Fréttir frá 2005

07 22. 2005

Sýning á raflögnum endurnýjuð í Árbæjarsafni

Í tilefni aldamótanna árið 2000 var sett upp sýning um þróun handverks byggingariðnaðarmanna í Árbæjarsafni síðustu öld. Í vor stóð FÍR fyrir enduruppsetningu raflagnasýningarinnar. Sigurður Steinarsson rafvirki sá alfarið um verkið.     Í tilefni aldamótanna árið 2000 var sett upp sýning um þróun handverks byggingariðnaðarmanna í Árbæjarsafni síðustu öld. Í vor stóð FÍR fyrir enduruppsetningu raflagnasýningarinnar. Sigurður Steinarsson rafvirki sá alfarið um verkið   Sigurður Steinarsson er hér í básnum sem hann sá um og segir sögu raflagnanna og sýnir einnig sögu helstu handverkfæra rafvirkja á síðustu öld. Eftirmenntunarnefndir byggingariðnaðarmanna kostuðu endurbyggingu þessa hús árið 2000 í Árbæjarsafni og settu þar upp áhugaverðar sýningar um þróun  byggingarefnis og handverks síðustu öld.   SKAMMDEGISMYRKUR Á ÍSLANDI  Skemmstur sólargangur í Reykjavík er um fjórar klukkustundir. Það má örugglega halda því fram, að baráttan við myrkrið hefur verið ofarlega í hugum Íslendinga alla tíð. Úti fyrir grúfði kolsvart myrkrið og þegar sást ekki til tungls var reynt að setja ljós í glugga til þess að vísa mönnum veg heim að bæjum. En þessi ljós voru svo dauf að þau megnuðu ekki að lýsa mönnum til vegar á fyrstu götum Reykjavíkur. Menn urðu að þreifa sig áfram. Þannig var ástandið til ársins 1860 þegar steinolíulamparnir fóru þá að flytjast til landsins. Fyrst voru þeir notaðir í sölubúðum og íbúðarhúsum kaupmanna í Reykjavík. Upp úr árinu 1870 fóru þeir að tíðkast í torfbæjum.   Bæjarstjórn Reykjavíkur tók 2.000 kr. lán í hafnarsjóði til þess að kaupa Steinolíugötuljósker, sem komu hingað árið 1876. Fyrsta ljóskerinu var valinn staður á Lækjarbrúnni við Bankastræti. Það var kveikt á því 2. september sama ár. Eitthvað var gleði bæjarbúa blandin og töldu sumir að það væri hreint og klárt hneyksli að bæjarstjórn væri að taka lán úr hafnarsjóði til þess að lýsa fyllibyttum og þjófum til vegar um bæinn.   Eldiviðarbaslið var daglegt stríð húsmæðra. Mór hafði alltaf verið aðaleldsneytið, og mótekjan í Vatnsmýrinni og Kaplaskjóli hafði dugað til þessa, en varð lélegri með ári hverju. Bærinn óx í austurátt, og Austurbæingar sóttu sinn mó austur á bóginn, í Norðurmýri, Elsumýri og síðar í Kringlumýri, en austubæjarmórinn þótti lakari.      FYRSTA RAFMAGN Á ÍSLANDI Á 18. öld fóru að berast upplýsingar um rafmagn til Íslands. Breskt tilboð um raflýsingu Reykjavíkur barst árið 1888. Nota átti 10 ha. gufuvél til þess að framleiða rafmagnið. Bæjarfulltrúar voru langt frá því að vera reiðubúnir að samþykkja svona byltingarkennda tillögu og henni var umsvifalaust hafnað. Kennslutæki í rafmagni voru keypt til Lærða skólans á árunum 1888 og 1889. Ætla má að þá hafi verið í fyrsta skipti kveikt á peru á Íslandi. Það næsta sem hægt er að segja úr sögu rafmagns hér á landi, er að árið 1894 var rætt á Alþingi hvort raflýsa ætti þinghúsið, en úr því varð þó ekki.   Árið 1894 kom til Reykjavíkur frá Kaupmannahöfn Vestur-Íslendingurinn Frímann B. Arngrímsson. Hann hafði stundað sjálfsnám í Vesturheimi í rafmagnsfræðum, m.a. var talið að hann hefði unnið hjá Edison. Hann fór fram á það bréflega við bæjarstjórn að hún kannaði hversu mikið vatnsmagn væri í fossum Elliðaánna og vegalengd frá þeim í bæinn. Sumum bæjarfulltrúum fannst þetta furðuleg dirfska, ?að eitthvert aðskotadýr úr Vesturheimi skyldi dirfast að biðja bæjarstjórn um svona upplýsingar. Honum væri nær að afla þeirra sjálfur.?  Valgarður Ó. Breiðfjörð ritstjóri var mikill áhugamaður um hvers kyns framfarir, hann varð vinur Frímanns og í samvinnu smíðuðu þeir rafhlöðu og tengdu við hana peru sem gaf frá sér dauft ljós. Þetta varð Valgarði hvatning til þess að kynna sér enn frekar rafmagnsáhöld og sumarið 1896 hafði hann rafmagnsdyrabjöllur til sölu. Tveim árum síðar, 7. maí 1898, auglýsti Eyjólfur Þorkelsson, fyrsti lærði úrsmiður Reykjavíkur í Ísafold: ?Rafmagnsdyrabjöllur með öllu tilheyrandi mjög ódýrar. Tilsögn fæst í að setja þær upp. Bjöllur þessar eru mjög nytsamar í stórum húsum.        FYRSTU VIRKJANIR Eyjólfur Þorkelsson úrsmiður setti upp lítinn rafal og setti upp tvö ljós á vinnustofu sinni. Þriðja herbergið sem hann setti upp ljós í var skrifstofa Ísafoldar. Notaðir voru 16 kerta bogalampar. En mótorinn var svo máttlaus að einungis var hægt að halda lifandi þremur lampanna í senn.   Jóhannes J. Reykdal réðst í að koma fyrstu rafmagnsstöðinni á Íslandi fyrir í nánd við Hörðuvelli í Hafnarfirði. Hafnarfjörður varð fyrsti raflýsti bærinn á Íslandi. Fyrsti rafallinn var 9 kW 230 volta rakstraumsrafall frá Frognerkilens Fabrik í Ósló. Árið 1909 keypti Hafnarfjarðarbær þessa stöð. Um 16 húsveitur með 150 lampastæðum voru tengdar við hana. Hver pera var 16 kerta eða 25 wött   Við virkjunarmöguleika í Elliðaánum voru tveir kostir. Annars vegar var stöð við Ártún, sem mátti stækka, hins vegar enn stærri við Grafarvog, ekki fjarri því sem sjúkrastöð SÁÁ stendur nú. Hún yrði gerð með því að grafa skurð úr Elliðavatni yfir í Rauðavatn og leiða vatnið þaðan niður í Grafarvog.   Fyrstu áratugina var mikið byggt af litlum virkjunum á heimabæjum. Margir sjálfmenntaðir menn komu til sögunnar í sveitum landsins og unnu að túrbínusmíð, gerð þrýstivatnspípna, mælingum á fallhæð, vatnsmagni og vatnsvegum smávirkjana hér á landi. Mikið var sett upp af vindmyllum með 6-12 volta rafal til ljósa. Lagðir voru annað hvort blýstrengir eða lagðar lagnir á hnöppum. Vatnsþétt efni var brætt í dósir. Efni var aðallega flutt inn af Einkasölunni, einnig af bræðrunum Ormsson og Eiríki Helgasyni. Í skipum voru allar lagnir úr málmi, snittaðar fittingslagnir.   Það voru oftast mikil viðbrigði þegar kveikt var á rafljósunum. Myrkrið hafði verið allsráðandi og í torfbæjum var ekki mikið um glugga. Sá leikur var vinsæll hjá rafvirkjum þegar þeir lögðu í sveitabæi, að tengja raflögnina við vindmylluna eða heimavirkjunina án þess að minnast á hvað stæði til og láta svo öll ljósin kvikna allt í einu. Sumum húsmæðrum varð svo mikið um að þær fengu aðsvif eða misstu það sem þær voru með í höndunum í gólfið. Það var oft mikið hlegið og mikil kátína að þessu afstöðnu. Enda var hér um mikinn viðburð að ræða. Hin mikla birta raflýsingarinnar varð húsmæðrum torfbæjanna oft til mikilla vandræða og kinnroða. Birtan kostaði miklar hreingerningar og kröfur á hendur húsbændum þeirra um bættan frágang á veggjum, gólfi og lofti.       ÍSLENZKIR RAFVIRKJAR  Halldór Guðmundsson, f. 14. 11. 1874 að Eyjarhólum í Mýrdal. Ungur maður fór hann að velta fyrir sér íslenskum fossum og rafmagni og sótti um styrk til Alþingis en fékk synjun. Þrátt fyrir það tók hann sig upp í ágúst 1902 og fór til Berlínar, ákveðinn í að komast í raffræðiskóla. Halldór setti upp rafstöð Jóhannesar Reykdal í Hafnarfirði og raflýsti þar nokkur hús. Reykvíkingar litu öfundaraugum á þessar framkvæmdir og veittu Halldóri 600 kr. styrk til þess að kynna sér rafvæðingu í Noregi.   Fram að lýðveldisstofnun þurfti samþykki sveinafélagsins til þess að komast á námssamning og kostaði það oft mikla baráttu. Nemar utan af landi komu með skjöl undirrituð af heimamönnum þar sem því var lofað að viðkomandi nemi myndi flytjast út á land þegar að námi loknu. Þeir leituðu uppi áhrifamenn í félaginu með þessi skjöl og ef þeir fengu samþykki eða vilyrði fyrir inngöngu var mun auðveldara að komast á samning. Ef ekki var til staðar vilyrði fyrir inngöngu í félagið, var útilokað að nemar kæmust á samning. Einn rafvirkjanema utan af landi sem var vel liðtækur í fótbolta, fullyrðir að þegar hann hefði lofað stjórnarmanni að hann gengi í KR, fékk hann inngöngu í félagið. Vinnutími lærlinga var 60 stundir á viku, þar með taldir 6 tímar til bóklegs náms. Þrætur voru um hvort lærlingum skyldi greiða kaup fyrir 60 stundir eða aðeins 54 stundir.   Farartæki sem rafvirkjar notuðu voru lang oftast reiðhjól, allt efni var borið á öxlunum eða hengt utan á hjólin. Þegar lagt var af stað í ný verkefni, var kassi með raflagnaefni settur á bögglaberann og búnt af járnrörum sett á öxlina, verkfærin voru hangandi um hálsinn framan á brjóstinu og síðan var hjólað, stundum bæinn á enda. Rafvirkjar sem unnu við að koma fyrir sendum útvarpsins á Rjúpnahæð hjóluðu þangað á hverjum morgni árið 1930 neðan úr miðbæ. Oftast voru þeir með eitthvert efni á bögglaberanum og stundum líka á öxlunum. Reiðhjólið var rafvirkjum og nemum nauðsynlegt og voru þeir oft með kröfur um stuðning vegna útgerðar þeirra í kjarasamningum.            

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?