Fréttir frá 2005

04 16. 2005

Setning sambandsstjórnarfundar RSÍ Akureyri 14. - 15. apríl 2005.

Við setningu sambandstjórnarfundar á Akureyri flutti formaður sambandsins meðfylgjandi ræðu.   Góðir gestir og sambandsstjórnarmenn. Íslensk verkalýðshreyfing hafði strax í upphafi þá sérstöðu að vera ekki utangarðshreyfing.  Hún varð virkur þátttakandi í mótun þjóðfélagsins í nálægð við valdhafana og þurfti aldrei að berjast fyrir því að fá að tala og koma skoðunum sínum á framfæri.  Verkalýðshreyfingin taldi það strax sjálfsagðan hlut að skipta sér af lýðræðisþróuninni í landinu og var það hennar fyrsta hlutverk að brjóta á bak aftur ofurvald yfirstéttarinnar með afnámi hjúalaga og skapa almenning mannréttindi.   Íslensk verkalýðshreyfing hefur verið virkur þátttakandi í að stjórna landinu og það sem erlendum gestum okkar finnst eftirtektarvert að íslensk verkalýðshreyfing hefur meir að segja tekið að sér ábyrgð á ákveðnum efnahagslegum þáttum, sem er algjörlega óþekkt í öðrum löndum.  Þar eru það stjórnvöld sem bera pólitíska ábyrgð.  Í þessu sambandi getum við bent á þá ábyrgð sem verkalýðshreyfingin tók við að ná niður verðbólgunni árið 1990 og halda henni síðan í skefjum. Oft hefur það verið svo að verkalýðshreyfingin hefur tekið af skarið í stjórnun efnahagsmála.  Nú virðist það vera svo að við séum enn eina ferðina að lenda upp að vegg og gera eigi okkur ábyrg fyrir því að verðbólgan fari ekki upp í tveggja stafa tölu.   Þegar ráðamenn afhentu fáum útgerðarmönnum auðlind þjóðarinnar, má segja að þeir hafi horfið til fyrri tíma og endurskapað það lénsveldi sem verkalýðshreyfingin afnám fyrir rúmri öld.  Sama var upp á teningunum hjá ráðamönnum þegar örfáum voru afhentar bankastofnanirnar.  Og það sama virðist standa til hvað varðar Símann.  Erum við að verða annað Rússlandi?  Þar sem ráðandi stjórnvöld afhenda eignir samfélagsins til fárra.  Sú spurning brennur á okkur hvort við viljum búa í lýðræðislegu þjóðfélagi, þar sem verkalýðshreyfingin er áberandi í baráttuni fyrir almennum hagsmunum.  Nú ráða hér ríkjum 3 - 4 auðhringir auk bankana.  Fjármagnsfyrirtækin eru í óða önn að kaupa upp fyrirtækin.  Þetta snertir okkur því í vaxandi mæli ráða fulltrúar fjármálafyrirtækjanna rafiðnaðarfyrirtækjunum.  Þetta eru menn sem ólust ekki upp í okkar starfsgeira.  Oft menn sem aldrei hafa komið út í atvinnulífið.  Þeir koma úr háskólanum og ákvarðanataka þeirra markast fyrst og síðast af því að kreista út sem mestum arði.  Miskunnarlaust er hagrætt og hent út á götu starfsmönnum sem hafa varið öllum besta hluta starfsævi sinnar við uppbyggingu fyrirtækisins og gengið í gegnum launaskerðingar til þess að koma fyrirtækinu á beinu brautina.  Fyrirtækin eru bútuð niður úr þeim hirtir arðvænlegust partarnir, hinu er lokað og fjölskyldur sitja atvinnulitlar í verðlausum húsum sínum.  Peningahyggjan ræður för og allir ákvarðanatöku.   Það er ekki eins og áður, að í rafiðnaðarfyrirtækjum ráði ríkjum rafiðnaðarmaðurinn sem byggði það upp.  Maður sem berst ásamt starfsfólki sínu fyrir lífi fyrirtækis síns, gangi illa.  Í hádegisverði á fínu veitingahúsi setjast svo jakkafatagæjarnir í bláteinóttu skyrtunum með silkibindin og gera grín að þeim gamla sem reyndi að halda fyrirtækinu gangandi, svo það gæti brauðfætt sem flestar fjölskyldur.  Við búum við vaxandi einstaklingshyggju og sérhyggju.  Fjármálafyrirtækin hafa í hratt vaxandi mæli verið að seilast inn á starfssvið stéttarfélaganna með framboð á séreignarsjóðum, lífeyrissjóðum og tryggingum sem eiga að vera sambærilegar og sjúkrasjóðir okkar bjóða upp á.  Aðgangurinn að þessu umhverfi er svo er launareikningur sem múlbindur fólkið við bankann.  Þar fer fram purrkunarlaust val og þeim sem minna mega sín er ekki veittur aðgangur.   RSÍ er hluti af öflugri almannahreyfingu sem getur haft áhrif, en í dag hefur Verkalýðshreyfingin sannalega alltof of lítil áhrif.  Það blasa við okkur í íslensku allsnæktarþjóðfélagi hópar sem hafa það slæmt.  Öryrkjar og gamalt fólk sem ekki hefur öðlast full réttindi í lífeyrissjóðum.  Einstæðar mæður sem ekki eiga þak yfir höfuðið.  Um göturnar ráfar fólk sem er geðveikt og fær ekki aðstoð.  Unglingum sem oft eiga við geðræn vandamála að stríða er hent inn í fangelsin við hlið harðsvíraðra glæpamanna.  Afleiðing þjóðfélagslegrar þróunar, sérhyggja, harka og frekja peningaaflanna birtist okkur í því að flestir forystumanna verkalýðshreyfingarinnar virðast hafa takmarkaðan áhuga til þess að fjalla um þjóðfélagslega þróun.  SA er orðið áhrifalaust og virðist heldur ekki hafa áhuga á þeim málaflokki.  SA er skrifstofa með lögfræðingum, sem virðast hafa þann tilgang einan að semja um nógu litla kostnaðarauka.  Við sjáum þar ekki lengur einstaklinga í farabroddi atvinnurekenda eins og Einar Odd, Ragnar í ÍSAL eða Davíð Scheving og aðra áberandi athafnamenn úr atvinnulífinu.  Í Samtökum atvinnulífsins eru það hagsmunir stórfyrirtækjanna sem ráða og stefnt markvist að hámörkun arðs þeirra.  Litlu fyrirtækin eins og þau eru mörg í rafiðnaðargeiranum eru skipta engu, og samkeppnistöðu þeirra kastað svo ná megi hámörkun arðs stóru fyrirtækjanna.   Áhrif stjórnmálamanna inn í atvinnulífið hefur farið minnkandi. Halldór og Davíð virðast ekki hafa neinn áhuga á samvinnu eða samstarfi.  Þeir einfaldlega taka ekki upp símann þó ASÍ panti viðtal.  Ég spyr hvort það sé vegna þess, að við erum ekki nógu afgerandi í þjóðmálumræðunni og höfum ekki nægilega mikil áhrif?  Við fáum bara að vera með þeim þegar ekki er ágreiningur.  Til okkar eru send frumvörp til umsagnar eins og td nýverið um störf erlends verkafólks hér á landi.  Við höfðum náð samkomulagi um niðurstöðu, en þá kom símtal frá Landsvirkjun og Þórarni Viðari og ráðuneytið kippti tilbaka því sem var samkomulag um. Þá hófst málsmeðferð sem hlýtur að vera einsdæmi í sögu sjálfstæðrar þjóðar. Frumvarpsdrög sem búið var að semja af hálfu ráðuneytis í samráði við samtök launamanna og fyrirtækja er sent til fulltrúa erlends verktaka. Athafnir þessa verktaka höfðu þótt það ámælisverðar að tilefni þótti til þess að menn settust niður og sömdu frumvarp til laga. Þau frumvarpsdrög eru svo send til þessa erlenda verktaka.  Nú fyrir skömmu er svo kynnt nýtt frumvarp sem í mörgum aðalatriðum er algjörlega óásættanlegt, en eins og þið tókuð kannski tekið eftir, kynnti Félagsmálaráðherra það með þeim orðum: "Að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðsins ASÍ og SA, hef ég unnið þetta frumvarp"   Grein Agnesar í Mogganum um helgina vakti upp mikil viðbrögð almennings.  Það segir okkur að þjóðin er búinn að fá nóg af silfurfatseinkavæðingunni.  Fólk vill ekki þessa þróun.  Þjóðin vill greinilega ekki að fáir einstaklingar eignist allt.  Almenningur er greinilega búinn að fá sig fullsaddan af græðgisvæðingunni.  Meir að segja leiðarahöfundi Moggans er ofboðið.  Skyndilega virðist þjóðin vakna.  Er það núna sem er réttur tími til þess að ganga fram og benda á þau mál sem við viljum taka á dagskrá?  Og þá kemur spurningin;  "Þola félagsmenn það að við förum fram?  Vilja þeir það?"  Hafa samtök okkar breyst?   Er svo komið að láglaunamenn eru að verða að hóp, sem ekki er áhugaverður fyrir stéttarfélögin sakir þess að þeir skila svo litlum gjöldum inn í reksturinn?  Borga þeir ekki nóg í sjúkrasjóðina?  Eru fjármálafyrirtækin búinn að keyra okkur upp að vegg í samkeppninni um þá félagsmenn sem eiga pening?  Stéttarfélögin geta lent í þeirri stöðu að vera einungis með láglaunafólkið og hálaunafólkið fer inn í það umhverfi sem fjármálafyrirtækin eru að bjóða.  Að mínu mati yrði það niðurstaðan ef farið er út í VR leiðina og leggja hluta af innheimtum gjöldum inn á séreignareikning.  Endurgreiða hluta félaggjalds,  Þurrka úr framlag í Verkfallsjóðinn og lækka það framlag sem fer til reksturs RSÍ.  Greiða út verkfallssjóðinn og gefa með því út yfirlýsingu að við teljum ekki þörf á að gera ráð fyrir átökum um kjarasamninga?  VR segir að félagsmenn þurfi ekki á verkfallsbótum að halda, þeir geti nýtt sérsjóðinn til þess.  Allt þetta verður gefið upp til skatts.   Við verðum að taka afstöðu til þessa máls.  Svo endurgreiða megi félagsmönnum fella VR-ingar niður námskeiðsstyrki,  það leiðir til þess að hækka verði námskeiðsgjöld Rafiðnaðarskólans töluvert sakir niðurfellingar á stuðning við skólann.  Þeir fella niður íþróttastyrki.  Tvöfalda leigu á orlofshúsum, 35. ? 40.000 kr. í leigu fyrir vikuna mun klárlega leiða til þess að aðsókn mun minnka verulega og við verðum að fækka þeim verulega.  Þeir fella niður greiðslur í verkfallssjóð svo hægt sé að endurgreiða hluta af félagsgjaldi og borga út núverandi innistæðu verkfallsjóðs.  Einnig þyrftum við að fella niður þak á félagsgjöldum.  Lækka nokkrar bætur úr sjúkrasjóð og fella út nokkra styrki.  Með tilliti til ársreiknings 2004, þá gætum við með því að fara ofnagreinda leið endurgreitt fullborgandi félagsmanni að meðaltali um 9 þús. kr. á ári.  Eða fylgja áfram þeirri samtryggingarstefnu sem við höfum fylgt hingað til. Við erum landssamtök með tæpan helming okkar félagsmanna búsetta utan höfuðborgarinnar og nánast allir okkar félagsmenn eru með full réttindi.  Auk þess þá vinnur hluti okkar fólks erfið, slítandi og hættuleg störf.  Þrátt fyrir að við gripum til ofangreindra aðgerða og RSÍ sé fjárhagslega sterkt, þá er samsetning félagsmanna þannig að við gætum aldrei endurgreitt jafnmikið og VR.   Ef við förum þessa leið minnkar samtryggingin og við köllum yfir okkur að það verður erfitt að hjálpa þeim sem greiða lítið til sambandsins.  Eru þeir félagar okkar sem fara halloka byrði sem við viljum losna við?  Það eru ófáar fjölskyldur rafiðnaðarmanna sem við höfum bjargað frá fjárhagslegu hruni.  Erum við orðin of upptekin af því af hræðslu við að missa frá okkur þá félagsmenn sem eru að greiða góð félagsgjöld.   Ágætu félagar og gestir. Ég vona að við eigum árangursríka og málefnalega fundi fyrir höndum hér á Akureyri.  Við höfum fengið hingað góða fyrirlesara bæði í kvöld og eins á morgun.Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?