Fréttir frá 2007

09 30. 2007

Efnahagsundur Glitnis eru efnahagshamfarir heimilanna

Athyglisverð grein sem birt var í Morgunblaðinu í vikunni eftir Andrés Magnússon, mann sem hefur verið búsettur í Noregi undanfarin 12 ár.Í SÍÐASTLIÐINNI viku hélt Glitnir málþing undir yfirskriftinni ?íslenska efnahagsundrið?. Vissulega er það efnahagslegt undur að Glitnir skuli geta haft þrisvar sinnum hærri vexti á íbúðarlánum sínum til Íslendinga heldur en til viðskiptavina sinna í öðrum löndum. Og það er ekki bara efnahagsundur, heldur efnahagsgósentíð og stórævintýri fyrir Glitni að geti selt íbúðarlán á Íslandi sem eru margfalt dýrari en þau íbúðarlán sem þeir eru að selja í öðrum löndum. En það er ekki alls kostar rétt sem forstöðumaður greiningardeildar Glitnis sagði í fréttatíma RÚV eftir málþingið að ?fjárhagshorfur heimilanna væru góðar?. Láta mun nærri að meðalíbúðarskuldir hvers heimilis á Íslandi séu 10.000.000 kr. Mismunur á verði slíks láns (40 ár) frá íslenskum bönkum vs. erlendum er u.þ.b. 20 millj. kr. Það þýðir að hvert heimili þarf að borga u.þ.b. hálfa milljón krónur á ári aukalega í 40 ár til þess að standa undir efnahagsundri íslensku bankanna; eða með öðrum orðum, ráðstöfunartekjur eftir skatt rýrna að meðaltali um hálfa milljón krónur á hvert heimili í landinu. Því þarf forstöðumaður greiningardeildar Glitnis að velja orð sín að meiri kostgæfni þegar hann segir að ?fjárhagshorfur heimilanna séu góðar?. Efnahagsundur Glitnis eru efnahagshamfarir heimilanna. Það eina sem ég skil ekki er af hverju Glitnir býður ekki honum Halldóri frænda mínum á málþingin sín. Halldór er liðlega tvítugur piltur sem fékk fremur takmarkaða uppörvun til langskólanáms í föðurhúsum. Hins vegar var Halldór alltaf duglegur til vinnu, hamhleypa, berserkur. Halldór og kærastan hans ákváðu að byrja að búa saman og keyptu sér litla íbúð á ódýrasta stað í bænum. En það var sama hversu Halldór vann mikið, hann gat ekki borgað af íbúðarlánunum. Eina ráðið var að setja litlu íbúðina í leigu og hjónaleysin fluttu aftur heim hvort til sinna foreldra. Það komst los á sambandið. Halldór var ekki viss um hvort stúlkunni fyndist hann vera eitthvað til þess að veðja á. Og nú er Halldór kominn til geðlæknis, fullur sjálfsefa. En þetta hefði aldrei komið fyrir ef hann hefði ekki slysast til þess að fæðast á Íslandi. Ef hann hefði fæðst í einhverju af nágrannalöndunum hefði hann ekki bara haldið íbúðinni (og þar með kærustunni), með slíkri greiðslubyrði myndi hann vera búinn að borga niður íbúðina á meira en helmingi skemmri tíma heldur en hér heima. Alltaf þegar ég heyri mærða útrás hinna íslensku banka skýtur upp í huga mér myndinni af Halldóri. Þessum fótgönguliða hinnar glæstu útrásar íslensku bankanna, hinum óþekkta fallna hermanni efnahagsundursins. Samt er aldrei minnst á hann, þótt hann sé undirstaða og grunnur hinnar glæstu útrásar. Halldór er ósýnilegur. Enginn í viðskiptaráðuneytinu hefur séð hann, hann er hvergi í fermingarveislum sem seðlabankastjórar með sína 14,5% stýrivexti sitja, það er ekki einn einasti svona maður sýnilegur í fjölskyldu eins einasta þeirra hundraða hagfræðinga sem þjálfaðir hafa verið í gagnrýnni og sjálfstæðri hugsun í Háskóla Íslands. Og útvarpsmenn, blaðamenn og sjónvarpsmenn hafa engan svona mann í stórfjölskyldu sinni eða kunningjahópi. Hann er gersamlega ósýnilegur, eins og óhreinu börnin hennar Evu. Frænka mín yfirtók einnar milljón króna lán sem hún er búin að vera að borga af baki brotnu í 13 ár, nú stendur lánið í þremur milljónum; hún er ósýnileg líka, óhreint barn. Eða vel menntaðir Íslendingar á miðjum aldri, sem horfa á jafnaldra sína erlendis löngu búna að klára greiðslubyrði sína, á meðan þeir sjálfir þurfa að streða fram á elliár til þess að vinna fyrir hinum háu íslensku vöxtum; ósýnilegir líka, verða ósýnilegir þegar við blindumst af ofbirtu hins glæsilega efnahagsundurs íslensku bankanna. Ætti það ekki að vera nóg að þurfa að glíma við höfuðskepnurnar hér fyrir norðan endimörk hins byggilega heims? Þurfum við að bæta ofan á baráttu upp á líf og dauða við efnahagshamfarir skaptar af mannavöldum? Hetjubaráttu sem passar samt hvorki inn í fjölmiðlana né málþing Glitnis. Bakhlið hinnar glæstu útrásar er óhrein og skal því vera mönnunum ósýnileg.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?