Fréttir frá 2007

09 27. 2007

Við misstum af besta vagninum.

Lélegur aðbúnaður erlendra launamanna hér á landi og slök launakjör hefur skilað sér í því að besta fólkið með bestu menntunina vill ekki koma hingað. Þeir bestu leita í þau lönd sem opinberar eftirlitstofnanir hafa framfylgt lögum um aðbúnað og kröfur.    Á síðustu 3 árum hafa um tvær milljónir ungra pólskra launamanna leitað að heiman eftir vinnu, og staðan er orðin þannig í Póllandi að verulegur skortur er á fagfólki sérstaklega í byggingariðnaði. Umræða um þessi mál hefur verið mjög ofarlega á baugi á ráðstefnum um evrópskan vinnumarkað á undanförnum árum. Þegar litið er yfir farinn veg og þá reynslu sem menn hafa öðlast þá blasir við að mörg lönd, þar á meðal Ísland hafa tekið alrangt  á málum þess vinnuafls sem hefur leitað vestur á bóginn eftir vinnu. Oft er bent á Írland og England í þessu sambandi. Þeir opnuðu strax sinn vinnumarkað fyrir erlendu launafólki og náðu til sín best menntaða fólkinu. Þau lönd sem settu upp ýmiskonar hindranir misstu best menntaða fólkið. Á norðurlöndum er áberandi hvernig norðmenn hafa tekið á móti erlendum launamönnum og fylgst vel með því að aðbúnaður standist allar kröfur og laun séu rétt. Þetta hefur leitt til þess að þangað hefur besta fólkið leitað og norsk fyrirtæki hafa getað valið úr, reyndar ekki bara austur-evrópubúum. Í Noregi eru í dag liðlega 200 þús. erlendir launamenn. Svíar eru áberandi í heilbrigðisþjónustunni, einnig má benda á að í Noregi eru að störfum 2.000 sænskir rafvirkjar og 600 danskir.   Í upphafi máttu stéttarfélögin sitja undir allskonar aðdróttunum frá stjórnvöldum. Stéttarfélögin væru á móti þróun og væru með fasisma gagnvart erlendu fólki. Þarna voru stjórnmálamenn eins og svo oft að áður að beita smjörklípuaðferðinni. Stéttarfélög hafa eftirlit með því að aðbúnaður og kjör allra launamanna séu í lagi, sama hvaðan þeir koma. Stjórnvöld grípu ítrekað fram í gerðir opinberra eftirlitstofanna og ómerktu þær. Þau höfnuðu alfarið að auka rekstarfjármagn í samræmi við vaxandi verkefni. Okkur er í fersku minni hvernig þáverandi stjórnvöld brugðust við, þegar í ljós kom að laun og aðbúnaður verkafólks í Kárahnjúkum var langt fyrir neðan mörk. Vinnubúðirnar voru þær lökustu sem reistar hafa verið á Íslandi og þó víðar væri leitað, héldu hvorki vatni né vindi og verkafólkið átti þar ömurlegan fyrsta vetur. Portúgalarnir reyndu eins og ítrekað kom fram í fréttum, að lagfæra búðirnar með því að líma húsin saman með frauðplasti og skýla sér með dagblöðum. Þáverandi ráðherrar börðust opinberlega gegn öllum athugasemdum byggingareftirlits og trúnaðarmanna, sem leiddi til þess að það tók allt að einu ári að ná fram úrbótum, enda flúðu Portúgalarnir frá Kárahnúkum, og leita varð til norður Kína eftir vinnuafli. Þetta hefur skilað sér í skelfilegri umfjöllum um íslenskan vinnumarkað t.d. í Portúgal. Því miður er sömu sögu að segja frá mörgum hinna pólsku launamanna og eins frá Baltnesku löndunum. Starfsmenn stéttarfélaganna hafa hitt marga þeirra að máli og þeim ber yfirleitt saman um að hingað komi þeir vegna þess að ekkert annað er í boði. Þetta getum við þakkað hversu lengi stjórnvöld voru að taka við sér og ekki síður gróðahyggju nokkurra starfsmannaleiga sem hafa nýtt sér til hins ítrasta það ástand sem stjórnvöld sköpuðu með afstöðu sinni.   Það er fyrst nú sem stjórnvöld eru farin að taka á þessum málum af markvissri stefnufestu. Fyrir ári voru sett hér framsækin lög um úrbætur í skráningu á erlendu launamönnum og eftirliti með fyrirtækjum og starfsmannaleigum. Verkalýðshreyfingin átti drjúgan þátt í mótum þessara laga og fagnaði staðfestingu þeirra, reyndar með örfáum undantekningum sem blönduðust í kosningabaráttu eins flokks. Íslensk fyrirtæki hafa kvartað undan því að hingað leiti ekki nægilega mikið af hæfu fólki. Ef við ætlum að byggja upp samkeppnishæft atvinnulíf verðum við að ná hingað besta fólkinu. Þetta tókst Írum m.a. og þar er gríðarleg uppbygging ekki síst á hátæknisviðinu. Sama er að segja um Finnland og Noreg. Þar hafa fyrirtækin, launþegahreyfingin og stjórnvöld tekið höndum saman um að berjast gegn félagslegum undirboðum og séð til þess að allur aðbúnaður sé mannsæmandi. Það þarf ekki að skrifa langan texta til þess að upplýsa fólk um hvers vegna svona vont orð fer af íslenskum vinnumarkaði meðal launamanna í sunnanverðri og austanverðri Evrópu. Það mun taka tíma að lagfæra þann skaða sem aðgerðaleysi stjórnvalda og eftirlitstofnana hefur leitt til. Íslensk stjórnvöld tryggðu að við fengjum lakasta hluta þeirra launamanna sem leitað hafa vestur á bóginn.   Eigendur starfsmannaleiga hafa nýtt sér stöðuna, ef einhver fjallaði opinberlega um framferði þeirra, var hinum sama hótað meiðyrðamálum. Ef við lítum til byggingamarkaðarins þá sjáum við að lág laun erlendra byggingarmanna og lakur aðbúnaður hefur ekki skilað sér í lækkandi verði fasteigna, þvert á móti. Það eru einungis fjárfestar og eigendur starfsmannaleiganna sem hafa hagnast á þessu ástandi. Eftir sitja hlunfarnir erlendir launamenn og íslenskum byggingarmenn með lakari launaþróun og kaupendur íbúða, sem í vaxandi mæli virðast vera gallaðar.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?