Fréttir frá 2005

02 10. 2005

Styður verkalýðshreyfingin Samfylkinguna?

Hér fjallar formaður RSÍ um flokkspólitísk tengsl verkalýðshreyfingarinnarFyrir nokkrum dögum birtist grein eftir Gunnar Guttormsson í miðopnu Morgunblaðsins. Þar greinir hann frá því að íslensk verkalýðshreyfing hafi gengið í SAMAK árið 2000 og þar með tekið þá stefnubreytingu að fara í samstarf við norrænu krataflokkana og þá um leið Samfylkinguna. Gunnar kynnir sig sem fyrrv. starfsmann ASÍ og félagsmann. Gunnar var starfsmaður ASÍ í nokkra mánuði fyrir uþb 40 árum. Hann fór þá í hagræðingsnám á vegum verkalýðshreyfingarinnar til Noregs og hætti skömmu síðar hjá ASÍ og hóf störf á vegum hins opinbera og hefur síðan verið félagsmaður í BSRB.   Eins og þekkt er þá voru norrænu krataflokkarnir stofnaðir upp úr og fyrir tilstilli verkalýðsfélaganna á fyrri hluta síðustu aldar. Mikið samspil var á milli þessara aðila í upphafi en fljótlega slitnaði á milli á Íslandi og eins á Finnlandi. SAMAK er samstarfsvettvangur norrænu Alþýðusambandanna. Þar er fjallað að mestu um afstöðu gagnvart Evrópusambandinu og reglugerðum þess og eins alþjóðavæðingu. Frá eldri tímum eiga krataflokkarnir fulltrúa innan SAMAK. ASÍ tók eftir því mér skilst ákvörðun um að gerast aðila að SAMAK til þess að fá sem víðtækastar upplýsingar um þær miklu breytingar sem eru að gerast í Evrópu.   Ég hlaut kjör í miðstjórn ASÍ árið 1996 í stað fyrrverandi formanns RSÍ, að því er mér skildist amk þá. Frægt uppgjör varð á næsta þingi þar á eftir í Digranesi árið 2000. Þá voru öll stærstu samböndin undir forystu Halldórs Björnssonar þáverandi formanns Starfsgreinasambandsins búin að sameinast um að kjósa Ara Skúlason sem forseta ASÍ. Eftir að þingið hófst komu tilskipanir frá formönnum stjórnarflokkana og VG um að kjósa ekki Ara. Samstarfið hans Halldórs Björnssonar splundraðist og þingið snérist upp í flokkspólitískan leðjuslag. Þar var því meðal annars haldið fram að ég hefði verið kjörin í miðstjórn í stað sjálfstæðismanns í Starfsgreinasambandinu frá Austfjörðum sem hefði staðið upp fyrir mér. Eins og frægt varð höfnuðu fulltrúar RSÍ alfarið þátttöku í þessu flokkspólitíska sjónarspili og drógu sig út úr allri þátttöku í kosningum á þinginu. Ég sagði þá í ræðu að það væri ljóst hvaða stjórnmálflokk ég hefði stutt og ma verið í framboði fyrir, en ég hafnaði algjörlega að ég starfaði á hans vegum innan verkalýðshreyfingarinnar og hafnaði alfarið að láta kjósa mig undir þeim forsendum í miðstjórn. Spunadrottningar stjórnarflokkanna hafa reyndar haldið allt öðru fram. Greinar og ræður RSÍ manna frá þessu þingi birtust hér á heimasíðunni.   RSÍ tók sæti sitt aftur í miðstjórn ASÍ ári síðar. Þann tíma sem ég haf starfað í miðstjórn ASÍ hef ég ekki orðið var við að miðstjórn taki afstöðu eftir flokkspólitískum línum. Við erum þrír sem höfum verið fulltrúar RSÍ í miðstjórn ASÍ þennan tíma, engin okkar frá sama stjórnmálaflokk. Eðli málsins samkvæmt er ljóst að forsvarsmenn hagsmunabaráttu launamanna verða oft í stjórnarandstöðu, sama hvaða stjórnmálaflokkar eru við völd hverju sinni. Þegar ég var að koma inn í þessi störf innan RSÍ upp úr 1990 þá voru áberandi tengsl stjórnmálaflokka inn í hreyfinguna og margir forsvarsmenn stéttarfélaga tóku hiklaust flokkspólitíska afstöðu. Ég veit líka eftir því sem ég hef heyrt frá forverum mínum að flokkspólitísk tengsl voru enn meiri fyrir 40 árum í þann stutta tíma sem Gunnar Guttormsson var félagsmaður og starfsmaður ASÍ. Í dag er þetta algjörlega horfið.   Verkalýðshreyfingin hefur tamið sér mjög öguð og fagleg vinnubrögð. Hún hefur á sínum snærum ákaflega færa sérfræðinga. Verkalýðshreyfingin hefur ótal sinnum þurft að þvinga núverandi stjórnvöld inn á réttar brautir í hagstjórn. Kaupmáttarauki frá árinu 1990 er henni mun frekar að þakka en hagstjórn ríkistjórnarinnar. Íslenskt þjóðfélag væri mikið betur statt ef stjórnmálaflokkar og þingmenn temdu sér jafn fagleg vinnubrögð.   Hvað veldur því að Gunnar Guttormsson er að gera inngöngu ASÍ árið 2000 að umtalsefni núna? Hvað ræður vali hans á þeim forsendum sem hann notar til þess að byggja upp grein sína? Hvers vegna kynnir hann sig sem fyrrverandi starfsmann og félagsmann ASÍ? Allt þetta skil ég ekki. En ég skil vel hvers vegna Morgunblaðið birtir grein hans á besta stað í blaðinu og svo fáránlegan framhaldsspuna Gunnars á áberandi stað í dag.   Á fundi miðstjórnar ASÍ í gær var rætt um þetta mál. Þar kom ma fram að í miðstjórn ASÍ eru fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna og þeir voru allir jafnundrandi á framsetningu Gunnars Guttormssonar.Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?