Fréttir frá 2007

09 8. 2007

Við-viljum-engin-slagsmál samningurinn = starfshættir íslenskra ráðherra

Starfsmenn Vinnumálastofnunar eru besta fólk og reyna að vinna störfin sín, en ráðherrar undanfarinna ára hafa ítrekað slegið svo á puttana á þeim og gert þá svo oft ómerka að þeir veigra sér að vinna störfin sín. Nýlegt dæmi er um þegar núverandi ríkisstjórn setti bráðabirgðalög og tók gjörvalla rafmagnsreglugerðina úr sambandi og gerði starfsmenn rafmagnseftirlitisins (neytendastofu) ómerka.Vinnumálastofnun fullyrðir í fjölmiðlum að hún hafi leist málið hjá fyrirtækjum Arnarfells með farsælum hætti og náð samning sem aðilar voru sáttir við. Vitanlega spyr maður hvort samningurinn var gerður og afgreiddur í samræmi við hin svonefndu Pálslög Péturssonar  fyrrverandi félagsmálaráðherra, sem verkalýðsfélögunum er gert að starfa eftir. Þar stendur meðal annars að það séu þeir einir sem eru valdir fulltrúar launamanna sem geta samið fyrir þeirra hönd. Þegar fulltrúar viðkomandi launamanna telja sig ekki ná lengra í samningum er þeim skillt að bera samninginn undir þá sem eiga að starfa eftir honum og það eru þeir sem ráða hvort samningurinn taki gildi. Var samningurinn borinn undir launamenn áður en hann var undirritaður? Var innihald hans kynnt pólsku verkamönnunum? Var þeim gerð grein fyrir um hvað málið snérist? Hvar gaf Vinnumálastofnum heimild til þess að ganga til samninga? Var samið um vexti og skaðabætur fyrir það sem upp á vantar, bæði hvað varðar laun og önnur kjör? Hver eru verða viðurlög fyrirtækja Arnarfells? Málið snýst um það hvers vegna fyrirtæki geta ítrekað í skjóli afskiptaleysi opinberra eftirlitsstofnana brotið á starfsmönnum sínum mánuðum saman þrátt fyrir athugasemdir trúnaðarmanna starfsmanna. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja mæta í fjölmiðla og segja hiklaust að það hafi allt verið í lagi, eða það hafi alltaf staðið til að lagfæra hlutina og þar við situr. Ég þekki vel til á norðurlöndum vegna stjórnarsetu minnar og formennsku í norrænum samtökum rafiðnaðar- og byggingarmanna og eins stjórnarsetu í evrópsku samböndunum. Þar hafa eftirlitstofnanir skapað sér það álit að allir vita að það er tekið strax á málum. Ef fyrirtækin geta ekki lagt á borðið tilskilinn gögn þann dag og á þeirri stundu sem eftirlitsmenn mæta svæðið, þá er þeim einfaldlega lokað og við blasa að auki sektir og það háar sektir.   Íslenskir ráðherrar hafa snúið þessu við, öll sönnunarbyrði er lögð á trúnaðarmenn, þeim er gert að leggja fram nánast bókhald fyrirtækjanna, ef þeir geta það ekki er þeim sendur tónninn í gegnum fjölmiðla. Frægasta dæmið er þegar þáverandi forsætisráðherra fór upp á Kárahnjúka og lét mynda sig við búðir starfsmanna sem trúnaðarmenn og starfsmenn stéttarfélaganna höfðu ítrekað bent á að myndi aldrei standast íslensk veður. Ráðherrann gerði byggingareftirlitsmenn, brunavarnareftirlitsmenn, heilbrigðisfulltrúa og alla starfsmenn stéttarfélaganna ómerka í beinni útsendingu og lýsti því yfir að þetta væru glæsilegustu hús sem hann hefði séð og hann og konan hans væru jafnvel að skoða að flytja þangað. Hann ásatm meðráðherrum sínum gáfu svo út þá yfirlýsingu að þeir ætluðu ekki að standa gegn framrþóun í þessu landi eins og verkalýðshreyfingin væri að leggja til, það kannaðist engin við að hafa nokkrun tíma sagt nokkuð í þá veru. Þetta varð til þess að nálægt 1000 erlendir bláfátækir launamenn máttu búa við ömurlegar aðstæður þann vetur í þessum bröggum sem nú er verið að reyna að selja sem sumarhús!! Þessu hefur verið lýst með þeim hætti í evrópskum fjölmiðlum að maður gengur með veggjum í skömm.    Það versta af öllu þegar það kemur í ljós að fyrirtækin hafa ekki haft rétt við þá er bara sagt við forsvarsmenn fyrirtækjanna; ?Jæja elskurnar mínar þið lofið nú að lagfæra þetta, er það ekki, einhverntímann. Hvernig er er ekki eitthvað á könnunni? Við viljum sko engin slagsmál.?   Það blasir við t.d. á Kárahnjúkasvæðinu að hvert einasta atriði sem starfsmenn og trúnaðarmenn hafa gert athugasemdir við hefur staðist, hvert einasta atriði. Samt þráast ráðherrar við og taka alltaf upp hanska fyrirtækjanna, alltaf.  Ætlar núverandi félagsmálaráðherra bera ábyrgð á þessum vinnubrögðum? Það er ekki markmiðið að loka fyrirtækjunum segir félagsmálaráðherra í Fréttablaðinu í dag. Ég á nú ekki til eitt einasta orð, hver var að tala um það. Verkaýðshreyfingin vill hafa sem flest fyrirtæki og þau skili öll arði og geti borgað góð laun. Verkalýðshreyfingin ásamt undirrituðum hafa aldrei gert athugasemdir við byggingu Kárahnjúka og álversins í Reyðarfirði. Við höfum aftur á móti gert athugasemdir við framkomu nokkurra þeirra fyrirtækja sem þar starfa.   Jóhanna, markmiðið er og málið snýst fyrst og síðast um það, að fyrirtækin fari að settum leikreglum og komi fram við launamenn á eðlilegum nótum, ef þau gera það ekki þá eiga þau að finna fyrir því. Ef fram koma efasemdir frá trúnaðarmönnum um það þá eiga starfsmenn ráðuneytisns að mæta á svæðið, strax, og fá öll gögn sem þeir biðja um strax. Ég veit að starfsmenn Vinnumálastofnunar eru besta fólk og reyna að vinna störfin sín, en ráðherrar undanfarinna ára hafa ítrekað slegið svo á puttana á þeim og gert þá ómerka að þeir veigra sér að vinna störfin sín. Nýlegt dæmi er um þegar núverandi ríkisstjórn setti bráðabirgðalög og tók gjörvalla rafmagnsreglugerðina úr sambandi og gerði starfsmenn rafmagnseftirlitisins (neytendastofu) ómerka. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?