Fréttir frá 2005

02 19. 2005

Umræður um skylduaðild að stéttarfélögum

Eftir að farið var að sjónvarpa frá þingfundum, þá blasir við sú skelfilega staðreynd að jafnframt er verið að upplýsa landsmenn um þekkingarstig þingmanna. Helgarþanki formanns RSÍ.Ég hef oft heyrt að umræður á háttvirtu Alþingi séu ekki burðugar, en ekki haft mikið svigrúm til þess að kynna mér það ítarlega. Er búinn að vera heima mikið til þessa vikuna vegna hinnar svæsnu flensu sem er að ganga. Gengur lítið að losna við hana, Allt þér að kenna, segir konan, þú tollir ekkert heima. Ert alltaf að rjúka út á einhverja fundi. Það er svo sem rétt eins og sést á heimasíðunni þá erum við á fullu að ganga frá samningum. Kveikti af tilviljun á sjónvarpinu einn daginn sem ég var heima og datt inn í miðjar umræður á Alþingi þar sem verið var að fjalla um frumvarp Péturs Blöndal um að afnema skylduaðild að stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Heyrði í Pétri og skoðanabræðrum hans Sigurði Kára og Guðlaugi Þór og svo þeim félögum Ögmundi og Össur.   Ögmundur og Össur fjölluðu um málið af þekkingu. Ögmundur hélt sig við umræðuefnið þeas opinbera starfsmenn og stéttarfélög þeirra. Össur fór víðar yfir vinnumarkaðinn. Öll þekkjum við skoðanir Péturs og málflutning hans. Hvernig hann hiklaust snýr rökum upp í andhverfu sína og án þess að blikka augum setur fram skoðanir studdar þessum andrökum. Það sem mér þótti verra var að heyra í þeim félögum Guðlaugi og Sigurði. Þeir héldu hverja ræðuna á fætur annarri um stéttarfélög og höfðu greinilega ekki minnstu þekkingu á því sem þeir voru að tala um. Fóru sitt og hvað um opinbera vinnumarkaðinn og hin almenna með allskonar órökstuddum alhæfingum.   Öll vitum við að þar er allnokkur munur á almenna markaðnum og hinum opinbera. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Guðlaugur og Sigurður hafi aldrei komið inn á skrifstofu í stéttarfélagi og þaðan af síður á félagsfund. Því miður er það nú svo að vaxandi fjöldi alþingismanna hefur ekki komið út á vinnumarkaðinn að nokkru ráði. Þeir ganga úr háskólunum inn á skrifstofur ráðuneyta fara þar í einhverja pólitíska þjálfun og svo beint inn á Alþingi. Allur málflutningur Sigurðar og þá sérstaklega Guðlaugs einkennist af einhverri óvild í garð launamanna og stéttarfélaga. Verkalýðsforkólfar var annað hvert orð sem þeir notuðu í ræðum sínum og á þeim er ekki annað að skilja en að það séu einhverjar skepnur sem berji á varnarlausu fólki og nýti sér samtök þess til þess að koma á framfæri persónulegum skoðunum. Þessir verkalýðsforkólfar skylda svo fólk gegn vilja þess að greiða einhvern orlofsrekstur og annan óþarfa. Vinnuveitendur eru ekki einhverjar skepnur sagði Sigurður, þetta er gott fólk sem vill leyfa fólki að velja á milli hvort það sé í stéttarfélögum eða ekki. Já, það er nefnilega það.   Um hvað eru þessir menn að tala? Eins og ég sagði áður þá er nokkur munur á almennum markaði og hinum opinbera. Það tíðkast nokkuð á hinum opinbera að starfsmenn séu gerðir að verktökum. Það er svo þeirra að ákveða hvort þeir kjósi að greiða í stéttarfélög. Á undanförnum árum hefur það aukist umtalsvert að menn breyti sér í ehf svo þeir komist upp með að greiða minna til samfélagsins. Um þetta fjallaði fjármálaráðherra fyrir stuttu og lýsti réttmætum áhyggjum sínum. Þetta er bein afleiðing breytingum sem búið er að gera á skattkerfinu og svo ekki síður markvissum áróðri bankastofnana og tryggingarfélaga þar sem þeir verja hundruðum milljóna í hverja atlöguna að annarri til þess að ná til sín lífeyriskerfinu og því tryggingarumhverfi sem stéttarfélögin hafa byggt upp.   Margir af þeim einstaklingum sem eru orðnir ehf eru ekki í stéttarfélögum, en það eru örugglega jafnmargir þeirra sem kjósa að vera þar, þannig er það allavega í rafiðnaðargeiranum. Það eru allnokkrir atvinnurekendur sem sækja fast að starfsmönnum sínum um þeir séu ekki í stéttarfélögum. Þeir ota að þeim einhverjum launatryggingum frá tryggingarfélögum eða bönkum og segja að það sé mikið betra. Þeir launamenn sem láta undan, lenda svo ítrekað í því að fá ekki lögbundnar lágmarkslaunahækkanir og margir þeirra hafa td ekki fengið hækkunina á mótframlagi í lífeyrissjóð og hafa jafnvel heldur ekki fengið lögbundið mótframlag í séreignarsjóð. Við hjá RSÍ vitum vel um hvaða fyrirtæki þetta eru í rafiðnaðargeiranum, því starfsmenn þeirra leita alltaf fyrr eða síðar til okkar. Margir þessir starfsmanna ganga svo frá samningum sínum þannig að þeir taka út launatengd gjöld með útborguðum launum og koma þeim svo sjálfir til skila. Þeir vilja vera í stéttarfélögum og njóta þess sem þau bjóða upp á. Það er allnokkur hópur af félagsmönnum RSÍ í þessari stöðu.   Þeir atvinnurekendur sem vilja hafa samskipti við starfsmenn sína með þessum hætti, réttlæta ætíð afstöðu sína með því að benda á að umsamin lágmarkslaun séu 150 þús. á mánuði, viðkomandi launamaður hafi eitthvað hærri laun og sé þar af leiðandi yfirborgaður. Hann sé þar með búinn að fá fyrirfram greiddar allar launahækkanir langt fram í tímann. Margir þessara launamanna hafa leitað til okkar um að fá leiðréttingu sinna mála. Lögmenn okkar taka viðkomandi atvinnurekendur í gegn, og þeir þurfa að greiða lögbundnar launahækkanir og lögbundin launatengd gjöld oft langt aftur í tímann. Þó svo þeim hafi tekist að koma viðkomandi einstakling út úr stéttarfélagi í einhvern tíma. Hver dómurinn á fætur öðrum fellur.   Eitt lýsandi dæmi kom upp í vikunni. Einn félagsmanna kom til okkar og bað okkur um að fara yfir tímaskýrslur og útborguð laun. Hann var á svokölluðum fastlaunasamning fékk eina óskilgreinda upphæð útborgaða á mánuði. Hann kaus í andstöðu við vinnuveitanda sinn að vera í stéttarfélagi og stóð sjálfur skil á sínum gjöldum. Honum var gert að vinna ákveðin fjölda yfirvinnutíma á viku auk þess að vinna hluta annars hvers laugardags. Ástæða er að geta þess að þetta var fagleg vinna við uppsetningu og viðhald á rafbúnaði. Þegar við vorum búnir að reikna út hvaða tímakaup hann væri á í raun og veru, kom í ljós að hann vel undir lágmarkslaunum. Hann fór með þessa útreikninga og sýndi vinnuveitanda sínum og fór fram á að fá greiddan mismuninn. Hann var rekinn á staðnum. Vinnuveitandinn áttaði sig svo á að hann kæmist ekki upp annað en að greiða mismuninn þó svo hann hefði rekið starfsmann sinn. Auk þess að þurfa að greiða honum full laun út uppsagnartímann. Þá hringdi hann í starfsmanninn og sagði að þetta væri allt saman misskilningur og bað hann um að koma til vinnu. Þegar okkar maður mætti svo í vinnuna, þá var honum tilkynnt að hann hefði jú alltaf verið lagermaður og ætti því að hafa laun eftir lágmarkstaxta Eflingar og hann væri nú bara á töluverðri yfirborgun og ætti svo sem ekki rétt á 3% launahækkuninni um áramótin en af sérstakri góðsemi ætlaði hann að láta hann hafa hana.   Annað dæmi höfum við úr fjölmiðlum á síðasta ári þegar nafni minn útgerðarmaður tók sig til og réði áhöfn á skip sitt og setti inn í ráðningarsamninga skyldu að standa utan stéttarfélags. Það var bent á að það vantaði alnokkuð upp á að kjör þessara einstaklinga stæðust lögbundin lágmarkskjör. Guðmundur mætti í fjölmiðla og lýsti furðu sinni á afstöðu forsvarsmanna stéttarfélaga um að krefjast þess að allir væru í stéttarfélögum. Engin var að tala um það nema hann sjálfur. Stéttarfélögin sendu ráðningarsamningana fyrir dómstóla þá sendi nafni minn skyndilega nýja ráðningarsamninga þar sem hann var búinn að laga allt það sem ekki var í lagi. Hann fór svo aftur í fjölmiðla og sagðist ekki skilja þetta ofríki að menn mættu ekki standa utan félaga. Þvílíkur ruglmálflutningur. Það er ástæða til þess að minna þá félaga Guðlaug og Sigurð á afstöðu Samtaka atvinnulífsins í þessu máli. Atvinnurekendur þekkja mikilvægt hlutverk stéttarfélaga. Það er nefnilega oftar sem við lendum í þeirri stöðu að þurfa að benda launamönnum á að þær kröfur sem þeir vilja setja fram standast ekki. Það er æði oft okkar hlutskipti að hlutast til um að friður ríki á vinnustöðum.   Það eru oft sem vinnuveitendur leita til okkar til þess að leysa út deilum sem rísa á vinnustöðum. Við erum ekki bara í því að efna til ófriðar og lemja upp laun og byggja svo sumarbústaði þess á milli. Og svo maður tali nú ekki um að við ?Verkalýðsforkólfarnir? séum að skipta okkur af þjóðmálum, sem við eigum greinilega að þeirra mati ekkert að gera. Það virðist fara í taugarnar á sumum þingmönnum þá einna helst Sjálfstæðismönnum að vera truflaðir í málflutning sínum. Starfsemi stéttarfélaga er feiknarlega víðtæk og er orðin mjög fagleg. Eðli sínu samkvæmt þá eru stéttarfélög oft í stjórnarandstöðu, sama hvaða stjórnmálaflokkur er við stjórnvölinn. Þau eru jú hagsmunasamtök og í þeim er hver einasti félagsmaður með atkvæðisrétt bæði á félagsfundum og ekki síður gagnvart Alþingi. Þingmenn eru til fyrir okkur, ekki við fyrir þá. Þeir verða að hlusta á okkur, ekki bara vikuna fyrir alþingiskosningar. Þeir eiga ekkert með að hreyta í okkur ónotum, ef við vogum okkur að hafa einhverjar aðrar skoðanir en þeim eru þóknanlegar. Hver einasta ályktun sem er send frá RSÍ og hefur að geyma einhverja pólitíska afstöðu er afgreidd af miðstjórn eða félagsfundi. Það eru ekki mínar persónulegu skoðanir. Það lendir á mér að koma þeim á framfæri. Ég hvet Guðlaug og Sigurð og reyndar alla þingmenn til þess að kynna sér mál áður en þeir fjalla um þau. Eftir að farið var að sjónvarpa þingfundum, þá er verið að kynna þekkingarleysi þingmanna fyrir landsmönnum. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?