu "PAL" sjónvarpi?   Gott væri ef einhver gæti sagt mér hvort ég þarf að endurnýja tækjakostinn minn, eða hvort yfirhöfuð sé í lagi að "prófa" að stinga í samband.........   með fyrirfram þökk   A. Þ.     Sæl A. og takk fyrir bréfið Þetta sem þú kemur inn á er m.a. það sem ég benti á fyrir ári síðan þegar forsvarsmenn Þróunnarfélagsins og bæjarstjórn Reykjanesbæjar kynntu opinberlega glæsilegar fullbúnar íbúðir á flugvallarsvæðinu, þetta væri ekki allveg svona einfalt og glæsilegt. Það var byggt að ummælum margra okkar félagsmanna sem hafa starfað þarna um lengri og skemmri tíma. Reyndar benti ég sérstaklega á slakan öryggisbúnað í raflögnunum. Undir þetta tók rafmagnseftirlit Neytendastofu og í nóvember 2006 sendi stofan frá sér tilkynningu um hvað þyrfti að lagfæra eftir að hafa farið yfir allan búnaðinn. Þar kom m.a. fram að skipta þyrfti um allar raflagnir og eins að ekki mætti nota þau raftæki sem væru í íbúðunum þar sem þessi búnaður uppfyllti ekki evrópsk lágmörg um öryggi. Þrátt fyrir þetta voru íbúðirnar sýndar í vor með hinum ólöglega búnaði og svo leigðar út. Þegar allt var komið í óefni í sumar var ríkisstjórnin fengin til þess að gefa út bráðabirgðalög þar sem gefa átti afslátt á öryggisbúnaðinum í allt að 3 ár. Þetta hefði reyndar aldrei staðist, því ríkistjórnin er skuldbundinn til þess uppfylla hin evrópsku öryggislágmörk. Við bentum ráðherrum á þetta og að þeir væru að spila með öryggi þessara 350 fjölskyldna, þetta væri svipað og hleypa ætti 350 öflugum amerískum bifreiðum út í umferðina en bremsubúnað þeirra væri ábótavant. Auk þess lá það fyrir að með þessu var ríkistjórnin í raun að bjóðast til þess að axla alla ábyrgð og skaffa allan rafbúnað í íbúðirnar, ekki bara eldavélar, ísskápa  og þvottavélar. Þá var rokið til að nú er unnið dag og nótt við að laga raflagnirnar á nætuvinnukaupi og það mun koma fram í hækkuðu leiguverði. Ef farið hefði verið að ábendingum okkar og Neytendastofu þá hefði verið nægur tími til þess að lagfæra þetta allt, á mun lægri hátt með útboðum. Í stað þess var okkur svarað með dylgjum og útúrsnúningum og framkv.stj. Þróunnarfélagsins hélt fyrirlestur í útvarpinu um að ég væri asni og vissi ekkert um rafmagnsfræði. En það er ekki tími til þess að lagfæra veitukerfið í götunum og skipta út öllum spennunum, en það hefur alltaf legið fyrir að það þurfi að gera. Þess vegna er þér og hinum fjölskyldunum boðið upp á 60 riða kerfi. Bandaríkjamenn tóku það kerfi frekar á sínum tíma en það kerfi sem við erum með vegna þess að spennar í veitukerfunum eru ódýrari, það þarf mun lélegra og þá ódýrara járn í þeirra spenna. Það eru líkur á að sum heimilstæki sem fjölskyldufólk á sem býr við evrópsk umhverfi  geti eyðilagst sé þeim er stungið í samband þarna suður frá, það er að segja að spennan þar verður líklega milli 210 og 220 volt ekki 230 volt og hún mun sveiflast að mér hefur verið tjáð vegna slakra spenna. Riðin verða 60 ekki 50. Það eru einmitt þau tæki sem þú telur upp sem eru sérstaklega í hættu. Í þessum tækjum eru spennugjafar, það er að segja tæki sem tekur við þeirri spennu sem er í tenglinum sem snúran er sett í samband við. Þessir spennugjafar breyta riðspennunninni yfir á lága jafnspennu sem rafeindabúnaðurinn gengur fyrir. En þrátt fyrir að þau geti sumhver virkað þá eru líkur á að þau segi þér rangt til, eins og t.d. klukkur sem munu ganga hraðar og væntanlega ræsa þína fjölskyldu um kl. 5.00 á morgnanna í stað kl. 7.00.  Sumir spennugjafar eru þannig gerðir að þeir ráða hæglega við 60 rið jafnt sem 50 rið og sumir þeirra ráða við það þó spennan rokki á milli 210 til 230 volt. Þetta stendur á tækjunum eða hleðslutækjun. Það eru reyndar allnokkrar líkur á að þið muni samt sem áður búa við rekstraróöryggi á flugvallarsvæðinu þangað til að búið verður að skipta út spennum og lagfæra dreifikerfið í götunum. Þá á ég við að margir spennugjafanna eru þannig að þeir einfaldlega slökkva á tölvunni eða sjónvarpinu fari spennan niður fyrir eitthvert stig en hrökkva svo inn aftur þegar spennan sveiflast uppfyrir 215 voltin. Nýlegt dæmi er þegar rafkerfið á hálfu Íslandi datt að nokkru leiti út, það er að spennan hrundi langt niður nokkrum sinnum. Þetta getur verið í sumum tilfellum verra heldur en að hún detti hreinlega alveg út. Eins og kom fram í fréttum þá urðu umtalsverðar skemmdir á rafeindastýribúnaði t.d. í Steinullarverksmiðjunni. Ef það kemur ekki fram skýrt fram á viðkomandi tæki eða hleðslutæki að það ráði við 210 ? 230 votl og 50 ? 60 rið þá skaltu endilega tala við innflytjanda viðkomandi tækis, eða viðgerðarverkstæði hans. En við í Rafiðnaðarsambandinu vísum allri ábyrg á hendur forsvarsmanna Þróunnarfélagsins og þeir fengu reyndar ríkisstjórn Íslands til þess að axla hluta af þessari ábyrgð með hinum stórfurðulegu bráðabirgðalögum. Gangi þér allt vel. Ég er viss um að þetta hverfi mun bjóða upp á skemmtilega möguleika, ég hef ekkert á móti uppbyggingu í Reykjanesbæ eins og einn ráðherranna svo smekklega bar á mig. Málið snýst um það að hverfið hefði getað verið mun skemmtilegra ef það hvefði verið farið í að lagfæra allt rafkerfið, ekki bara hluta þess á síðasta snúning. Aðvaranir mínar leiddu þó til þess að rokið var að setja upp lekaliða og skipta út varbúnaði og lagfæra raflagnir, þannig að rafmagnsöryggi var lagað að mestu. Reyndar hef ég heyrt að einhver amerísku raftækjanna verði skilin eftir , það er að segja þvottavélarnar og það er ekki nógu gott.   Reykjavík 14. ág. 2007.   Vinsamlegar kveðjur Guðmundur Gunnarsson form. Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?