Fréttir frá 2005

02 5. 2005

Lágmarkslaun hækkuð sérstaklega, baráttan gegn neðanjarðarhagkerfinu.

Formaður RSÍ veltir fyrir sér mótsagnakenndri afstöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart neðanjarðarhagkerfinu. Hún kvartar undan vexti þess en vinnur jafnframt að því að renna öflugri stoðum undir það. Í samningum undanfarin ár höfum við ætíð hækkað lágmarkslaun sérstaklega. Má td rifja upp að lægstu taxtar okkar voru 78.000 kr. árið 1999 en eru í dag orðnir um 120.000. Lægstu sveinataxtar voru þá tæplega 100.000 kr. en eru í dag 157.000. Lægstu taxtar manna með faglega reynslu og voru í sjálfstæðum störfum voru árið 1999 liðlega 120.000 en eru í dag 182.000. Þetta eru að jafnaði um 55% hækkun. Sem betur fer verð ég að segja þá eru það tiltölulega fáir sem hafa verið að fá þessar feiknarlegu launahækkanir, það er sakir þess hversu fáir hafa verið á þessum töxtum. Dagvinnulaun rafiðnaðarmanna innan RSÍ hafa á þessu tímabili hækkað að meðaltali um 30% og heildarlaun um 28%. Það segir okkur að þegar menn hafa náð ákveðnum launum þá draga þeir úr vinnutíma. Enda hefur meðalvinnuvika okkar fólks farið úr 63 stundum árið 1970 í 58 stundir árið 1980, 56 stundir árið 1990, 50 stundir árið 2000 og er í dag um 45 stundir. Sem reyndar segir okkur að laun hafa í reynd hækkað meir en stendur hér framar. En það er samt nokkrir okkar félagsmanna sem hafa verið að njóta þessara sérstöku hækkana lágmarkslauna, þar á meðal eru hópar innan FÍS.   En fagpólitískt séð er hér um stefnubreytingu að ræða. Við rafiðnaðarmenn vorum frumkvöðlar í hinum svokölluðu opnu samningum. Hentum öllum launakerfum og föstum starfsaldurshækkunum á almennum markaði út um gluggana á Karphúsinu árið 1990 og tókum samninga með einum lágmarkstaxta. Fagleg færni og sókn í símenntun ákvarðaði laun rafiðnaðarmanna að mestu. Við vorum búin að byggja upp öflugasta eftirmenntunarkerfi hér á landi og okkar fólk hefur ætíð sótt þá símenntun af miklum krafti. Enda erum við í þeim starfsgeira þar sem tæknibyltingar eiga sér stað í stríðum straumum, jafnvel áður en menn ná að standa upp frá morgunverðarborðinu.   Engir íslendingar geta framfleytt sér á lágmarkstöxtum. En það getur fólk sem býr þar sem húsbyggingar kosta lítið, hitareikningur er enginn og matarreikningur fjölskyldunnar er brot af því sem er hér á landi. Lágmarkstaxtar sem eru langt fyrir neðan raunlaun er freisting sem ákveðin fyrirtæki standast ekki. Þau flytja nú orðið inn flugvélafarma af bláfátæku fólki, sem nauðbeygt flytur frá fjölskyldu sinni í 6 mánuði og selur sig á vald þessara fyrirtækja. Aðbúnaður, tryggingar, orlof, veikindadagar, gjöld til samfélagsins er svo bónus ofan á lágmarkstaxtanna fyrir þessi fyrirtæki.   Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja sem vilja standa eðlilega að sínum málum versnar og í sumum tilfellum er hún vonlaus. Þau eru tilbúin til þess að hækka lágmarkslaun sérstaklega, en ég verð alltaf jafn undrandi þegar framkvæmdastjóri SA tekur til máls og samsinnir ummælum ráðherra í vörn þeirra á hátterni þessara fyrirtækja. Reyndar er ég ekki einn um það, fjölmargir forsvarsmenn íslenskra rafiðnaðarfyrirtækja hafa haft samband við skrifstofur RSÍ og tekið undir þessa baráttu okkar, sem staðfestist í vilja þeirra að kippa upp lágmarkstöxtum kjarasamninga.   Ráðherrar halda áfram leik sínum í að gera okkur forviða. Fjármálaráðherra hefur í þessari viku flutt miklar ræður um neðanjarðarhagkerfið og hann hefur uppgötvað að þar fari margir milljarðar fram hjá ríkiskassanum, sérstaklega í launageiranum. Já það er nú það, við hin vissum þetta fyrir allmörgum árum og höfum ítrekað reynt að vekja athygli á þessu. Ráðherrar okkar taka nú vonandi á honum stóra sínum og taka undir með okkur í verkalýðshreyfingunni. Fyrsta skref væri að kippa út af borðinu hinum fáránlegu frumvarpsdrögum sem Félagsmálaráðherra setti fram fyrir nokkrum dögum. Þar ætlar hann að auðvelda þessum fyrirtækjum enn frekar að svínbeygja íslensk fyrirtæki. Ef það nær fram að ganga er Félagsmálaráðherra sannanlega að styrkja neðanjarðarhagkerfið.   Því miður er það nú svo að allt of margir ráðamenn og alþingismenn þekkja ekki hvernig vinnumarkaðurinn virkar. Í þeirra röðum eru sífellt færri sem hafa komið út í atvinnulífið. Flestir þeirra koma út úr háskóla, fara svo í þjálfun inn á skrifstofum ráðuneyta og þaðan inn á þing. Þetta að sést td vel á því hvernig þeir hafa haldið á lífeyrissjóðsmálum og hvernig þeir hafa tekið á málum við Kárahnjúka. Þeir slá sér á brjóst og þakka sér vaxandi kaupmátt, öll vitum við að verkalýðshreyfingin hefur ítrekað allt frá árinu 1990 orðið að þvinga stjórnvöld inn á réttar brautir. Verkalýðshreyfingin hefur tamið sér fagleg vinnubrögð á þessum tíma, en það vantar sannanlega verulega á að það sé gert á stjórnarheimilinu.   Háskóla Íslands var líkt við fiskabúr fyrir nokkrum árum. Einangruð veröld út af fyrir sig í engum tengslum við umhverfið. Þar var samankomin þriðja kynslóð prófessora sem aldrei höfðu stigið út úr skólanum. Nemendur voru ráðnir beint í til kennslu við lokapróf. Háskólinn hefur í samvinnu við atvinnulífið ráðið umtalsverða bót á þessu. Þessu er aftur á móti öfugt farið á Alþingi. Lítið þið yfir hóp þeirra sem eru á þingi og einnig þá sem virðast vera á leið þangað og eru að bylta um kvenfélögum. Lesið þið ummæli þeirra um atvinnulífið, jesús minn þvílík fáfræði, þvílíkt skilningsleysi.    Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?