Fréttir frá 2005

03 31. 2005

Um starfsframa og eðlilegar ráðningar.

Um ráðningu fréttastjóra Ríkisútvarps. Í öllum könnunum sem gerðar hafa verið meðal launamanna eru áberandi í efstu sætum óskir um að í því starfi sem þeir gegni séu verðleikar metnir ásamt möguleikum til aukinnar starfsmenntunar og starfsframa. Þessu stilla launamenn ofar en td launamálum í viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið. Ríkisútvarpið auglýsti nýlega starf fréttastjóra, þar var mjög skilmerkilega tekið fram á hvaða atriði væru lögð áhersla þegar ráðið yrði í þetta starf. Eftir umsóknir höfðu verið kannaðar var það ljóst að 5 töldust uppfylla þessi skilyrði umfram aðra.   Pólitískt valin stjórn Ríkisútvarps valdi aftur á móti þann umsækjenda, sem fjærst var því að uppfylla þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu. Með því er verið að brjóta allar viðurkenndar venjur við ráðningu starfsmanna og ekki hægt að túlka þennan gjörning öðru vísi en svo að viljandi sé verið að ögra starfsmönnum. Senda þeim þau skilaboð að það skipti engu hvernig þeir standi sig í starfi. Útvarpsstjóri hefur svo með ákaflega ótrúverðugum hætti reynt að réttlæta þennan gjörning.   Ítrekað hafði komið fram að sömu pólitísku öfl eru ákaflega ósátt við umfjöllun fjölmiðla um einkennilega og órökstudda ákvörðun þeirra um þátttöku íslendinga í stríðsrekstri Bandaríkjamanna. Fyrir réttu ári síðan sendi RSÍ frá sér ályktun um samskonar mál, þar sem því er beint til þessara sömu stjórnvalda, að allar ákvarðanir um mál sem snertu opna umræðu og fjölmiðlun þurfi að skoða vel og taka á þeim af yfirvegun. Við búum í fámennu málsamfélagi og erum lítil þjóð. Tryggja þarf að málfrelsi og tjáningarfrelsi verði ekki skert. En þau rök sem stjórnvöld hafa sett fram beinast að því að koma í veg fyrir að óþægilegar greinar og málflutningur um störf þeirra birtist í fjölmiðlum. Við þetta verður ekki unað.   Viðbrögð fréttamanna hjá RÚV eru skiljanleg og reyndar ákaflega eðlileg. Það er verið með misbjóða fólki með svona háttalagi. Ef ráða átti mann til þess að skilgreina og ná tökum á rekstri fréttstofunnar átti að auglýsa eftir honum. En það var auglýst eftir manni til þess að vera við stjórnvölinn hjá fréttamönnum og þess krafist að hann hefði mikla reynslu á því sviði. Allt málið er orðið að ósmekklegu pólitísku klúðri.   Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?