Fréttir frá 2005

10 22. 2005

Hvort villtu hærri laun eða skatta nágrannan þinn í drep?

Í leiðara Fréttablaðsins í dag leggur aðstoðarritstjórinn fyrir lesendur samviskuspurningu. Spurningin er um val á milli þess að fá hærri laun eða nágranninn borgi hærri skatta. Svar mitt er hærri laun. Ég er ákafur stuðningsmaður launahækkana. Í leiðara Fréttablaðsins laugardag 22. október leggur aðstoðarritstjórinn fyrir lesendur samviskuspurningu, sem hann telur sig finna í stefnu samtaka launamanna. Spurningin er um val á milli þess að fá hærri laun eða nágranninn borgi hærri skatta. Þessa spurningu styður hann svo með barnalegum og kostulegum útúrsnúningum. Svar mitt er hærri laun og ég er viss um að allir forystumenn launþegasamtakanna myndu svara á sama veg. Við erum allir ákafir stuðningsmenn launahækkana. Til þess að upplýsa leiðarahöfundinn um helsta umræðuefnið í kjaraviðræðum, þá snúast deilurnar fyrst og síðast um hvar mörkin liggi að mati forsvarsmanna fyrirtækjanna í rekstrargrundvallarófétinu hversu há laun þau geti greitt svo íslensk fyrirtækin tóri í hinu alþjóðlega samkeppnisumhverfi og jafnframt stuðlað að fjölgun starfa í samræmi við fjölgun á vinnumarkaði. Og þá kemur ætíð upp sú spurning hvort hægt sé að búa þannig um hnútana, að fólk geti framfleytt sér á þeim launum sem fyrirtækin treysta sér til þess að greiða. Sum fyrirtækjanna gera það greinilega ekki þessa dagana og eru að loka, og önnur eru að flytja erlendis í betra rekstrarumhverfi. Til þess að finna lausn á þessu þá komast samningamenn ekki hjá því að beina sjónum sínum að ríkisvaldinu og þá um leið skattkerfinu. Þetta er vandrötuð leið og er ekki eins einföld og leiðarahöfundur virðist telja, hækka bara laun. Það eru ekki samningamenn launamanna sem taka einhliða ákvörðun um launahækkanir eins og leiðarhöfundur virðist telja. Við þurfum að fá fyrirtækin til þess að samþykkja reikninginn svo tryggt sé að hann verði greiddur.   Allir vitibornir menn vita að umræðan í samtökum launamanna snýst um hvernig sé hægt að tryggja velferðarkerfið og tryggja framfærslu þeirra sem minnst mega sín. Ég er næsta viss um að langflestir íslendingar vilja að í íslensku samfélagi sé einhverskonar öryggisnet sem tryggir þeim sem verða undir í lífsbaráttunni lágmarksréttindi. Ég er líka viss um að flestir átta sig á því að til þess að þurfi fjármuni, sem afla þarf með einhverskonar sköttum. Umræðan snýst um hvernig sköttum. Eigum við að hafa neysluskatta, sumir hafa bent á að það séu einu réttlátu skattarnir og vilja leggja alla aðra skatta niður. Eigum við að hafa eignaskatta, sumir segja að þeir séu svo óréttlátir, menn séu búnir að greiða skatta af þeim tekjum sem sköpuðu eignirnar. Eða eigum við að hafa tekjuskatta, td eins þreps skatt eins og stefnt er að hér. Eða fjölþrepa skatt eins og samtök launamanna hafa lagt til. Sumir vilja hafa flatan skatt á öll laun og engan persónuafslátt. Það sé einfaldasta og réttlátasta leiðin. Það kosti hærri barnabætur en eru í dag og hærri bætur til öryrkja og aldraðra.   Lágskattakerfi frjálshyggjustjórnmálanna er farið að grafa undan forsendum opinbera velferðarríkisins. Á meðan hér eru hópar sem eiga í verulegum erfiðleikum, skenkja ráðherrar sér ofureftirlaun og tryggja sig með belti og axlaböndum í ríflegri lífeyrisgreiðslum langt umfram aðra landsmenn og að auki embættum hjá hinu opinbera á fullum launum.  Td væri hægt að stórbæta hag aldraðra og öryrkja með þeirri einföldu aðgerð að hækka frítekjumark þeirra, td með því að skerða ekki tekjutryggingu þeirra hafi þeir einhverjar litlar tekjur. Ef öryrkjar eða aldraðir reyna að bjarga sér með örlitlum tekjuauka þá er það skattlagt og þeim er gert að greiða allt að 100% í jaðarskatta. Í þessu sambandi má benda á það að ráðherrar töldu ástæðu til þess að setja ákvæði í eftirlaunalög sín um að þau skerðist ekki þó þeir hafi aðrar tekjur. Það er skoðun samtaka launamanna að tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins eigi að verja. Skattbyrðin er í vaxandi mæli færast frá hátekjufólki til lág- og millitekjufólks. Hagur ríkisins er það góður að mati ríkisstjórnarinnar að svigrúm er til þess að lækka skatta um allt að 25 milljarða á næstu tveimur árum. Þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvar forgangsverkefnin séu. Samtök launamanna telja það farsælla að nýta það svigrúm sem er til skattalækkunar með því að taka upp lægra skattþrep á lægri tekjur, hækka barnabætur og lækka virðisaukaskatt á matvæli. Lægra skattþrep á lægstu laun getur komið stað hækkun persónuafsláttar og eins verið lausn þar sem komið er til móts við kröfur um hækkun frítekjumarks. Það skapi bættan kaupmátt þeirra sem eru á lægstu launumGuðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?