Fréttir frá 2005

07 29. 2005

Hvað á maður að halda?

Fréttaflutningur fjölmiðla af athöfnum lögreglu á Kárahnjúkasvæðinu undanfarna daga hafa verið mér umhugsunarefni. Skyndilega er nægur mannafli til þess að senda upp eftir, en þegar verið var að brjóta lög um starfsréttindi og vinnuvélaréttindi þá var ekki til nægilegur mannafli tilþess að sinna lögbundnum störfum.  Undanfarna daga höfum við orðið vitni að mótmælum nokkurra einstaklinga gegn virkjanastefnu íslenskra stjórnvalda. Ummæli og viðbrögð lögreglunnar hafa verið mér umhugsunarefni. Skyndilega var kominn fram mannafli hjá lögreglu ásamt sérsveitinni til þess að sinna störfum á Kárahnjúkasvæðinu ásamt öryggisvörðum Landsvirkjunar. Ég er með þessu greinarkorni ekki að mæla athöfnum mótmælenda bót eða taka einhverja afstöðu um málflutning þeirra, það eru mótsagnarkennd viðbrögð yfirvaldsins.   Eins og landsmenn vita þá dró yfirvaldið fyrir austan heldur betur lappirnar þegar verkalýðsfélögin bentu ítrekað á að við störf á Kárahnjúkasvæðinu væru menn sem ekki uppfylltu sömu skilyrði til starfsréttinda og eins vinnuvéla- og ökuréttinda sem gerð væru til íslendinga. Það liðu td 4 mánuðir frá því að lögmaður ASÍ sendi fyrirspurn til löggæslunnar fyrir austan vegna starfsréttinda erlendra manna þar til yfirvaldið dróst loks að skrifborðinu og svaraði bréfinu. Það var gert með ósmekklegum hálfkæring og bréfið endaði á því að ef ASÍ hefði eitthvað við þetta að athuga þá skyldu trúnaðarmenn launamanna bara rannsaka málið sjálf!! Allir vita að löggæslan ein hefur lagalegan rétt til þess og bar reyndar skylda til þess að rannsaka málið, en hún vék sér undan því. Afstaða yfirvaldsins kom einnig oft fram í fjölmiðlum gagnvart því að réttindalausir erlendir menn væru að vinna á tækjum. Svarið var að ekki væru nægilega margir lögreglumenn á svæðinu að hægt væri að senda þá í langferðir upp á fjöll.   Með þessu var yfirvaldið í raun að upplýsa okkur um afstöðu sína hvað varðar starfsréttindi íslendinga og launakjör. Flestir landsmenn voru reyndar þeirra skoðunar að þessi viðbrögð, (viljaleysi til athafna) væri einvörðungu vegna yfirlýstrar afstöðu ráðherra þessa lands. Á sama tíma voru íslenskt fyrirtæki sektuð fyrir að nota réttindalausa íslendinga til starfa á íslenskum vinnuvélum. Íslendingar eru teknir fastir ef þeir aka um réttindalausir og sektaðir. Félagsmálaráðherra gekk hvað lengst á þessari braut þegar hann gerði grín að alþjóð og Alþingi, þegar hann svaraði þar fyrirspurn þingmanns um þessi mál. Félagsmálaráðherra svaraði með því að fara yfir hversu margir erlendir menn væru það augnablik staddir við Kárahnjúka og Vinnueftirlitið hefði þá nýverið afhent þeim erlendu starfsmönnum sem á því þurftu að halda vinnuvélaréttindi. Allir vissu að ráðherra vék sér undan að fjalla um það sem spurt var um, þeas alla þá sem höfðu verið þarna að störfum mánuðum saman og voru farnir af landi brott. Einnig hversu lengi hinir erlendu menn hefðu verið að störfum án tilskilinna réttinda.   Allir landsmenn vita að hvert einasta atriði sem trúnaðarmenn verkalýðsfélaganna hafa gert athugasamdir við hafa reynst réttar. Þrátt fyrir það hafa ráðherrar með núverandi forsætisráðherra í broddi fylkingar þrástagast á að verkalýðshreyfingin hafi farið offari gagnvart þessari virkjun. Við bíðum öll eftir að þeir skýri mál sitt með því aðsegja okkur í hvaða tilvikum það var gert.   Skelfing verður maður eitthvað innantómur þessa dagana þegar fréttatímar standa yfir. Hvað á maður eiginlega að halda? Eru íslenskir valdhafar búnir að sitja svo lengi að þeir að sveigja löggæslu landsins svona eftir því hvernig hvaða mál eru í gangi? 28.08.05 Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?