Fréttir frá 2005

03 1. 2005

Iðnaðarmenn í Baltnesku löndunum

Allnokkur umræða er um innstreymi byggingarmanna hingað og launakjör þeirra. Hér eru nokkrar upplýsingar um kjör þeirra í heimalöndum þeirra.  Meðalmánaðarlaun iðnaðarmanna í Balkanlöndum eru tæplega 40 þús. kr. og um 210 kr. á tímann. Meðalmánaðarlaun rafvirkja eru liðlega 50 þús. kr. og 290 kr. á tímann, alveg sama hversu lengi unnið er. Laun í Litháen eru um 8% lægri. Mikil samkeppni er á byggingarmarkaði með vinnuafli sem kemur frá Úkraínu og Moldavíu þar eru laun um 13 þús. kr. á mán. Atvinnuleysisbætur í Balkanlöndum eru 50% af fyrri launum í 3 mán. og 30% næstu 3 mán. Atvinnulífið greiðir 0.5% í atvinnuleysissjóð og launamenn 1%, auk þess fer ákveðið hlutfall af félagsgjaldi stéttarfélaga í atvinnuleysistryggingasjóð sem leiðir svo til þess að þeir sem eru félagsmenn fá hærri bætur. Mikið er um að laun séu svört, í Lettlandi er um 30% allrar launasummunnar svört.   Langalgengast er að stór byggingarfyrirtæki sjái um byggingarstarfsemi. Þau hafa sína eigin "kjarasamninga" sem þau setja upp sjálf og launamenn fá ekkert að koma nærri þeim. Ef þeir eru með eitthvert múður fá þeir ekki vinnu. Aðbúnaður og tryggingar starfsmanna er mjög lélegur oftast engin. Nóg er af vinnuafli frá öðrum austantjaldslöndum. Það er mikil uppbygging í Balkanlöndum, alþjóðlegar hótelkeðjur reisa mikil hótel og fyrirtæki eru að flytja þangað, þám íslensk. Ef fulltrúar verkalýðsfélaganna fara á byggingastaði þá segja forsvarsmenn fyrirtækjanna hiklaust við sína starfsmenn að það þýði 5% launalækkun ef menn gangi í verkalýðsfélög og það fjármagn renni einungis í vasa spilltra kommissara. Hér var vísað til fyrra ástands, en eins allir vita höfðu stéttarfélög í Austur Evrópu ekkert með kjör fólks að gera, þau ráku orlofsbúðir og ungliðastarfsemi fyrir Flokkinn. Helsta vandamál þeirra sem eru að reyna að byggja upp samasvarandi verkalýðshreyfingu og við þekkjum er að það er ekkert samstarf með fyrirtækjum og engan að semja við. Ef samningur næst þá er hann við eitt fyrirtæki, sem svo getur á engan hátt varið samninginn vegna takmarkalausra niðurboða annarra.   Samtök launamanna og fyrirtækja í Finnlandi með stuðningi finnskra stjórnvalda hafa farið mjög athyglisverða leið. Þau reka sameiginlega skrifstofu í Tallinn. Skrifstofan er í góðu sambandi við fjölmiðla, sjónvarps og útvarpstöðvar. Hún auglýsir mikið hvaða réttindi launamenn eigi að hafa fari þeir til vinnu í Finnlandi. Haft er samband við fyrirtæki sem eru að reyna að ná verkefnum í Finnlandi og þeim kynnt hver séu lágmarkslaun, lágmarkstryggingar og aðbúnaður. Skrifstofan hvetur alla sem telja að þeir hafi verið hlunnfarnir í launum eða öðru að hafa samband og hún leitar réttar baltneskra launamanna þeim að kostnaðarlausu. Farið er á vinnustaði og rætt við starfsfólk. Í viðtali við forstöðumann þessarar skrifstofu kom fram að þau hafi greint breytingu á viðhorfum baltneskra launamanna til verkalýðshreyfingarinnar. Þeir hafi fyrst verið mjög neikvæðir í garð stéttarfélaga og starfsmanna þeirra og alls ekki skilið hvers vegna í ósköpunum þeir ættu að ræða við þá um laun. En þegar þeir hefðu verið á norðurlöndunum við vinnu og kynnst því að stéttarfélögin séu að vinna að því að fá laun og aðbúnað lagfærðan þá hafi viðhorfið farið að breytast. Þetta hafi þeir svo rætt um við félaga sína þegar heim var komið.   Það hafa verið gerða kannanir á því hversu margir vilji fara að heiman og leita að vinnu. Einungis 8% af vinnuaflinu vill fara að heiman og leita að vinnu. Það er að stærstum hluta til ungt fólk sem ekki er komið með heimili og fjölskyldu. Fólk vill vera heima hjá sér og hafa vinnu þar. Fyrirtæki sem nýta sér þetta vinnuafl og taka að sér verkefni með miklum niðurboðum og neita stéttarfélögum aðgang að starfsmönnum. Við eigum við stærra vandamál að glíma hér á landi en á hinum Norðurlandannafélagar okkar og það eru viðhorf íslenskra stjórnvalda, þau eru einfaldlega allt önnur en hjá kollegum þeirra. Hér má einnig minna á þann hræðsluáróður sem var rekinn við stofnun Evrópska bandalagsins um að hundruð þúsunda verkamanna frá Spáni og Portúgal myndu streyma norður, það hefur ekki gerst. Þetta fólk er eins við, það vill helst vera heima hjá sér og fer helst ekki í burtu frá fjölskyldu og heimili. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?