Fréttir frá 2005

04 16. 2005

Erindi Ólafs Darra Andrasonar hagfræðings ASÍ.

Ólafur Darri Andrason kom á sambandstjórnarfundinn og spáði hvernig samningunum myndi reiða af. Á sambandstjórnarnfundinn var boðið hagfræðingunum Ólafs Darra Andrasyni hjá ASÍ og Eddu Rós Karlsdóttir greiningardeild Landsbankans. Fyrir þau var lögð spurningin hvort við hefðum það svo óskalega gott eins sumir stjórnmálamenn halda fram og sumar fjármálastofnanir, að ekki væri ástæða til þess að segja samningunum upp í þó svo forsendur þeirra standist ekki.   Darri byrjaði á því að fara yfir efnahagslegar forsendur kjarasamninganna 2004 og benti á að þá hafi verkalýðshreyfinginn staðið frammi fyrir mestu framkvæmdum Íslandssögunnar, sem myndi valda miklum hagvexti og jafnvel mikilli þenslu. Verkalýðshreyfingin ákvað að gera tilraun til þess að leggja sitt af mörkum til að viðhalda stöðugleika í þeirri trú að aðrir gerðu slíkt hið sama. Gerðir voru lengri samningar en oftast áður eða til fjögurra ára. Samningarnir áttu að vera grunnur að efnahagslegum stöðugleika, jafnvægi á vinnumarkaði og grunnurinn að fjölgun starfa. Væntingar voru um aukin kaupmátt og litið til þess frekar en launahækkana. Umsamdar launahækkanir urðu því minni en margir höfðu vænst. Verðlagsforsendur samninganna miðuðu við 2,5% verðbólgu, en endurskoðunarákvæði. Ekki var samið um ákveðin ,,rauð strik? heldur var ákveðið að skoða verðbólguna á samningstímanum. Nú spyrja sumir hvort við höfum verið algjörlega veruleikafirrt?. Mitt svar er; Nei, spár gerðu ráð fyrir að þetta gæti gengið eftir. T.d. stóð í spá fjármálaráðuneytisins í janúar 2004 : Verðbólga er talin haldast tiltölulega stöðug á næstu árum. Þannig er spáð 2,5% meðalhækkun neysluverðs árið 2004 og 2,75% hækkun árið 2005.   Við gerð kjarasamninga var gert ráð fyrir vaxandi verðbólguþrýstingi vegna virkjana- og stóriðjuframkvæmda. En menn sáu ekki fyrir var að olíuverð hækkaði mikið skömmu eftir undirritun samninga og eins húsnæðisverð. Húsnæðisverð hefur hækkað og það eru lýkur á því að það hækki enn frekar. Einkaneysla hefur vaxið mikið í kjölfar breytinga á lánamöguleikum og lækkun vaxta. Hagstjórnarvandinn er því að hluta til heimatilbúinn. Ríkisvaldið er ekki með nægilegt aðhald í ríkisfjármálunum. Skattalækkanir illa tímasettar og breytingar á Íbúðalánasjóði í fyrra voru illa tímasettar.   Bankarnir moka út lánsfé til almennings á meðan Seðlabankinn stendur einn verðbólguvaktina með hækkun stýrivaxta. Stýrivextir hafa þau áhrif á verðbólgu að peningar verða ,,dýrari? til þess að almenningur og fyrirtæki dragi úr eyðslu. En þetta hefur lítil áhrif þar sem mikið framboð er af hagstæðum langtímalánum. Hækkun stýrivaxta styrkir krónuna til skamms tíma og er frestun á verðbólgu en kemur ekki í veg fyrir hana. Það má búast við gengisfalli krónunnar og tilheyrandi verðbólguskoti í lok þessa árs eða á því næsta. Sterk króna veikir atvinnustigið til lengri tíma og vinnur þar með gegn meginmarkmiðum kjarasamninganna um jafnvægi á vinnumarkaði og fjölgun starfa.   Undanfarnar vikur hafa heyrst þau viðhorf að allt sé í sómanum. Breyta eigi viðmiðunar mælitækjunum og nota vísitölu neysluverðs án húsnæðis við útreikning kaupmáttar. KB banka segir td: Ljóst er að þótt fasteignaverð hafi hækkað um 25% hefur húsnæðiskostnaður einstaklinga ekki hækkað um 25%. Þvert á móti hefur greiðslubyrði landsmanna lækkað að undanförnu vegna lækkandi vaxtakostnaðar en fjármögnunarkostnaður húsnæðis hefur lækkað um 25 til 30% undanfarið. Lækkun á vaxtakostnaði hefur mikil áhrif á kaupmátt landsmanna en fasteignaverð vegur um 12,5% í framfærslu og ætti því að draga úr framfærslukostnaði sem nemur 3,5 til 4%. KB banki heldur áfram; Sú hætta liggur þó í leyni að verðbólgan fari úr böndunum og væri því líkt og að hella olíu á eld að segja upp kjarasamningum en töluverð hætta er á víxlverkun launa og verðlags. Það væri því bjarnargreiði við almenning að segja upp kjarasamningum og gæti því rýrt kjör almennings með vaxandi verðbólgu og hækkun afborgana lána.   Þetta senst ekki ef þetta er skoðað nánar. Verðbólgumæling er meðaltal og einstakar breytingar hitta okkur sem einstaklinga misvel. Við erum ekki öll að kaupa okkur nýtt húsnæði. Greiðslubyrði hefur lækkað hjá mörgum sem hafa skuldbreytt. Höfuðstóll lána hækkar skv. vísitölu neysluverðs. Hvorki bankarnir né aðrir gefa okkur ekki afslátt af verðtryggingu vegna húsnæðisþáttarins. Fyrir þá sem ekki eru að skipta um húsnæði þá breytist lítið þótt markaðsverð á íbúð viðkomandi hækki, en fyrir þá sem eru að kaupa er staðan allt önnur og miklu verri. Vextir hafa lækkað en húsnæðisverð hækkað. Hækkun íbúðaverðs étur upp ávinning af lægri vöxtum.   Ef reyna á að spá í hvernig kjarasamningunum reiði af í haust, þá ræður þar mestu hvort verðbólgan verði áfram mikil. Nú er undirliggjandi verðbólga og einkaneysla mikil. Það er mikill þungi í stóriðju- og virkjanaframkvæmdum. Sterk króna mun þó líklega draga úr verðbólgu á næstu mánuðum. Þegar lengra líður á árið eða byrjun næsta árs má búast við vaxandi verðbólgu. Það eru allar líkur á að það reyni á forsenduákvæðin. Jafnframt er ljóst að hópar fara mjög misjafnlega út úr efnahagsástandinu. Kaupmáttur kjarasamninga skv. hefðbundnum mælingum verður líklega neikvæður á árinu. Kaupmáttur launa verður lítill. Í haust höfum við þann valmöguleiki að gera ekkert jafnvel þótt forsenduákvæðin bresti. Við getum samið um ,,plástra á sárin?, td launahækkanir og eða aukin réttindi. Hugsanlega mætti draga ríkisvaldið að samningaborðinu og skoða velferðarkerfið og lífeyriskerfið. Innan ASÍ á að hefja undirbúnings- og greiningarvinnu snemma í haust. En þegar til stykkisins kemur er það spurningin hvað við viljum sem einstaklingar og hreyfing gera? Þrátt fyrir vandaða greiningarvinnu getum við ekki reiknað okkur að niðurstöðu. Afstaðan til viðbragða við því ef forsendurnar bresta er og verður alltaf félagsleg! Samantekt GG

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?