Fréttir frá 2005

03 16. 2005

Val milli séreignar og samtryggingar - Hugleiðing um breytingar VR

Rafiðnaðarmenn hafa í gegnum tíðina ætíð verið í fararbroddi meðal stéttarfélaga í að nýta félagslega samstöðu til þess að búa sér og fjölskyldum sínum öruggara umhverfi. En tíðarandinn hefur breyst og sérhyggja hefur vaxið.  Vitanlega þurfum við ætíð að skoða vel hvernig hagsmunum okkar og fjölskyldum okkar er best varið Rafiðnaðarmenn hafa í gegnum tíðina ætíð verið í fararbroddi meðal stéttarfélaga í að nýta félagslega samstöðu til þess að búa sér og fjölskyldum sínum öruggara umhverfi.  Strax við stofnum FÍR árið 1926 var farið að huga að stofnun sjúkrasjóðs og verkfallsjóðs.  Kaup á orlofsaðstöðu og uppbygging fræðslukerfis varð snemma að föstum lið á aðalfundum stéttarfélaga rafiðnaðarmanna.  Öflugt starfsmenntakerfi er hryggbein kjarabaráttu rafiðnaðarmanna og starfsöryggis þeirra.  Sjúkrasjóður rafiðnaðarmanna er orðin feiknarlega öflugur og með mjög víðtæka tryggingarvernd.  Sama gildir um orlofskerfið og starfsmenntakerfið.  En tíðarandinn hefur breyst og sérhyggja hefur vaxið.  Vitanlega þurfum við ætíð að vera vel vakandi yfir allri þróun samfélagsins og skoða vel hvernig hagsmunum okkar og fjölskyldum okkar er best varið.   Menn hafa nokkuð velt fyrir sér þeim breytingum, sem VR er að innleiða hjá sér með sérsjóð félagsmanna þar sem félagið endurgreiðir að hluta félagsgjöld og inngreiðslur í sjúkrasjóð og orlofssjóð.  Í þessu sambandi er ástæða til þess að benda á nokkur atriði sem menn verða að huga að og það er ekki hægt að setja beint samhengi milli þess sem eitt stéttarfélag getur gert og yfirfært það á önnur stéttarfélög.  Rekstrargrundvöllur stéttarfélaga er ákaflega misjafn.  Það byggist á samsetningu og fjölda félagsmanna.  T.d. hversu stór hluti félagsmanna vinnur við störf þar  sem er mikil þörf sjúkrabóta eins og td sjúkraþjálfun og margskonar aðgerða og hjálpartækja vegna slits í vinnu.   Hér er t.d. átt við að það er mikill munur á verkamannafélögum þar stór hluti félagsmanna vinnur í fiskvinnslu í bónuskerfum  borið saman við félög þar sem stór hluti er fólk sem vinnur skrifstofuvinnu og afgreiðslustörf, svo stillt sé upp tveim andstæðustu pólunum í þessu sambandi.  Í sumum stéttarfélögum innan Starfsgreinasambandsins fer yfir 90% af árlegri innkomu sjúkrasjóðs út í greiðslur vegna þessara liða.  Einnig má benda á að það er feiknarlegur munur á rekstrarkostnaði stéttarfélaga sem eru með alla félagsmenn sína staðsetta í Reykjavík þar sem öll heilbrigðisþjónusta er, eða þeirra sem eru með hluta eða alla sína félagsmenn búsetta út á landi.   Einnig skiptir miklu máli vilji menn bera saman hvernig er staða félagsmanna er á vinnumarkaði.  Hversu stór hluti félagsmanna er í hlutastarfi, tilfallandi sumarvinnu eða vinnu með skóla yfir vetur?  Það er fólk sem aldrei öðlast full réttindi í sjóðum viðkomandi stéttarfélags, borið saman við hlutfall þeirra félagsmanna sem eru í fullu starfi með full réttindi.  Í RSÍ er hlutfallið td þannig að 99% félagsmanna eru í fullu starfi og með full réttindi.   Þau stéttarfélög sem eru með félagsmenn staðsetta annarsstaðar á landinu, þurfa að standa undir ferða- og uppihaldskostnaði þurfi þeir að koma til Reykjavíkur vegna eigin aðgerða eða fjölskyldumeðlima og jafnvel dvelja þar um langan tíma vegna sjúkraaðgerða.  Sama er upp á teningnum í félagslegu starfi.  Ef við lítum til okkar reksturs þá þurfum við að eyða umtalsverðum fjármunum í að fá okkar menn hingað vegna námskeiða, samningafunda og annarra félagslegra starfa og svo að fara um landið og halda fundi.   Svo er það hin hliðin það er sú stefna sem ákveðin hefur verið af viðkomandi félagi.  Við höfum ætíð farið þá leið að auka samfélagslega tryggingu eins mikið og frekast er kostur hverju sinni.  Við höfum hækkað bætur og víkkað út bótareglur sjúkrasjóðs eftir afkomu sjóðsins, sem hefur leitt til þess að við höfum ætíð verið í efstu röðum með bótareglur og í sumum tilfellum umtalsvert mikið hærri en flestir aðrir.  Við höfum einnig byggt upp orlofskerfi þar sem boðið er upp á hlutfallslega flestu og best búnu orlofshúsin, það eru um 80 félagsmenn bak við hvert okkar húsa á meðan það eru um 400 félagsmenn hjá sumum annarra  stéttarfélaga.   Til viðbótar þá erum við með þak á félagsgjöldum, sem td VR og flest önnur félög eru ekki með.  Fari félagsgjöld innan RSÍ upp fyrir ákveðið mark er endurgreitt.  Einnig rennur hluti félagsgjalds til verkfallssjóðs, en það er ekki hjá öllum stéttarfélögum.  Allt þetta gerir það að verkum að staða stéttarfélaga er feiknarlega misjöfn, jafnvel þrátt fyrir að þau væru öll rekinn með jafnmikilli hagsýni.   Að lokum þá er RSÍ og aðildarfélög þess mjög öflugir stuðningsaðilar rekstur Rafiðnaðarskólans, þetta fjármagn kemur inn í það kerfi auk eftirmenntunargjaldsins. Félagsmenn RSÍ  eiga td húsnæði skólans og honum leigð aðstaða vægu verði og allnokkur hluti kennslutækja og þróun nýrra námskeiða hefur verið kostað af okkur. Staða okkar á vinnumarkaði og tækniþróun kallar einfaldlega á þessa starfsemi ef við ætlum að tryggja launaþróun og starfsöryggi okkar fólks.     Verkefni fyrir næsta sambandsstjórnarfund RSÍ Á næsta sambandsstjórnarfundi RSÍ sem verður haldinn á Akureyri 14. og 15 apríl verða þessi mál til umræðu.  Það er í lögum sambandsins að taka árlega afstöðu til þess svigrúms sem er í sjóðum sambandsins til þess að endurskoða bótareglur sjúkrasjóðs og umsvif orlofskerfisins, eins og áður hefur komið fram, einnig hin félagslega rekstur.   Valið stendur um   a)         fella niður námskeiðsstyrki ·   hækka námskeiðsgjöld töluvert sakir niðurfellingar á stuðning við starfsmenntakerfi rafiðnaðarmanna ·   fella niður íþróttastyrki ·   tvöfalda  leigu á orlofshúsum ·   fækka orlofshúsum um allt að 2/3 ·   fella niður verkfallssjóð ·   fella út þak á félagsgjöldum ·   lækka nokkrar bætur úr sjúkrasjóð ·   að fella niður nokkra styrki Svo endurgreiða megi félagsmönnum.    b)   Eða fylgja áfram þeirri samtryggingarstefnu sem við höfum fylgt hingað til.  Það blasir við að við erum landssamtök með tæpan helming okkar félagsmanna búsetta utan höfuðborgarinnar og nánast allir okkar félagsmenn eru með full réttindi.  Auk þess þá vinnur hluti okkar fólks erfið, slítandi og hættuleg störf.  Þrátt fyrir að við gripum til ofangreindra aðgerða og RSÍ sé fjárhagslega sterkt, þá er samsetning félagsmanna þannig að við gætum aldrei endurgreitt jafnmikið og VR.  Fljótt á litið með tilliti til ársreiknings 2004, með því að fara ofnagreinda leið gætum við endurgreitt fullborgandi félagsmanni að meðaltali um 9 þús. kr. á ári.    Mín tillaga er að við kynnum þetta vel fyrir næsta Sambandsstjórnarfund.  Þar verði kjörið á milli þeirrar leiðar sem við höfum haldið okkur á og svo VR leiðarinnar. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?