Fréttir frá 2005

02 12. 2005

Níðst á blaðburðarfólki 2 bréf félagsmanna til heimasíðunnar

Nú hefur annar félagsmaður sent okkur bréf vegna þessa máls. Bréf félagsmanns til heimasíðunnar : Í stéttarbaráttu finnst mér að stéttir þurfi að standa saman og koma hreint fram og ég er sammála baráttu félagsins í sambandi við t.d. við Kárahnjúka og varðandi það að menn séu að nota erlent, óleyfilegt vinnuafl í verktöku í Reykjavík.   Mér þykir það stinga í stúf að félag sem talar hátt um réttindi launþega, skuli svo birta auglýsingar sínar (sbr. auglýsingu 12. feb. um orlofshús um páska), í Fréttablaðinu, sem ekki hefur fengist til að gera kjarasamninga við blaðburðarfólk sitt þó að samningar séu til hjá öðrum fyrirtækjum um samskonar starf, t.d. Árvakri.   Fjölskylda mín starfar við blaðburð hjá Morgunblaðinu og höfum við lengi kennt í brjósti um kollega okkar sem þræla fyrir Fréttablaðið á broti af okkar launum og fá engin laun þótt hlaðið sé endalaust aukablöðum á hverfin þeirra. Einnig finnst okkur þetta alvarlegt, þar sem þetta kemur illa niður á fyrirtækinu sem við vinnum fyrir, þar sem Fréttablaðið getur augljóslega boðið ódýrari auglýsingar á kostnað blaðbera sinna.   Virðingarfyllst, Félagsmaður í Félagi íslenskra rafvirkja P.S. Mér þætti vænt um að fá svar við þessu erindi á heimasíðu félagsins.  --------------------------------------------------------------------------- Svar : Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum innan ASÍ, hafa bæði VR og Efling tekið að sér að sjá um kjarasamninga vegna blaðburðarfólks og það sé félagsmenn þar. Ef ekki nást viðunandi niðurstöður í kjarasamninga grípa viðkomandi stéttarfélög í samráði við félagsmenn sína að til viðeigandi aðgerða. Í samskiptum milli stéttarfélaga tíðkast það ekki að þau séu að hafa afskipti af innra starfi hvers annars þám kjarasamningum. Rafiðnaðarmenn hafa oftar en aðrir veitt stéttum stuðning í kjarabaráttu þeirra ma með ríflegum fjárhagslegum stuðning við verkfallsjóði. Það mun örugglega ekki standa á rafiðnaðarmönnum að veita stéttarfélögum blaðburðarfólks fullan stuðning óski þau þess. Guðmundur Gunnarsson   ----------------------------------------------------------------------------- Sæll Guðmundur Mér var bent á meðfylgjandi bréf sem birtist á vef ykkar. Þar sem ég þekki málið nokkuð vildi ég leggja það til málanna sem ég þekki best og sannast. Þegar ég fór að skipta mér að málefnum blaðburðarfóks Fb seint á árinu 2003 varð ég var við að það var núningur í gangi milli Eflingar og VR varðandi málefni blaðbera. VR hafði þá fyrr á árinu gert kjarasamning við Árvakur en sá starfsmaður Eflingar sem ég talaði við fann honum allt til foráttu. Eftir viðræður mínar við ASÍ var  um þessi mál var mér sagt að á sameiginlegum fundi Eflingar, VR og ASÍ hefði það verið ákveðið að VR færi með mál blaðbera þar sem það hefði þá þegar gert kjarasamning við Árvakur eins og fyrr kemur fram. Ég hef talað mjög oft við starfsmenn VR síðan og nokkrum sinnum við formann VR. Þeir segja að þar sem Fréttablaðið eða dreifingaraðili þess vilji ekki koma á fund til þeirra og ræða samninga þá geti þeir ekkert gert. Þetta kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir. Hvað mynduð þið segja ef Impreglio segði ykkur að þegja og vildi ekki við ykkur tala? Blaðberar mega ekki vera aðilar að stéttarfélagi yngri en 16 ára. Ég spurðist formlega fyrir um það hjá VR hvort ég fengi inngöngu í VR til að tala máli sonar míns sem forráðamaður hans þar sem hann væri utan stéttarfélaga. Því var hafnað. Ég hef aldrei skilið það afhverju VR blæs ekki til aðgerða, boðar blaðbera Fréttablaðsins til fundar og tekur að sér skipulagningu málsins. Ef fyrirtækið neitar að ganga til viðræðna er næsta skref að hóta aðgerðum. Blað sem ekki er borið út lifir ekki lengi. Allt snýst þetta um skipulagningu fjöldans því blaðberar eru eðli málsins samkvæmt ósamstæður hópur. Nú síðast hefur það komið á daginn að Pósthúsið ehf vill semja við Póstmannafélagið en ekki VR. Gott og vel. Mér er sama um það. Ég hef rætt við formann Póstmannafélagsins og hún segist vera gamall blaðberi og þekki því nokkuð til aðstæðna. Guð láti gott á vita. Aðalmálið finnst mér vera að það komist á formlegur og ásættanlegur kjarasamningur þannig að dreifingaraðili FB hafi ekki algert sjálfdæmi um allt sem varðar laun, kjör og vinnuálag. Þú talar um að menn vilji ekki ganga inn á verksvið hvers annars í verkalýðshreyfingunni. Ég skil það vel. En samkvæmt minni reynslu þá eru blaðberar Fréttablaðsins algerlega munaðarlausir hvað stöðu þeirra varðar innan hreyfingarinnar og hefur í raun ekki verið hleypt inn í neina vistarveru þar á bæ. Þó má ekki glema því að VR annaðist mál blaðbera DV þegar það fór á hausinn með ágætum. Ég hef reynt að skapa umræðu um málefni þessarar stéttar á liðnum mánuðum. Það hefur tekist meðal almennings. Það skynja ég á þeim viðbrögðum sem ég fæ meðal annars frá alókunnugu fólki. En mér hefur ekki tekist að skapa umræðu um þessi mál meðal verkalýðshreyfingarinnar og blaðamanna. Hvers vegna veit ég ekki. Ég skil þó blaðamenn sem láta starfsöryggi ganga framar principum en ég skil ekki verkalýðshreyfinguna (þá set ég alla undir sama hatt sem er kannski ósanngjarnt). Ég tek fyllilega undir það sem kemur fram í bréfi bréfritara að það á að vera eitt af hlutverkum verkalýðshreyfingarinnar að standa vörð um kjarasamninga og láta þau fyrirtæki sem vilja spila eftir leikreglum ekki gjalda þess að því leyti að þau sem spila frítt í skjóli hortugheita geti veikt hin með undirboðum. Þetta er að gerast í samskiptum Moggans og Fb? Ég átti ekki von á því hér áður að það myndi gerast að ég færi í baráttu fyrir tilvist og velgengni Morgunblaðsins en það geri ég svo sannarlega í dag. Þetta er sett niður í símskeytastíl en vonandi kemst eðli málsins til skila. Með bestu kveðju GJ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?