Fréttir frá 2007

12 10. 2007

Sameiginlegar kröfur ASÍ

Það eru nokkur atriði sem voru sameiginleg í öllum kröfugerðum og var ákveðið að fara fram með þær sameiginlegaSamkeppnishamlandi ákvæði í ráðningarsamningum. Í ráðningarsamningum gerist æ algengara að tekin eru upp ákvæði um að starfsmenn megi ekki taka upp launuð störf á tilteknu sviði hjá samkeppnisaðila í tiltekinn tíma eftir að þeir láta af störfum. Starfsmenn eru að jafnaði í veikri stöðu til þess að hafna samkeppnisákvæðum í ráðningarsamningum og því nauðsynlegt að fjalla um þau í kjarasamningum.   Launaleynd. Það hafa í auknum mæli eru tekin upp í ráðningasamninga ákvæði sem banna starfsmönnum að upplýsa aðra um laun sín. Lagt er til að kjarasamningar geymi einfalt ákvæði sem heimili starfsmönnum upplýsingagjöf um eigin laun og önnur starfskjör.   Laun í erlendri mynt. Nokkur íslensk fyrirtæki hafa tekið upp ákvæði um greiðslu launa að hluta til í erlendri mynt. Nauðsynlegt er að unninn verði rammi utan um greiðslu launa með ofangreindum hætti.   Samskipti við slit ráðningar. Með vaxandi fjölda erlendra starfsmanna hafa komið upp erfiðleikar sem m.a. hafa tengst slitum ráðningarsamninga. Á sama hátt og mikilvægt er að aðilar ráðningarsamnings séu fyllilega meðvitaðir um ráðningarkjör við upphaf ráðningar er mikilvægt að tryggt sé að þeim sé fyllilega ljóst þegar þeim er breytt eða ráðningu slitið.    Rökstuddar uppsagnir. Ársfundir ASÍ hafa ítrekað samþykkt að ASÍ skuli beita sér fyrir því að efni samþykktar ILO nr. 158 um rökstuddar uppsagnir o.fl. verði gildistekið á íslenskum vinnumarkaði. Það er hægt að gera á tvennan hátt. Annars vegar með löggjöf og hins vegar með kjarasamningum.   Skaðabætur vegna ólögmætra uppsagna. Huga þarf sérstaklega að bótum í þeim tilvikum sem starfsmanni er sagt upp með lögmætum uppsagnarfresti en uppsögnin er órökstudd.   Útreikningur á yfirvinnukaupi. Hæstiréttur hefur andstætt skilning stéttarfélaganna á dæmt að lögmætt geti verið að greiða ekki yfirvinnu af umsömdu kaupi fyrir dagvinnu með því hlutfalli sem kjarasamningar greina ef ?heildarkjör? (dagvinnukaup með yfirvinnu) eru umfram lágmarkstaxta viðkomandi kjarasamnings og yfirvinnu reiknaða á hann.   Skilgreining vaktavinnu. Nokkuð ber á því að hugtakið vaktavinna sé túlkað með þeim hætti að regluleg vinna að kvöldlagi sé túlkuð sem vaktavinna (oft kallað kvöldvaktir) sem beri að greiða með vaktavinnuálagi en ekki yfirvinnuálagi. Skýrari texta þarf í megintexta kjarasamninga hvað þetta varðar.   Áunnin réttindi erlendra starfsmanna. Hluti af launamismunun og félagslegum undirboðum vegna erlendra starfsmanna felst í því að þeir eru oftast settir á byrjunartaxtalaun, lágmarksorlof og veikindarétt þó þeir séu með starfsaldur úr starfsgreininni frá heimalandi sínu. Slík mismunun er óheimil.   Útreikningur desemberuppbótar. Borið hefur á mistúlkun ákvæða um desemberuppbót þannig að starfsmönnum sem unnið hafa árum saman hjá sama fyrirtæki en láta af störfum á fyrstu 12 vikum ársins sé neitað um hlut í desemberuppbót. Þetta er andstætt því sem samið var um og skýra þarf texta ákvæðisins.   Tilkynning um veikindi. Mjög hefur farið vaxandi að starfsmönnum sé gert skylt að tilkynna sig til sjálfstæðra verktaka sem atvinnurekendur semja sérstaklega við um heilbrigðisþjónustu. Óskað er eftir upplýsingum um hvað hrjái starfsmanninn en allar upplýsingar þar að lútandi eru viðkvæmar persónuupplýsingar sem leynt skulu fara og sem starfsmanni er ekki skylt að gefa neinum upp nema þeim heilbrigðisstarfsmanni sem hann sjálfur kýs.   Slysatryggingar. ASÍ leggur áherslu á að tryggingaréttur launafólks í stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði verði ekki lakari en launafólks í hinum opinberu stéttarfélögum. Í auknum mæli starfa félagsmenn beggja hlið við hlið á sömu vinnustöðum og þetta veldur líka óánægju þegar starfsfólk fer á milli starfa þ.e. félaga.   Stórframkvæmdasamningur í stað virkjanasamnings. Gerður verði nýr kjarasamningur ASÍ og aðildarsamtaka þess við SA um stórframkvæmdir sem byggður verði á þeim grunni sem lagður var með Virkjunarsamningnum.   Vikulegir frídagar. Samkvæmt gildandi kjarasamningum skal starfsmaður eiga rétt til vikulegs frídags á hverju 7 daga tímabili en heimilt í undantekningum að fresta honum og taka 2 frídaga saman. Borið hefur á því að þetta sé túlkað með þeim hætti að þessum frídegi sé frestað þannig að teknir séu 2 frídagar þegar 14 daga tímabilinu er lokið. Þar sem sífellt fjölgar þeim tilvikum að undantekningarreglunni sé beitt sem aðalreglu, þá þarf að styrkja gildandi ákvæði þ.a. að tryggt sé að starfsfólk eigi 1 vikulegan frídag nema sérstakar ástæður réttlæti annað.      Frítaka vegna endur- og símenntunar. Í kjarasamningum hefur verið samið um aukin framlög til menntunar starfsmanna og er stefnt að því að samningsaðilar auki þau enn frekar. Það er brýnt að gera ráð fyrir að starfsmenn geti tekið sér leyfi frá störfum í þann tíma sem nauðsynlegur er til þess að sinna endur- og símenntun.   Frítaka trúnaðarmanna vegna náms. Eins og mál standa nú skal atvinnurekandi samþykkja hvort það námskeið sem trúnaðarmaður vill sækja uppfylli þau skilyrði að honum beri laun á meðan. Skýra þarf ákvæði kjarasamninga  hvað þetta varðar þ.e. að tryggt sé að trúnaðarmenn geti sótt þau námskeið sem nýtast þeim í starfi auk þess sem bæta þarf í réttindi þeirra.   Kynbundinn launamunur. Þrátt fyrir öflugt starf aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera hefur ekki tekist að draga úr kynbundnum launamun. Á aðilum hvílir skylda til þess að finna sameiginlegar leiðir til að uppræta launamun kynjanna..   Bókun um réttarstöðu starfsmanna við eigendaskipti að fyrirtæki. Framangreind bókun sem fylgir aðalkjarasamningi rímar ekki að öllu leyti við ákvæði gildandi laga nr. 72/2002 um sama efni. Frávikin eru það mikil að lagt er til að bókunin verði felld niður.     Skráning og meðferð persónuupplýsinga. Það er nauðsynlegt að kjarasamningar skilgreini í meginatriðum við hvaða aðstæður eða störf sé eðlilegt að gera kröfur um afhendingu eða varðveislu persónuupplýsinga.   Vinnustaðaskilríki. Mikil fjölgun erlendra starfsmanna kallar á aukið eftirlit með því að starfsmenn njóti þeirra réttinda sem þeim ber bæði samkvæmt íslenskum kjarasamningum og lögum.  Aðilar hafa orðið sammála um nauðsyn á útgáfu sérstakra persónuskilríkja til að auðvelda eftirlit á vinnumarkaði, sérstaklega hvað varðar byggingarvinnustaði. Móta þarf nauðsynlegar reglur hér að lútandi í kjarasamningum.   Bókun um upplýsingar og samráð. Samningsaðilar stefni að því á samningstímanum að hrinda í framkvæmd á íslenskum vinnumarkaði reglum um upplýsingar og samráð sem hér hafa tekið gildi á undanförnum árum með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það verkefni nái einnig til laga um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum með hliðsjón af aukinni starfsemi íslenskra fyrirtækja á erlendri grund.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?