Fréttir frá 2005

01 2. 2005

Vinnudeila Samtaka sænskra iðnaðarmanna varðar alla Evrópu

Í haust hafa staðið yfir deilur í Svíþjóð um hvaða kjarasamningar eigi að ákvarða kjör innfluttra launamanna. Deilan er í öllu ákaflega lík þeirri deilu sem íslensk verkalýðshreyfing hefur háð við Impregilo. Afstaða sænsku ríkistjórnarinnar er aftur  á móti allt önnur en hinnar íslensku. Hér fjallar Guðmundur Gunnarsson formaður norræna rafiðnaðarsambandsins um deiluna Í haust hafa staðið yfir deilur í Svíþjóð um hvaða kjarasamningar eigi að ákvarða kjör innfluttra launamanna. Deilan er í öllu ákaflega lík þeirri deilu sem íslensk verkalýðshreyfing hefur háð við Impregilo. Afstaða sænsku ríkistjórnarinnar er aftur  á móti allt önnur en hinnar íslensku.  Fyrirtækið Baltic Bygg, er sænskt hlutafélag í eigu sama aðila og lettneska fyrirtækið Laval. Baltic Bygg er byggingarfyrirtæki sem sérhæfir sig í yfirumsjón verkefna, reiknar út þóknanir og tekur við tilboðum. Laval er móðurfyrirtækið en starfar sem undirverktaki sem sér Baltic Bygg fyrir starfsfólki.   Áður var í gildi kjarasamningur milli hins vegar Samtaka sænskra byggingarmanna, sem gerður var árið 2002 og fól í sér samkomuleg um samákvörðunarvald. Baltic Bygg hafði samband við starfsstöð Byggnads í Stokkhólmi í byrjun júní 2004 í sambandi við kjarasamning vegna framkvæmda við Söderfjörd-skólann í Vaxholm. Á fundi aðilanna kom fram að fyrirtækið hafði gert kjarasamning í Lettlandi, sem það taldi gilda í Svíþjóð. Byggnads var þessu ósammála og sagði sænska kjarasamninga gilda í Svíþjóð og lettneska kjarasamninga í Lettlandi.   Aðilarnir hittust aftur í byrjun september til að ræða um gerð kjarasamnings. Ákveðið var að fulltrúi Laval myndi tilkynna Byggnads um afstöðu fyrirtækisins innan tíðar. En 5. október var Byggnads tilkynnt að fyrirtækið hefði ekki enn komist að niðurstöðu varðandi kröfu Byggnads um kjarasamning og færi fram á meiri tíma til þess. Byggnads tilkynnti Laval þá að samtökin myndu setja samúðarverkfall á fyrirtækið því það neitaði að gera kjarasamning. Byggnads lýsti yfir samúðarverkafalli  á Laval 2. nóvember. Byggingarframkvæmdirnar sem verða fyrir áhrifum bannsins eru uppbygging skóla í Vaxholm og endurnýjun húss í Djursholm. Hinn 3. desember var gildissvið samúðarverkfallsins útvíkkað til Sænska rafiðnaðarsambandsins, sem felur í sér að það nær til allrar vinnu við uppsetningu á raflögnum og -búnaði.   Fjölmiðlaherferð Þegar  viðskiptabanninu var lýst yfir hóf fulltrúi Laval umfangsmikla fjölmiðlaherferð. Hann sakaði Byggnads um mismunun, aðgerðir sem einkenndust af fordómum gegn útlendingum og tilraun til að koma í veg fyrir að erlendir launamenn kæmu til Svíþjóðar í atvinnuskyni. Því var einnig haldið fram að bannið fæli í sér brot á EB-reglum um frjálsa för launafólks, þjónustu o.s.frv. Hins vegar var hvergi minnst á tilskipun EB um útsenda starfsmenn.   Einn liður í þessari herferð var að Vinnuveitendasamband lettneskra byggingarmanna sendi Byggnads bréf þar sem Byggnads var gagnrýnt harkalega fyrir samúðarverkfallið. Þá hótaði lettneska vinnuveitendasambandið viðeigandi ráðstöfunum gegn sænskum byggingarfyrirtækjum í Lettlandi. Lettneska ríkisstjórnin hóf einnig afskipti af málinu og gagnrýndi Byggnads, sænsku verkalýðshreyfinguna og sænsku ríkisstjórnina harkalega. Krafa var sett fram að framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna brygðist við meintum brotum Svía á evrópskum sáttmálum og reglugerðum. Sem fyrr var ekki orði vikið að tilskipuninni um útsenda starfsmenn.   Samtök lettneskra byggingarmanna urðu fyrir miklum þrýstingi. Byggnads veitti upplýsingar um deiluna og lagði áherslu á að hún beindist gegn fyrirtækinu og neitun þess að undirrita sænskan kjarasamning í samræmi við tilskipunina um útsenda starfsmenn. Viðræður fóru fram við forseta lettnesku samtakanna í tengslum við ungmennaskiptaáætlun milli lettnesku og sænsku samtakanna.   Fríverslunarsamtök Lettlands gáfu út tilkynningu með illa dulbúinni árás á Byggnads, sem aftur var byggð á evrópsku meginreglunni um frjálsa för launafólks án þess að minnast á tilskipunina um útsenda starfsmenn. Það skrifaði einnig bréf til Sænska alþýðusambandsins Í svari sínu lagði sænska ASÍ áherslu á stuðning sinn við  viðskiptabann Byggnads og tiltók að aðgerðirnar væru í samræmi við venjur á sænskum vinnumarkaði, sænskar reglugerðir og evrópskar tilskipanir og reglugerðir.   Drjúgur þáttur í herferðinni var viðtal við formenn allra sænsku stjórnmálaflokkanna utan sósíalista. Formennirnir sem rætt var við fordæmdu baráttu Byggnads fyrir kjarasamningunum og formaður Sænska hægriflokksins gekk svo langt að halda því fram að af Byggnads væri til háborinnar skammar fyrir sænska ASÍ.   Sænskar varnir gegn undirboðum og kjarasamningar Sænska verkalýðshreyfingin hefur staðið saman um þau starfskjör sem gilda um starfsmenn sem fara á milli landa til tímabundinna verkefna. Starfskjörin í landinu þar sem vinnan fer fram gilda sem lágmark. Þennan málaflokk bar á góma í byrjun síðasta áratugar þegar skip sem sigldi undir kýpversku flaggi með filippseyskri áhöfn lagðist við festar í sænskri höfn. Samúðarverkfall var sett á skipið og leiddi það til breytingar á sænskum lögum um samákvörðunarvald. Lagabreytingin, sem oft er nefnd Lex Britannia, veitti sænskum verkalýðsfélögum rétt til að grípa til þvingunaraðgerða gegn erlendu fyrirtæki þegar talið er að um undirboð sé að ræða. Verkalýðsfélögum er heimilt að grípa til slíkra aðgerða jafnvel þótt engir félagsmenn þeirra séu á vinnustaðnum og þótt kjarasamningur frá heimalandi fyrirtækisins eða starfsmannanna séu í gildi um þá.   Grunnreglan um að starfskjör þess lands sem starfsemin fer fram í skulu gilda hefur hlotið staðfestingu í úrskurðum Dómstóls Evrópubandalaganna. Dæmi um frægan slíkan úrskurð dómstólsins er að í máli portúgalska fyrirtækisins Rush Portuguesa á tíunda áratugnum var Frakklandi veittur réttur til að víkka út gildissvið kjarasamninga sinna þannig að portúgalskt fyrirtæki sem átti í viðskiptum í Frakklandi þyrfti að lúta ákvæðum þeirra.   Kjarasamningar voru einnig í brennidepli í aðildarviðræðum um inngöngu Svíþjóðar í ESB. Svíar vildu tryggja að hið sænska kerfi sterkra verkalýðsfélaga og kjarasamninga án almenns gildis yrði samþykkt sem vinnumarkaður sem samrýmdist ESB-reglum. Þessi krafa leiddi til ákvæðis í aðildarsamningnum sem veitti Svíum rétt til að viðhalda sínu kerfi í gegnum kjarasamninga og lög um vinnumarkaðinn.   Svíþjóð tók einnig virkan þátt ásamt öðrum Norðurlandaþjóðum í að knýja fram EB-tilskipun sem tryggir eftirlit með meginreglum um tímabundið starf í öðru landi. Tvær andstæðar fylkingar tókust á um þetta mál. Nýfrjálshyggjumenn vildu að starfskjör upprunalands starfsmannsins giltu og töldu rýrnun starfskjara auka samkeppni. Niðurstaðan var tilskipun nr. 96/71/EB, um útsenda starfsmenn, sem kveður á um að starfskjör í gistilandinu skulu gilda sem lágmark.   Þess ber að geta að skv. 22. inngangsákvæði tilskipunarunnar um útsenda starfsmenn hafa aðildarríki rétt á að hafa kerfi sem gerir þeim kleift að grípa til þvingunaraðgerða til að vernda starfsréttindi. Með þessum hætti mætti segja að staðfest hafi verið að Lex Britannia-lagabreytingin samrýmist löggjöf ESB. Einnig kveður tilskipunin á um að, gildi enginn algildur kjarasamningur í tilteknu ríki, þá gilda þeir kjarasamningar sem hafa almennt gildi og flestir aðilar hafa samþykkt. Þetta staðfestir einnig að sænskir kjarasamningar nægja til að tryggja að farið sé að EB-tilskipunum. Því hefur Svíþjóð ákveðið að innleiða tilskipunina um útsenda starfsmenn með tilvísun í Lex Britannia-lagabreytinguna og þá kjarasamninga sem gilda á landsvísu í Svíþjóð.   Hver styður hvern og hvað býr að baki? Byggnads og lettneska fyrirtækið eru ekki einu aðilar deilunnar. Fylking hægri afla stendur með lettneska fyrirtækinu og syngur látlaust í kór um hvernig sænska kerfið mismuni erlendum fyrirtækjum og að sænsk verkalýðsfélög séu of valdamikil. Stórsöngvarar þessa kórs eru frjálslyndu og hægri flokkarnir ásamt Samtökum sænsks atvinnulífs. Formaður hægriflokksins hefur jafnvel haldið því fram að sænskir byggingarmenn séu of vel launaðir.   Í ofanálag hefur lettneska ríkisstjórnin gagnrýnt sænsku ríkisstjórnina og Svía hart fyrir að standa ekki undir fjórþættu frelsi innri markaðar ESB. Lettneska ríkisstjórnin hefur sakað Svíþjóð um að tryggja ekki að farið sé að meginreglunni um frjálsa för. Um lettnesku ríkisstjórnina fylkja sér svo samtök lettneskra vinnuveitenda í byggingariðnaði og klappa henni á bakið. Ekki aðeins sænska ASÍ hefur veitt Byggnads fullan stuðning sinn heldur styður öll sænska verkalýðshreyfingin viðskiptabannið. Eftir að lettneska ríkisstjórnin hóf afskipti af deilunni hafa sænska ríkistjórnin og forsætisráðherrann, Göran Persson, lýst yfir stuðningi sínum við Byggnads.   Okkar skilningur á ástandinu er sá að hér sé ekki einungis um að ræða deilu við eitt einstakt lettneskt fyrirtæki. Laval er aðeins peð í mun stærri refskák þar sem markmiðið er að leggja sænska kjarasamningakerfið í rúst. Hægri öflin hafa fylkt liði og með því að láta í ljósi vorkunn með lettneska fyrirtækinu vilja þau ráðast gegn sænsku verkalýðshreyfingunni og saka hana um að standa í veginum fyrir frjálsri för launafólks með því að krefjast sænskra kjarasamninga.   Undanfarnar vikur hafa alls kyns sakir verið bornar á Byggnads. Hér eru nokkur dæmi: ?            Byggnads er haldið fordómum í garð útlendinga. ?            Byggnads eru hrokafull samtök sem vernda aðeins eigin hagsmuni. ?            Byggnads er á móti því að erlend fyrirtæki komi inn á sænskan markað. ?           Aðferðir Byggnads eiga skylt við mafíuna.   Þannig mætti lengi telja upp rógburðinn en staðreyndirnar tala sínu máli:   Evrópskir launþegar verða að standa saman. Byggnads og Sænska rafiðnaðarsambandið hafa sett viðskiptabann á lettneska fyrirtækið Laval Un Partneri Ltd. Ástæðan fyrir því að fyrirtækið neitar að skrifa undir kjarasamning er að samkeppnisstaða þess er háð lágum launum og lakari starfskjörum launamanna sinna.   Löng hefð er fyrir alþjóðlegri samvinnu og algjörri samstöðu sænsku verkalýðsfélaganna. Við vinnum að því að tryggja að aukið samstarf og opin samskipti í Evrópu bæti kjör vina okkar og starfsbræðra víðsvegar um álfuna. Að sjálfsögðu á ekki að mismuna fólki sem kemur hingað í atvinnuskyni með lágum launum eða lökum kjörum. Allir verða að hafa rétt á veikindalaunum, tryggingum og eðlilegum lífeyri.   Helsta hlutverk verkalýðsfélags er að tryggja hagsmuni félagsmanna sinna. Það gerum við aðeins með því að nálgast viðfangsefnið á heildrænan hátt og vinna að langtímamarkmiðum. Þess vegna höfum við áður samþykkt ýmsa þróun og erfiðar breytingar jafnvel þótt til styttri tíma litið glatist starfstækifæri fyrir vikið.   Augljós krafa á móti er að ný og betri störf skapist um síðir. Sú staðreynd að sænsk verkalýðsfélög taka ábyrgð sína alvarlega hefur verið ómissandi þáttur í hagvexti og samkeppnishæfni Svíþjóðar. Eitt og sama samkeppnisumhverfi og sömu aðstæður eiga að gilda um alla þá sem stunda rekstur í Svíþjóð. Annars rýrna laun og kjör og til lengri tíma gæti það ógnað sænska velferðarkerfinu.   Að verja og viðhalda þróun þess öryggisnets og kjara sem nást hafa með ötulli verkalýðsbaráttu fyrri kynslóða er mikil áskorun. Hins vegar erum við þess fullviss að hægt sé að sameina öflugt atvinnulíf félagslegri ábyrgð og góðum starfskjörum um alla Evrópu. Núverandi löggjöf ESB kveður á um að ekki megi mismuna erlendum starfsmönnum sem hingað koma frá öðrum aðildarríkjum ESB samanborið við sænska starfsmenn. Þannig er Svíþjóð skuldbundin til að tryggja að starfskjör byggingarmanna hjá lettneska fyrirtækinu séu ekki lakari en hjá Svíum. Engar tilteknar reglur heimila mismunun af því tagi jafnvel þótt um styttri dvöl í atvinnuskyni sé að ræða.   Norræna rafiðnaðarsambandið stendur heilshugar á bak við sænsku verkalýðshreyfingunni og mun berjast gegn því að tilskipunin um útsenda starfsmenn egni saman launþegum í Evrópu í neikvæðan spíral sífellt lægri launa og rýrðra kjara. 03.01.05. Guðmundur Gunnarsson form Norræna rafiðnaðarsambandsins

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?