Fréttir frá 2005

01 7. 2005

Kárahnjúkar = Endalok markaðslaunasamninga ?

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins - SA skrifaði leiðara í fréttabréf SA í gær. Formaður RSÍ er að velta því fyrir sér hvort hann sé virkilega að tala fyrir því að hverfa frá sveigjanleika íslenskra kjarasamninga.  Það hefur oft verið talið að íslenskir kjarasamningar hafi einkennst af sveigjanleika umfram mörg önnur lönd og ein helsta ástæða þess hversu vel okkur hafi tekist að byggja upp með markvissum hætti kaupmátt hér á landi.  Þetta hefur ekki síst verið álit forsvarsmanna atvinnurekenda.  Þar hafa menn bent á hina svokölluðu markaðslaunasamninga sem gott fordæmi verkalýðsfélaganna.  Þar er einungis tiltekið lágmarksgólf launataxta.  Almenn laun markast svo af getu og hæfni starfsmanna og eru umtalsvert hærri en lágmarkslaun.  Einungis örfáir byrjendur hafa verið á  lágmarkstöxtum.  Fyrirtæki hér á landi eru í vaxandi mæli með Impregilo í broddi fylkingar að breyta þessu. Þessi fyrirtæki nota lágmarkstaxta sem gildandi taxta fyrir vel menntaða starfsmenn með víðtæka og margra ára reynslu við sérhæfð störf m.a. við byggingu virkjana.  Sama gildir reyndar um vaxandi fjölda annarra starfa í þjóðfélaginu.   Háttarlag Impregilo er í vaxandi mæli að smita út frá sér og um leið að skaða samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, þau mega sín einskis gegn þeim fyrirtækjum sem nýta sér þessa möguleika.  Afstaða Samtaka atvinnulífsins í þessu máli vekur ætíð mikla undrun, því hún gengur sannarlega í berhögg við hagsmuni yfirgnæfandi fjölda aðildarfyrirtækja samtakanna.  Forsvarsmenn SA ganga erinda örfárra innlendra stórfyrirtækja og svo erlendra fyrirtækja sem eru að hasla sér völl hér á landi. Þegar forsvarsmenn stéttarfélaga vekja athygli á þessu er gripið til kunnra upphrópana eins og t.d. "Pólitískar bombur".  Þannig er reynt að víkjast undan því að fjalla um grundvallaratriði þessa máls:  Sem er fyrst og síðast samkeppnistaða íslenskra fyrirtækja og kjör þeirra sem minnst mega sín í íslensku samfélagi.  Í kjarasamningum þ.á.m virkjanasamning eru oft ákvæði um ferli sem mál fara í ef deilur rísa upp.  SA hafa undanfarið ár markvist haldið deilumálum vegna Kárahnjúka inn í samráðsnefndum mánuðum saman án þess að þau fái meðferð og má reyndar líkja vinnubrögðum þeirra þar við skrípaleik.   Afstaða SA mun leiða til þess að stéttarfélögin munu í nóvember næstkomandi þegar friðarskylda samninga losnar krefjast upptöku launakerfa almennra kjarasamninga og hverfa frá markaðslaunasamningum yfir í niðurnegld launakerfi.  Þetta var lagfært töluvert í síðustu kjarasamningum, verði áframhald á þessu verða stéttarfélögin líklega að ganga enn lengra.  Sveigjanleiki íslenskra kjarasamninga mun þá hverfa að mestu og við taka geirnegld launakerfi með skilgreindum lágmarkslaunaflokkum, starfsaldurshækkunum og námskeiðsálögum.  Þannig er það víða erlendis, líklega sakir þess að þar hafa menn þegar gengið í gegnum samskonar hremmingar og við upplifum þessa dagana.  Framkvæmdastjóri SA er tæpast að tala fyrir hönd hins almenna aðildarfyrirtækis í Samtökum atvinnulífsins, sé litið til þeirra sjónarmiða heyrast frá mörgum atvinnurekendum.07.01.05. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?